Efling dregur til baka samninga um leigu orlofshúsa stéttarfélagsins í apríl

Efling-stéttarfélag hefur tekið ákvörðun um að draga til baka alla samninga við félagsmenn sína um leigu orlofshúsa stéttarfélagsins frá 6. apríl og fram til 1. maí. Um leið hvetur stéttarfélagið eigendur einkasumarbústaða til að fara að fordæmi stéttarfélagsins, axla samfélagslega ábyrgð með því að fara að tilmælum Almannavarna og landlæknis og halda sig heima um páskana.Efling er annað fjölmennasta stéttarfélag landsins með samningsumboð fyrir hátt í 26.000 meðlimi sem starfa á almennum og opinberum vinnumarkaði á höfuðborgarsvæðinu allt til Ölfuss. Ríkur þáttur í starfsemi stéttarfélagsins hefur frá upphafi verið leiga orlofshúsa félagsins um landið allt, m.a. í samrekstri með öðrum stéttarfélögum í Ölfusborgum og Svignaskarði.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að ákvörðunin hafa verið þungbær. „Ég er mjög leið yfir að þurfa að taka þessa ákvörðun því að ég veit hvað dvölin í bústöðunum hefur mikla þýðingu fyrir mitt fólk enda hafa fæstir í hópi verkafólks aðgang að eigin bústað,“ segir hún. „Á hinn bóginn lít ég svo á að okkur beri skylda til að halda áfram að taka ábyrga afstöðu gagnvart útbreiðslu Kórónuveirunnar, eins og við í Eflingu höfum gert frá því að fyrsta tilfellið greindist á Íslandi. Því förum við að tilmælum stjórnvalda og drögum samningana til baka í þeirri von að með því gerum við okkar til að minnka hættu á slysum á þjóðvegum landsins og hægja á útbreiðslu veirunnar.“Sólveig Anna hvetur eigendur einkasumarbústaða til að axla sömu ábyrgð og halda sig heimavið. „Það er að mínu mati óásættanlegt að verka- og láglaunafólk komist ekki í orlofshús vegna faraldursins en tekjuhærra fólk geti áfram notið þeirra gæða sem fólgin eru í að komast út fyrir bæinn. Við hljótum að ætla öll að vera saman í því að hlýða tilmælum yfirvalda og halda okkur heima um páskana.“Efling hefur sent þeim Eflingarfélögum sem tekið höfðu orlofshús stéttarfélagsins á leigu í apríl skilaboð um að samningar um leiguna verði dregnir til baka af óviðráðanlegum ástæðum. Leigutökum verður greitt til baka og leitast við að koma til móts óskir þeirra um leigu orlofshúsa í eigu stéttarfélagsins síðar á árinu.