Select Page

Átakinu „Ég læt ekki svindla á mér – segjum NEI við launaþjófnaði„ er ætlað að upplýsa og fræða ungt fólk um réttindi þess á vinnumarkaði og stemma þannig stigu við launaþjófnaði.

 

ÁRIÐ 2018 NAM LAUNAÞJÓFNAÐUR GAGNVART 25 ÁRA OG YNGRI AÐ MINNSTA KOSTI 53 MILLJÓNUM KRÓNA 

 

Nýleg rannsókn ASÍ, sem byggir á skoðanakönnunum og launakröfum stéttarfélaga, bendir til að brotastarfsemi hafi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélög fá inn á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Margt bendir til þess að sumir atvinnurekendur reyni kerfisbundið að komast undan samningsbundnum réttindum og lágmarkskjörum starfsmanna. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að launafólk þekki hvaða réttindi það hefur.

Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna ár hvert meðal aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Brotastarfsemi beinist að stórum hluta gegn yngra launafólki sem er með lægri tekjur, í óreglulegu ráðningarsambandi eða hlutastörfum.

Fjögur aðildarfélaga ASÍ gerðu 768 launakröfur á síðasta ári upp á samtals 450 milljónir króna. Af þeim var launaþjófnaður 25 ára og yngri a.m.k. 53 milljónir króna.

Ungt fólk á vinnumarkaði er af ýmsum ástæðum í viðkvæmari stöðu en eldra fólk. Þessi hópur býr að takmarkaðri reynslu, stoppar oft stutt við á vinnustöðum, er ekki upplýst um réttindi sín og veit jafnvel ekki að hægt er að sækja aðstoð til stéttarfélagsins.

Hefur verið brotið á þér á vinnumarkaði?

Við erum að safna reynslusögum til að sýna hvernig brotum ungt fólk verður fyrir í starfi. Þær verða birtar á vef Eflingar og facebooksíðu
Ef þú vilt segja þína sögu hafðu samband við okkur, thorunn@efling.is   

Algeng kjarasamningsbrot hjá aldurshópnum 18-24 ára

 • Eru ekki með skriflegan ráðningarsamning
 • Fá ekki umsamið neysluhlé (kaffihlé, matarhlé)
 • Fá ekki greidd laun í fjarveru veikinda
 • Fá ekki launaseðil
 • Hafa ekki fengið kjarasamningsbundna orlofs- eða desemberuppbót
 • Ólaunuð prufuvinna
 • Fá ekki sumarfrí
 • Fá ekki lögbundinn vikulegan frídag
 • Þótt jafnaðarkaup sé ekki alltaf dæmi um launaþjófnað, þá getur það í vissum tilfellum verið það og er algengt hjá ungu fólki í hlutastörfum

Þetta er gott að vita

 • Ef þú ert ekki með ráðningarsamning um vaktavinnu og ef þú hefur ekki samþykkt vaktavinnu áttu að fá greidda yfirvinnu, ekki álag, utan dagvinnutíma.
 • Þú átt rétt á að vinna alla vaktina þína. Ef þér er sagt að fara heim snemma áttu samt að fá alla vaktina borgaða.
 • Starfshlutfall þitt ætti að vera ein ákveðin tala, ekki bil á borð við 80-100%.
 • Það er þitt val hvort þú vinnir yfirvinnu, aldrei skylda.
 • Almennt áttu rétt á kaffi- og matarhléi. Ef þú færð ekki hléin þín áttu rétt á að fá þau greidd. Á milli vakta eiga að líða minnst ellefu klukkutímar. Ef þessi hvíld fæst ekki, er það bætt upp með launuðu leyfi. Á skipulögðum vaktaskiptum mega líða 8 klukkustundir milli vakta.
 • Minnst 10,17% eiga að vera greidd ofan á launin þín sem orlof. Það á að leggja orlofið inn á reikning á þínu nafni, þú átt peninginn.
 • Þú átt að fá orlofsuppbót í júní og desemberuppbót í desember ef þú vinnur þá og hefur unnið einhvern hluta af árinu.
 • Allt starfsfólk hefur rétt til launaðra veikindadaga. Það er á ábyrgð yfirmanns að finna afleysingu fyrir veikan starfsmann.
 • Uppsögn á að vera skrifleg. Ef atvinnurekandinn vill að þú víkir strax frá störfum áttu rétt á að fá uppsagnarfrestinn borgaðan.

Ef þú nýtur ekki þessara réttinda á þínum vinnustað, eða þarft aðstoð við lestur launaseðla, getur þú sótt aðstoð á skrifstofu Eflingar.

Hafðu meðferðis:

 • Ráðningarsamning ef þú ert með hann
 • Launaseðla frá síðustu mánuðum
 • Vaktaplanið þitt
 • Þína eigin tímaskýrslu yfir hvað þú vannst mikið hvern vinnudag.
Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere