Fjallað um ójöfnuð og áherslubreytingar í kjarabaráttu á formannafundi SGS

Formaður Eflingar kallar eftir áframhaldandi samræðum við leiðtoga hreyfingarinnar um sameiginlegar áherslur

Dagana 31. maí og 1. júní var haldinn fundur formanna og varaformanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins (SGS), en innan SGS er að finna öll staðbundin félög og deildir almenns verkafólks landið um kring. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók þátt í fundinum ásamt Sigurrós Kristinsdóttur varaformanni auk þess sem Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri og Ragnar Ólason kjaramálafulltrúi hjá Eflingu og stjórnarmaður í SGS voru viðstaddir.Ójöfnuður hefur aukistÁ fundinum var rætt um ýmis innri málefni SGS en á fimmtudag flutti Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði erindi þar sem hann greindi frá niðurstöðum rannsóknar sinnar Ójöfnuður á Íslandi. Þær niðurstöður sýna fram á stöðuga og verulega aukningu efnahagslegs ójöfnuðar í íslensku samfélagi allar götur síðan um 1995. Tímabundið dró að vísu úr ójöfnuði með hruninu 2008 en í kjölfar efnahagsbatans hefur ójöfnuður tekið að aukast á ný. Niðurstöður rannsókna Stefáns eru skýrar og afgerandi varðandi þessa þróun.Í lok erindis síns ræddi Stefán sérstaklega um þá söguskoðun sem fram hefur komið í kynningarefni frá ASÍ en þar er því haldið fram að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur laun á tímabilinu eftir Þjóðarsáttarsamningana 1990 og að tímabilið á undan því hafi einkennst af kollsteypum og minni kaupmætti. Stefán dró upp talsvert aðra mynd, meðal annars með vísun í eigin rannsóknir. Hann rakti kollsteypur áranna 1960-1980 fyrst og fremst til gengisfellinga, og benti á að kaupmáttur launa jókst verulega yfir tímabilið í heild. Kaupmáttur launa jókst að meðaltali mun minna á hverju ári eftir árið 1990. Þá sýna athuganir hans skýrt að ójöfnuður óx eftir 1995 sem kemur ekki heim og saman við þá fullyrðingu ASÍ að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur.Erindi Stefáns vakti mikla athygli og skapaði heitar umræður meðal formanna og varaformanna aðildarfélaga SGS. Meðal annars kom fram í máli nokkurra formanna að rannsóknir Stefáns styrktu mjög þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á málflutning ASÍ að undanförnu og sem Efling hefur tekið undir. Sérstaka athygli vakti hve skýr áhrifsþáttur vöxtur fjármálageirans og lítt skattlagðra fjármagnstekna hefur verið í vaxandi hlutdeild hinna ríkustu í tekjum og eignum þjóðarbúsins skv. rannsóknum Stefáns.Mikilvægt að vinna samanÁ föstudag áttu sér stað frekari umræður meðal formanna og varaformanna í tilefni af komandi kjarasamningavetri. Við það tækifæri hélt Sólveig Anna tölu þar sem hún lagði mikla áherslu á baráttuna gegn ójöfnuði. Hún bar fram þá uppástungu að mögulega mætti hugsa sér eins konar ójafnaðarvísitölu byggða á þeirri aðferðafræði sem Stefán hefur þróað og að setja skilmála um ákveðna hámarkshækkun slíkrar vísitölu inn í kjarasamninga, sem forsenduákvæði. Þá ræddi Sólveig um þörfina á kerfisbreytingum á hinum samtengdu sviðum lífeyris- og húsnæðismála.Sólveig Anna nefndi sérstaklega að nú þegar íslenskur almenningar bæri miklar vonir til verkalýðshreyfingarinnar væri mikilvægt að vinna saman á grundvelli hugmyndafræðilegs samhljóms og að umræður um markmið og samfélagssýn ættu að vera málefnalegar en snúast ekki um persónur eða klíkur. Hún þakkaði formönnum og varaformönnum innan SGS fyrir ánægjuleg samskipti á fundinum og óskaði eftir fleiri tækifærum til að halda áfram að dýpka þau tengsl á forsendum sameiginlegra áherslna.