Trúnaðarmenn

Upplýsingar um trúnaðarmannanámskeið.

Samkvæmt kjarasamningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum með 5 eða fleiri Eflingarfélaga. Trúnaðarmenn gegna mjög mikilvægu hlutverki í starfi Eflingar og félagið leggur mikla áherslu á að fjölga þeim, sem og að veita þeim öfluga fræðslu, þjálfun og stuðning.

Samþykkt um skipun og störf trúnaðarmanna

Félagið hefur gert sérstaka samþykkt þar sem farið er yfir þær viðmiðanir sem gilda um skipun og störf trúnaðarmanna. Hún byggir á landslögum, kjarasamningum og lögum Eflingar. Lesa samþykktina á PDF- formi hér.

Hlutverk

Trúnaðarmaður er tengiliður Eflingarfélaga á vinnustað við stéttarfélagið þeirra. Hlutverk hans/hennar er að gæta þess að farið sé eftir kjarasamningum og að lög og réttindi séu virt, og að aðstoða félagsmenn á sínum vinnustað við úrlausn réttindamála þegar við á. Trúnaðarmaðurinn miðlar upplýsingum frá félaginu til félagsmanna, og upplýsir félagið um stöðu mála á sínum vinnustað eftir því sem þörf krefur.

Trúnaðarmaður er kjörinn fulltrúi

Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við Eflingu. Eftir kosningu fær trúnaðarmaðurinn og vinnuveitandi hans senda staðfestingu á kjöri og trúnaðarmaðurinn byrjar að sitja trúnaðarmannanámskeið á vegum félagsins. 

Hér má sækja eyðublað – tilkynning um trúnaðarmann.

Trúnaðarmaður nýtur verndar

Trúnaðarmanni má ekki segja upp vegna starfa hans sem trúnaðarmanns og hann gengur fyrir öðrum um vinnu þurfi atvinnurekandi að fækka starfsfólki.

Er enginn trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Samkvæmt samningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa fimm eða fleiri félagsmenn.

Ef enginn trúnaðarmaður er á þínum vinnustað og þú vilt bjóða þig fram í það hlutverk, viljum við biðja þig um að hafa samband við svið fræðslu- og félagsmála í síma 510 7500 eða senda tölvupóst á felagsmal@efling.is.

Skristofa Eflingar aðstoðar við utanumhald og framkvæmd trúnaðarmannakosninga.

Fræðsla

Trúnaðarmenn þurfa að sækja námskeið á skipunartíma sínum og ber atvinnurekanda að tryggja að þeim sé það mögulegt án launaskerðingar.

Námskeiðin miða að því að bæta við hæfni trúnaðarmanna og þekkingu með því að fræðast um:

  • Kjarasamninga
  • Læra að lesa launaseðla
  • Verkalýðsbaráttan og samningaviðræður
  • Hlutverk verkalýðsfélaga, saga og starfssemi þeirra
  • Lög og réttindi fólks á atvinnumarkaði

Námskeiðin taka einnig fyrir ýmsa aðra þætti sem gera trúnaðarmenn betur í stakk búna til að sinna hlutverki sínu.

Nánar um námskeiðin hér.