Leiðrétting launa nái til allra starfsmanna LSH

15. 02, 2013

umonnunarstarfsmadur_edited-1

Efling krefst endurskoðunar stofnanasamnings

Leiðréttingar launa nái til allra starfsmanna LSH

Nú þegar fyrir liggur nýr stofnanarsamningur á milli hjúkrunarfræðinga og Landspítalans er full ástæða til þess að vekja athygli á stöðu þeirra sem vinna almenn störf inn á spítalanum og kjörum þess fólks. Í yfirlýsingum velferðaráðherra hefur komið fram að nú sé kominn tími til að leiðrétta launkjör starfsmanna þar sem mikill meirihluti starfsmanna séu konur. Starfsmenn innan Eflingar sem vinna hjá Landspítalanum og á hjúkrunarheimilum er nánast hrein kvennastétt enda yfir 96% kvenna sem sinna þessum störfum. Efling-stéttarfélag lítur svo á að velferðaráðherra sé að tala til alls þessa hóps í yfirlýsingum sínum enda hefur hann vakið athygli á að launkjör þessa fólks séu allt of lág. Þetta segir í erindi sem Efling-stéttarfélag hefur sent LSH í kjölfar breytinga á stofnanasamningi LSH og hjúkrunarfræðinga.

Í nýlegri launkönnun Eflingar kemur fram að óútskýrður kynbundinn launamunur á heildarlaunum sé um 19%. Meðaltal heildarlauna í umönnunarstörfum er um 265 þúsund krónur á mánuði en fyrir dagvinnu 231 þúsund. Byrjunartaxti félagsmanna Eflingar sem starfa á Landspítalanum er 191.622 krónur.

Stöðugt fjölgar þeim einstaklingum sem vinna í hlutastarfi og eiga ekki kost á því að vera í fullu starfi og í könnuninni 2012 kemur fram að það séu um 51% starfsmanna umönnunarstofnana og þar af eru 65% þeirra í minna en 75% starfi. Tveir af hverjum þremur í hópi þeirra sem starfa við umönnun segjast vera óánægðir með launin sín enda hefur yfirvinna verið nánast þurrkuð út hjá þessum hópi á hruntímabilinu.

Þá telja starfsmenn við umönnun að álag hafi aukist í vinnunni og þannig svöruðu 65% árið 2012 að álagið hefði aukist og 33% að það hefði staðið í stað.  Árið 2011 var hlutfallið enn hærra og svöruðu þá 77% þeirra sem starfa við umönnun að álag hafi aukist hjá þeim í vinnunni.

Því verður ekki trúað að þessum nýgerðum stofnanasamningi Landspítalans og hjúkrunarfræðinga sé ætlað að brjóta nýtt blað varðandi launþróun komandi ára. Að hér sé verið að taka upp launstefnu þar sem að leggja eigi til meiri launhækkanir til þeirra sem fyrir hafa mun betri kjör. Því hljóta þessar launabreytingar að ná til allra umönnunarstarfa.

Sú stefna að reyna að þoka lægstu launum upp hægt og bítandi hefur byggst á krónutöluhækkun launa sem þýðir að þeir launalægri hafa hlutfallslega fengið ívið meiri hækkanir en þeir sem ofar liggja.

Þá lýsum við yfir verulegum áhyggjum með þá nálgun spítalans að launbreytingar verði bornar upp af hagræðingum innan spítalans. Hagræðingar sem átt hafa sér stað á undangengnum árum hafa verið fólgnar m.a. í því að bjóða út nánast alla ræstingu spítalans. Við gerum þá kröfu bæði til spítalans og ríkisstjórnarinnar sem rekstraraðila að störf okkar fólks verði tryggð og lagðir verði til nægjanlegir fjármunir til þess að standa undir þessum launabreytingum.

Efling mun funda með LSH í byrjun næstu viku þar sem farið verður fram á að stofnanasamningur aðila verði endurskoðaður.