Fyrsta gullmerkið til Halldórs Björnssonar

30. 04, 2009

    Aðalfundur Eflingar.

Fyrsta gullmerkið til Halldórs Björnssonar

Halldór Björnsson, fyrsti formaður Eflingar-stéttarfélags var á fjölmennum aðalfundi félagsins í vikunni heiðraður með fyrsta gullmerki félagsins. Fundarmenn risu úr sætum og hylltu Halldór með langvinnu lófataki. Sigurður Bessason sagði að það væri sérstakur heiður að færa Halldóri þessa viðurkenningu. Halldór var síðasti formaður Dagsbrúnar og átti drjúgan þátt í sameiningu stéttarfélaganna en einnig kom hann að sameiningu lífeyrissjóðanna í Framsýn sem nú heitir Gildi lífeyrissjóður. Hann var á ferli sínum jafnframt fyrsti formaður Starfsgreinasambands Íslands og varaforseti ASÍ um þriggja ára skeið.

Halldór Guðjón Björnsson fæddist  föstudaginn 16. ágúst 1928 á Stokkseyri.  Þess má geta að það var milt og gott veður, sunnan 2.  15 gráðu hiti og  skýjað.  Það hefur Veðurstofan staðfest. Halldór er ættaður úr Mýrdal í Vestur Skaftafellssýslu og þar var hann í sveit á sumrin frá 6 ára aldri og fram á fimmtánda árið sitt að Eystra Skagnesi. Halldór á langa og merkilega ættarsögu í Skaftafellssýslum og það má segja að hann sé ekta Sunnlendingur en allt sveitakallatal er nokkuð langt frá Halldóri og nútíminn er honum hugleiknari en fortíðin.

Það er eiginlega rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að athuga hvernig stendur á því að svo margir forustumenn í verkalýðshreyfingunni koma úr Vestur Skaftafellssýslu. Ef við byrjum á okkar manni Halldóri og gáum svo aðeins aftar í árum þá eru þarna í röð:
Jóhanna Egilsdóttir, Jóna Guðjónsdóttir, Margrét Auðunsdóttir og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.  Öll eru þau úr Vestursýslunni og öll verða þau formenn sinna félaga.

Um tvítugt er Halldór kominn í Dagsbrún og vinnur í Vélsmiðjunni Keili. 30. Mars 1949 er hann mættur með sínum vinnufélögum á útifundi á Austurvelli. Sigurður Guðnason og stjórn Dagsbrúnar hafði hvatt sína menn til að mæta á útifundinn og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það stórmál hvort Ísland skyldi ganga í NATO eða ekki. Þarna upplifir unglingurinn Halldór grímulaust ofbeldi og valdníðslu og sést vel  að þessi fundur hefur gengið nærri honum.
1950 er hann kominn í vinnu hjá Olíufélaginu og unir þar vel sínum hag, hann vinnur sig upp hjá fyrirtækinu og hefur góðar vinnutekjur, enda vinnudagur oft langur.
1952 er hann kosinn í Trúnaðarráð Dagsbrúnar og er þá jafnframt trúnaðarmaður á sínum vinnustað.
1958 er hann kominn í stjórn Dagsbrúnar. Stjórnin var þá svo skipuð: Formaður Hannes Stephensen, varaformaður Tryggvi Emilsson, ritari Eðvarð Sigurðsson, meðstjórnendur Vilhjálmur Þorsteinsson, Pétur Lárusson, Guðmundur J. Guðmundsson, Ragnar Gunnarsson og Halldór Björnsson.
Þetta voru átakaár og vinnudeilur tíðar og harðar.  Það var verið að berjast fyrir réttlæti og mannréttindum.  Fyrir atvinnuleysisbótum og sjúkrasjóðum og  orlofsréttindum.
1965 óskaði Eðvarð Sigurðsson sem þá var orðinn formaður Dagsbrúnar eftir því við Halldór að hann kæmi til starfa á skrifstofu Dagsbrúnar.  Halldór sem var ánægður í sínu starfi hjá Olíufélaginu var tregur til og ekki leist honum á launakjörin hjá Dagsbrún.  Það fór þó svo að til Dagsbrúnar réðist hann þetta sama ár.
Vorið 1975 er Halldór formaður samninganefndar 17 verkalýðsfélaga vegna ríkisverksmiðjanna og þarna sýnir Halldór greinilega hæfileika sína til að sameina krafta samstarfsmanna sinna og beina þeim á betri leið.  Í stað 17 samninga var gerður einn samningur fyrir allar verksmiðjurnar.  Það tókst að ná einum samningi fyrir alla starfsmenn og er Halldór alltaf dálítið drjúgur með sig af þessum samningi og það mátti hann líka.  Öllum þótti okkur það sárt þegar einkavæðingaröflunum tókst um síðustu aldamót að eyðileggja þennan samning.  Við hefðum betur átt Áburðarverksmiðjuna óskemmda í dag.
Allt frá fyrstu starfsárum sínum í Dagsbrún hafði Halldór orlofsbyggðamálin á sinni könnu.  Eðvarð sem var formaður fyrstu orlofsbyggðanefndarinnar vegna Ölfusborga sá það af hyggjuviti sínu að þessum málaflokki væri best borgið með því að fela Halldóri umsjón og uppbyggingu.  Að koma orlofsbyggðum verkalýðsfélagana í framkvæmd og halda stöðugt áfram að byggja og bæta það var verkefni sem Halldór sinnti af áhuga og alúð. 
Eðvarð Sigurðsson var formaður í stjórn Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar. Hann lést 1983.  Halldór tók við að honum látnum og sat sinn fyrsta fund sem formaður sjóðsins í ágúst 1983. Hann sat svo í Stjórn Lífeyrissjóðsins Framsýnar frá stofnun 1996 til 1. júni 2005 þegar  Gildi Lífeyrissjóður tekur við.
Sameining verkalýðsfélaga er stóra verkefnið hans Halldórs og líklega það flóknasta. Dagsbrún og Framsókn sem áður höfðu sameinaðan lífeyrissjóð urðu eitt félag  6. desember 1997 og það var bara byrjunin. Stafsmannafélagið Sókn, Félag starfsfólks í veitingahúsum sameinast 5. desember 1998 og það er stofndagur Eflingar-stéttarfélags. Iðja félag iðnverkafólks kom svo inn í sameiningu í árslok 1999.
Engum dettur í hug að þessar stóru sameiningar séu verk nokkurs eins manns og aldrei hefur Halldór haldið því fram en honum er öðrum betur lagið að draga fólk saman til samstarfs og virkja það til starfa. Halldór vissi að mikilvægt var einmitt að laða fólk til samstarfs og þar komu aðrir leiðtogar sem höfðu skilning á því mikla hlutverki að sameina stéttarfélögin.
Halldór var kosinn varaforseti ASÍ í nóvember árið 2000 og var það til ársfundar í október 2003.
Hann var kosinn formaður SGS á stofnfundi 13. október 2000 og sat til ársfundar í október 2004.   
Það er seiglan í fólki sem veldur því að við náum til enda og það er ekki síst fyrir mannkosti eins og Halldór hefur sem okkur hefur tekist að ná markmiðum okkar. Halldór tók síðan við gullmerkinu frá formanni Eflingar og þakkaði fyrir.