Áfram unnið á grundvelli tilboðs SA

12. 02, 2008

 


Fjölmenn samninganefnd Flóans kom saman í gærkvöldi og ræddi stöðu samninganna

Samninganefnd Flóa     

Áfram unnið á grundvelli tilboðs SA

Í gærkvöldi kom stóra samninganefnd Flóabandalagsins saman til fundar þar sem farið var yfir tilboð Samtaka atvinnulífsins um launaliði ásamt öðrum tillögum sem liggja fyrir í samningsdrögum milli aðila. Um er að ræða þriggja ára samning með framlengingar- og uppsagnarákvæðum eftir fyrsta árið.  M.a. var farið yfir hugmyndir um launaliði, tryggingar gagnvart starfsmönnum sem ekki hafa notið almennra launahækkana,  launaþróunartryggingar, lágmarkstekjuviðmið fyrir hvert ár samningstímans ásamt forsenduákvæðum samninga. Meðal annarra atriða má nefna lengingu orlofs og aukinn stuðning til starfsmenntunar launafólks. Meginmarkmið þessa fundar var að skýra út stöðuna í kjarasamningunum og kom fram að viðræður eiga sér nú stað á grundvelli tilboðs frá SA sem lagt var fram um helgina. Þar að auki voru kynntar niðurstöður sem komnar eru í sameiginlegri vinnu aðila að samningunum.
Fram komu ýmis sjónarmið á fundinum en viðræðum verður haldið áfram í vikunni  um meginatriði kjarasamningsins. En einnig er stefnt að því að vinnuhópar ljúki sérkjaraviðræðum sem eru í gangi samhliða aðalkjarasamningunum.