Norrænir gestir til Eflingar

17. 10, 2019

Efling – stéttarfélag fékk til sín góða gesti frá Norræna flutningsmannasambandinu (NTF-Nordiska transportarbetarfederationen).Fulltrúar stéttarfélaga í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem tilheyra NTF funduðu með stjórn og starfsfólki Eflingar ásamt trúnaðarmönnum nokkurra fyrirtækja.Margt var rætt og ljóst að starfsumhverfi okkar og kollega okkar á Norðurlöndum er ekki svo ólíkt. Það sem helst skilur á milli er að lega landsins gerir það að verkum að hérlendis er minna um að erlendir verktakar sinni akstri. Það hefur þó aukist hér eins og annars staðar þó enn sé aðallega um að ræða akstur farþegabíla. Í Skandinavíu eru vörubílstjórar frá austur evrópskum verktakafyrirtækjum í auknu mæli farnir að sinna vöruflutningum og fylgir því talsvert mikið um brot á vinnulöggjöf og kjarasamningum viðkomandi landa. Algengustu brotin eru að hvíldartími sé ekki virtur og falskir ráðningasamningar. Verktakafyrirtækin komast upp með að brjóta á bílstjórum sínum með því að útbúa tvöfalda ráðningarsamninga, einn í heimalandinu sem inniheldur oft ákvæði sem stangast á við norræna vinnulöggjöf og svo annan sem lítur út fyrir að standast sömu lög.Í Noregi hefur talsvert borið á því að vörubílar séu ekki nægilega vel útbúnir til að takast á við vetrarhörkur og erlendir bílstjórar ekki þorað að leita eftir aðstoð eða vitað við hvern eigi að hafa samband lendi þeir í erfiðleikum. Í kjölfarið hefur komist upp um mansalsmál þar sem erlend glæpasamtök eru að baki verktakafyrirtækjanna og hóta starfsfólki sínu leiti það aðstoðar.Félagar okkar hjá NTF vöruðu okkur við að þetta geti orðið að veruleika hér á landi og hvöttu okkur til að hafa vakandi auga með erlendum vertakafyrirtækjum. Erlend hópferðafyrirtæki hófu keyrslu hér í sumar og hefur Vinnueftirlitið fylgst með starfsemi þeirra.Það hefur verið í umræðunni hvort Íslendingar eigi að leyfa starfsemi Uber eða sambærilegra fyrirtækja hér á landi. Félagar okkar í NTF ráða okkur alfarið frá því vegna ýmiss konar vandamála sem upp hafa komið. Til að mynda eru bílstjórar hjá Uber undirverktakar, sem þýðir að þeir standa utan laga stéttarfélaga og eiga ekki rétt á bótum, stéttarfélagsgreiðslum eða öðrum réttindum sem hefðbundnir launþegar hafa.Stærsta stéttarfélag Danmerkur, 3F, stóð nýlega fyrir herferð, STOP campaign, þar sem barist var fyrir matar- og kaffihléum bílstjóra. Það tókst svo vel að meðlimum í stéttarfélögin fjölgaði um 700 og um 900 manns að jafnaði hittust hvern sunnudag til að funda um nýja kjarasamninga.Kollegar okkar á Norðurlöndunum eru í góðu samstarfi við stéttarfélög víðs vegar um í Evrópu og telja að besta leiðin til að takast á við brotastarfsemi á vinnumarkaði sé að efla stéttarfélögin þar sem vandamálin eru stærst. Í því skyni hafa þeir fengið ILO (Alþjóðasamband verkafólks) með sér í sameiginlegt átak.Að fundi loknum var farið í heimsókn til Sorphirðu Reykjavíkurborgar. Þar var vel tekið á móti hópnum, sagt frá starfseminni og margt skrafað og skeggrætt og er gaman að segja frá því að hópurinn komst að því að Ísland er eina landið á Norðurlöndum þar sem konur sinna sorphirðu og keyra sorphirðubíla.