Það verður að bera virðingu fyrir þessum störfum

13. 04, 2011

thad_verdur_ad_bera_virdingu_fyrir_thessum_storfum                                                                                 Það verður að bera virðingu fyrir þessum störfum

– segir Guðrún Jóna Kristjánsdóttir, Eflingarkona

Það hafa orðið svakalegar breytingar á vinnuumhverfinu, segir Guðrún Jóna Kristjánsdóttir en hún hefur yfir 30 ára reynslu af vinnu við ræstingar. Ung kona hóf hún störf á Hvíta bandinu sem þá var skurðstofa spítalans en endaði starfsævina á gjörgæsludeildinni þar sem hún var síðustu 12 árin í starfi og síðust Eflingarfélaga á deildinni. Unga fólkið í dag þekkir ekki þessa baráttu sem við hin eldri þurftum að fara í gegnum. Nú er meira um að mamma og pabbi hjálpi unga fólkinu, en mín kynslóð varð að byrja að vinna um 16 ára og frá þeim tíma sáum við um okkur sjálf. Maður var svo harður nagli, segir hún.

Ég byrjaði að vinna 16 eða 17 ára á Hvíta bandinu. Þar byrjaði baráttan í fyrsta sinn, segir hún. Eitt skiptið var henni ætlað að vinna kauplaust á spítalanum yfir nótt en það samþykkti hún ekki. Ég komst ekki á Þórskaffi því ég átti að vera á vakt sem ég fékk ekki borgað fyrir. Í samráði við eina starfskonuna fór ég bara á ball í Þórskaffi, segir hún og eftir það fengu þær borgað. En ég hafði varnagla við. Maður átti alltaf góða þjóna þarna sem tóku niður símanúmer fyrir konuna sem var á næturvakt, en það bjargaði manni líka að maður drakk ekki og því gat maður þetta, segir hún. En það var ekki eintóm ánægja með þetta athæfi hennar Guðrúnar. Í refsingarskyni var sloppi hent í hana og hún látin aðstoða við að þvo lík. Ég held að ég gleymi þessu aldrei, ég hafði aldrei séð neinn svona nema ömmu mína. Það var harkan sex sem gilti, segir hún.

Minni samheldni en áður
Eitt af því sem hefur breyst er samheldnin á milli Eflingarfélaga segir Guðrún. Áður fyrr hafi verið mikill samgangur á milli Eflingarfélaga á milli deilda og mikil samvinna. Það vantar alveg þennan anda sem var. Hann er ekki til núna. Eitt af því sem er mikilvægt er að hlúa vel að nýju starfsfólki. Ég held að ef vel sé tekið á móti þér þá finni maður það og það skiptir rosalega miklu máli, segir hún. Einnig sé mikilvægt að aðstoða útlendingana við að læra íslensku svo þeir geti tekið virkari þátt í baráttunni. Hún segir að það megi læra margt af þeim. Þau koma frá allt öðrum heimi en við. Þau þurfa mörg hver að senda pening heim en þau bera virðingu fyrir eldra fólki, segir Guðrún.

Vantar virðingu fyrir störfunum
Ég held að það vanti í dag að bera virðingu fyrir störfum annarra. Á árum áður var ekki til neitt sem hét snobb. Fólk veit af sér þegar það kemur inn í störfin eftir langa skólagöngu, segir Guðrún. Hún segir það t.d. afskaplega mikinn ósið þegar fólk fari yfir blautt gólf sem verið sé að skúra. Það er mjög sjaldgæft í dag að þú sjáir mann nema staðar við nýskúrað gólf jafnvel þó þú sért að skúra, segir hún. Ungu stúlkurnar sem eru að byrja finni einnig fyrir þessu viðhorfi. Það verður að leggja meiri áherslu á það í dag að þó að þetta séu ekki háskólastörf verði að bera virðingu fyrir þessum störfum segir hún.

Gleymdist að semja við Sóknarkonurnar
Eftir að Guðrún gifti sig og átti strákana sína tvo fór hún að vinna á barnaheimilinu. Þar komu börn lækna og annars starfsfólks spítalans til vistunar yfir daginn, allra nema Sóknarfólksins. Það gleymdist alltaf að semja við okkur Sóknarkonur en það reyndi aldrei á það þar sem við vorum allar komnar með það stór börn, segir hún. Eftir að hafa unnið á barnaheimilinu fór Guðrún Jóna á A4 sem er heila- og taugadeild. Þá vann ég í býtibúri og við ræstingu. A4 er með þeim deildum sem mér þykir ofboðslega vænt um og það var mjög gott að vinna með starfsfólkinu, segir hún.

Líf og fjör í félagslífinu í Sókn
Aðspurð um hvernig félagslífið í Sókn á sínum tíma hafi verið segir Guðrún að það hafi verið líf og fjör í kringum það. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sem þá var formaður hafi verið rosalega skemmtileg kona. Hún var svakalega ákveðin, alþýðleg og þekkti okkur allar með nafni og það fannst mér alveg stórkostlegt. Á fundum hafi oft verið mikil læti en eftir að sumar konu giftu sig, hafi þær haldið sig meira til hlés. Mér var alveg sama þó ég væri gift, ég vildi berjast fyrir auknum réttindum, segir hún. Sókn var rosalega duglegt félag og Aðalheiður ákveðin í því sem hún tók sér fyrir hendur. Á einum fundinum stökk Aðalheiður upp úr stólnum og sagði við mig: Guðrún vilt þú bara ekki taka við? Ég horfði á hana og sagði nei Aðalheiður, loftið tekur ekki okkur báðar en við vorum nokkrar sem vorum nokkuð áberandi þarna, segir Guðrún.

Síðustu 12 árin vann Guðrún Jóna á gjörgæslu sem hún segir að sé heimur út af fyrir sig. Frá A4 fór ég á slysadeildina, svo á þvottamiðstöð og þaðan á gjörgæsluna, segir hún. Það var tekið afskaplega vel á móti henni og hún heldur enn sambandi við konurnar sem unnu með henni. Guðrún hélt baráttu sinni áfram þar. Ég átti að fá hækkað kaup og fékk það en svo fór ég að spyrja konurnar um þessa hækkun og komst að því að þær voru langt undir mörkum. Þær eru enn að brosa að þessu. Þær væru enn á þessum launum ef ég hefði ekki sagt þeim það en þá fóru þær af stað. Guðrún var síðasti Eflingarfélagsmaðurinn á gjörgæslunni en almenna starfsfólkið er nú í öðru stéttarfélagi.

Ekkert sjúkrahús ef enginn sæi um hreinlætið á staðnum Það lifir enginn maður á 160 eða 180 þúsundum segir Guðrún, baráttan fyrir mannsæmandi kjörum heldur áfram. Starfsreynslan er ekki metin, það verður að meta hana, segir hún. Ekki sé sanngjarnt að vera með rétt yfir 200.000 kr. í laun eftir nokkurra tuga ára starfsreynslu. Eftir 12 ár í starfi fær maður enga hækkun og því þurfi að breyta. Það var góð barátta þegar starfsreynslan var metin til meira orlofs. Margt hefur lagast en það þyrfti að koma inn launahækkun eftir 20 eða 30 ár í starfi segir Guðrún. Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir því að ef Eflingarfólk ynni ekki sín störf þá væri t.d. enginn spítali því það erum við sem gerum hreint, segir hún að lokum.