Efling ályktar um þróun verðlags- og efnahagsmála

Efling ályktar um þróun verðlags- og efnahagsmála

Lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni

Efling-stéttarfélag lýsir mikilli óánægju með þróun efnahags- og verðlagsmála frá því kjarasamningar voru undirritaðir 17. febrúar sl. Eitt meginmarkmið samninganna var að tryggja kaupmátt og stöðugleika í efnahagsmálum og þar tók launafólk á sig mikla ábyrgð. Ef forsendur kjarasamninga bresta þá lýsir Efling-stéttarfélag fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni vegna aðgerðaleysis hennar. Þetta gerist þrátt fyrir margra mánaða ítrekaðar tillögur samningsaðila atvinnulífsins til að hafa áhrif á vaxta- og verðlagsmál. Efling-stéttarfélag krefst þess að vextir bankanna verði lækkaðir og hafnar öllum hugmyndum um enn frekari hækkun stýrivaxta við þessar aðstæður.

Þeir forsvarsmenn í viðskiptalífinu sem nú kynda undir verðbólgunni með hækkunum á vöru og þjónustu eru að valda atvinnulífinu, fyrirtækjum í landinum en síðast en ekki síst íslenskum heimilum óbætanlegu tjóni.  Efling-stéttarfélag vill sérstaklega hrósa þeim fyrirtækjum eins og IKEA sem hafa axlað samfélagslega ábyrgð við þessar aðstæður og haldið vöruverði óbreyttu fram á haust. Félagið hvetur önnur fyrirtæki til að feta í fótspor IKEA og almenning til að halda vöku sinni í verðlagsmálum og beina viðskiptum sínum til þeirra fyrirtækja sem halda aftur af verðhækkunum.

Efling-stéttarfélag lýsir yfir fullum stuðningi við aðgerðir til að draga úr eldsneytiskostnaði heimila og fyrirtækja og skorar á stjórnvöld að lækka tímabundið virðisaukaskatt á eldsneyti bifreiða.