Select Page

A-listi

stjórnar og trúnaðarráðs Eflingar-stéttarfélags

Formaður

Ingvar Vigur Halldórsson – starfsmaður Efnamóttökunnar

Ingvar hefur alla tíð unnið sem verkamaður og tekið þátt í félagsstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna frá unga aldri. Í dag vinnur hann hjá Efnamóttökunni hf. og er jafnframt trúnaðarmaður þar. Ingvar er giftur Arndísi Einarsdóttur og á hann tvö börn og eina fósturdóttur.

Gjaldkeri

Ragnar Ólason – starfsmaður skrifstofu Eflingar – stéttarfélags

Ragnar hefur unnið hin ýmsu verkamannastörf og var trúnaðarmaður hjá Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar og aðaltrúnaðarmaður Eflingar hjá Reykjavíkurborg áður en hann hóf störf á skrifstofu Eflingar 2006. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi verkalýðshreyfingarinnar. Ragnar er giftur Árna Geir Magnússyni og á tvo syni af fyrra hjónabandi.

Meðstjórnendur

Halldór Valur Geirsson – starfsmaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur

Halldór stundaði sjómennsku á árum áður en eftir sjómennskuna starfaði hann sem bílstjóri áður en hann hóf störf hjá stofnun Reykjavíkurborgar sem síðar varð Orkuveita Reykjavíkur. Hann er trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Halldór er giftur Björk Halldórsdóttur og eiga þau fjögur börn.

Hrönn Bjarnþórsdóttir – skólaliði við Réttarholtsskóla

Hrönn hefur starfað í Réttarholtsskóla í tuttugu og tvö ár við hin ýmsu störf. Hún hefur sinnt félagsmálum af kappi sl. tuttugu ár og er trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Hún er gift Sigurjóni Sigurjónssyni og eiga þau einn son

Ingibjörg Sigríður Árnadóttir – starfsmaður hjá Skinney Þinganes í Þorlákshöfn

Ingibjörg hefur starfað í fiskvinnslu síðan hún fluttist til Þorlákshafnar 1990-1991 en hún er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hefur alltaf haft áhuga á verkalýðsmálum og hefur gegnt trúnaðarmannastöðu um þó nokkuð skeið. Ingibjörg er tveggja barna móðir og er gift Jóni Baldurssyni.

Kolbrún Eva Sigurðardóttir – starfsmaður hjá Ölgerðinni

Kolbrún hefur unnið hjá Ölgerðinni í tæp þrjú ár, hún byrjaði sem starfsmaður á lager á lyftara og er núna í gæðadeildinni á lagernum. Áður vann hún í fiskeldi og í fiskvinnslu og var um nokkurt skeið trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Kolbrún er í sambúð með Jens Grettissyni og á eina stjúpdóttur sem er búsett í Noregi.

Kristján Benediktsson – bílstjóri hjá Samskipum

Kristján þekkir vel til hinna ýmsu verkamannastarfa og er trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Fyrsta starfið hans var í frystihúsi fimmtán ára gamall áður en hann fór á sjó og síðar í byggingarvinnu. Hann hefur alla tíð látið sig félagsmál varða og var m.a. í björgunarsveitinni Víkverja í Vík um tíma. Kristján er í sambúð með Vilborgu Hjálmarsdóttur og eiga þau þrjú börn.

Sigurlaug Brynjólfsdóttir – leikskólaliði á leikskólanum Jörfa

Sigurlaug hefur starfað á leikskólanum Jörfa í Reykjavík síðan 2002 með góðu fólki. Hún fór á fullt að starfa með Eflingu eftir að hún settist í stjórn Faghóps leikskólaliða og hefur mikinn áhuga á félagsmálum. Sigurlaug er gift Halldóri Braga Sigurðssyni og eiga þau tvo syni.

Skoðunarmenn reikninga

Helgi Helgason – starfsmaður hjá Reykjavíkurborg
Ruth Arelíusdóttir – fyrrverandi starfsmaður leikskóla Reykjavíkurborgar

Varamaður skoðunarmanna reikninga

Þórður Ólafsson – fyrrverandi stjórnarmaður í Eflingu

 

Ágætu Eflingarfélagar

Framundan eru kosningar um formann og helminginn af stjórn Eflingar. Tveir listar eru boðnir fram: A-listi og B-listi. Við hljótum að fagna áhuganum á því að félagsmenn eru reiðubúnir til að taka að sér trúnaðarstörf í félaginu okkar. Það sýnir kraft og styrk. Það er von mín, að þegar niðurstaða er fengin, snúi allir bökum saman í baráttunni fyrir bættum kjörum félagsmanna og réttlátara samfélagi. Heitum því.

Það er stundum gefið í skyn, að við í A-listanum séum forréttindahópur í félaginu sem hafi raðað sér á einhverja ímyndaða jötu og ætli nú að verja vígið. Ekkert er fjær lagi. Það væri nær að segja að við búum yfir mikilli reynslu enda flest okkar tekið þátt í starfi félagins um langt skeið.

Við erum breiðfylking fólks sem kemur beint úr grasrótinni. Í hópnum eru einstaklingar sem tilheyra fjölmennustu atvinnugreinunum innan félagsins og þekkja af eigin raun þau kjör og þær aðstæður sem það fólk býr við. Við erum ekki tengd neinum stjórnmálaflokki, heldur fylkjum okkur saman á grundvelli sameiginlegra hagsmuna og sýnar á framtíðina.

Þar sem við höfum tekið þátt í starfi félagsins um langt skeið, berum við sannarlega okkar ábyrgð á því sem félagið okkar hefur áorkað á undanförnum árum – ásamt þúsundum annarra félagsmanna. Við berum ábyrgð á Starfsafli, Flóamennt og fleiri fræðsluúrræðum fyrir félagsmenn. Við berum ábyrgð á starfsendurhæfingunni Virk, og við berum ábyrgð á þeim hundruðum leiguíbúða sem Bjarg, íbúðafélag er að reisa, svo nokkur dæmi séu tekin um stóra ávinninga af starfi félagsins á undanförnum árum. Við eignum okkur ekki þessa ávinninga ein, en þeir sýna svo ekki verður um villst hverju samstillt verkalýðsfélög geta áorkað með því að fólk standi saman.

Félagar!

Þegar ég segi við, þá er ég ekki eingöngu að tala um okkur sem erum í framboði eða höfum gegnt trúnaðarstörfum í félaginu á undanförnum árum. Ég er að tala um okkur – félaga í Eflingu. Allt sem verið gerum, er nefnilega mótað af félagsmönnum sjálfum – kröfugerð í samningum og niðurstaða samninga – allt er þetta byggt á víðtæku samráði við félagsmennina sjálfa. Og ekki bara í samningum, því allt sem við gerum er byggt á vilja félagsmanna, eins og hann birtist í könnunum, rýnihópavinnu, fundum og öðru samráði. Vilji félagarnir skipta um kúrs í einhverjum málum, þá hafa þeir það í hendi sér – enginn annar.

Höfuðábyrgðina á því hvernig grafið hefur verið undan velferðarkerfinu, vaxtabótum, húsnæðisbótum, barnabótum og persónuafslætti bera stjórnmálamenn. Með því hefur hluti af árangri í kjarasamningum verið hirtur af launafólki, mest þeim sem lægst hafa launin. Þetta hefur gerst smátt og smátt á löngum tíma, um tveimur áratugum. Fólk hefur fundið fyrir þessu, án þess að geta sett fingurinn nákvæmlega á ástæðurnar. Heildaráhrifin urðu ekki ljós fyrr en í vetur þegar ASÍ rannsakaði þróun þessara bótakerfa.

Krafa okkar nú er að endurheimta það sem stjórnmálamennirnir hafa tekið af okkur í gegnum skattkerfið. Sækjum áfram launahækkanir til atvinnurekenda og tryggjum sanngjarna hlutdeild í afrakstrinum af vinnunni. Aukum möguleika láglaunafólks til að sækja sér menntun, fátt skiptir meira máli á vinnumarkaði sem breytist hratt.

Við óskum eftir umboði félagsmanna til að leiða baráttuna á næstu árum – í samráði við aðra félaga úr grasrót félagsins.

Ingvar Vigur Halldórsson

Stefnuskrá A lista stjórnar og trúnaðarráðs Eflingar-stéttarfélags við stjórnarkjör félagsins 2018

Traust, reynsla og endurnýjun með nýrri forystu

Hver erum við?

Við sem nú bjóðum okkur fram til nýrrar forystu í Eflingu-stéttarfélagi, höfum öll starfað innan félagsins um margra ára skeið. Við komum úr grasrótinni, höfum verið félagsmenn lengi, höfum verið trúnaðarmenn á okkar vinnustöðum og tekið þátt í starfi Eflingar og erum stolt af því sem félagið hefur áorkað frá stofnun. Við bjóðum fram reynslu okkar og þekkingu í endurnýjaðri forystu Eflingar.

Allt starf okkar grundvallast á samtölum við félagsmenn

Allt okkar starf að kjara- og réttindamálum hefur grundvallast á samtölum og samskiptum við félagsmenn. Við leitum til félagsmanna árlega og það eru síðan viðhorf þeirra sem liggja til grundvallar kröfugerð okkar um betri laun og aukin réttindi. Samninganefnd Eflingar hefur einnig byggt sín stefnumál á viðhorfum félagsmanna og baráttu fyrir betri kjörum og réttindum á síðustu tveimur áratugum.

Þeir fái meira sem hafa minna

Við höfum spurt grundvallarspurningar í öllum viðhorfskönnunum Eflingar. Hún er um það hvort félagsmenn séu sáttir við það að hækka lægri laun meira en önnur laun. Alltaf hafa svör Eflingarfólks verið á einn veg. Þess vegna hafa í hverjum kjarasamningi eftir annan verið sérstakar hækkanir til þeirra sem lakar standa. Þetta er ekki sjálfgefin niðurstaða en stefna Eflingar Í kjarasamningum á almennum og opinberum markaði undanfarin ár hefur alltaf verið að leggja áherslu á þá hópa sem hafa lægri kjörin.

Við höfum einnig lagt mikla áherslu á það markmið að venjuleg laun dugi fyrir framfærslu og þar teljum við að vaxandi kaupmáttur launa dugi betur en launahækkanir einar.

Það sem helst hefur komið í veg fyrir að fólk með lægri tekjur fái að njóta launahækkana eru aðgerðir ríkisvaldsins. Þannig hefur niðurskurður í barna-, vaxta- og húsnæðisbótum rýrt svo kjör hinna tekjulægri að stór hluti launahækkana hefur horfið í þessum aðgerðum stjórnvalda. Þá hafa aðgerðir stjórnvalda bæði hvað varðar skattleysismörk og skattaívilnanir ekki náð til þeirra sem hafa lægri kjörin.

Þeir sem gagnrýna stéttarfélögin fyrir að hafa ekki náð nægilegum árangri í kjarabaráttu láglaunahópa ættu að hugleiða að það eru stjórnvöld sem hafa haft mest áhrif á að rýra kjörin. Síðan bætast við hinar umdeildu ákvarðanir Kjararáðs í boði stjórnvalda sem hafa skekkt allt eðlilegt samhengi launa í landinu. Allt í boði stjórnvalda.

Stórt stéttarfélag þarf að tryggja meirihluta fyrir sjónarmiðum

Alla tíð frá stofnun Eflingar hefur félagið lagt áherslu á að móta kröfugerð með aðkomu breiðs hóps trúnaðarmanna. Það hefur leitt til þess að þegar kemur að atkvæðagreiðslu um kjarasamninga hafa þeir alltaf verið samþykktir ef frá er talinn samningur við Samtök atvinnulífsins 2013 sem var felldur. Í samninganefnd Eflingar og samstarfsfélaganna í Flóanum og Stétt Vest hefur jafnan ríkt einhugur þegar kemur að lokum kröfugerðar og kynningu helstu baráttumála fyrir atvinnurekendum og stjórnvöldum. Stóra samninganefnd okkar og samstarfsfélaga hefur notið trausts og stóru málin oftast verið samþykkt einróma. 

Um 300 manns koma að samningamálum Eflingar af öllum samningssviðum félagsins.

Að styðja við erlenda félagsmenn

Með fjölgun erlendra félagsmanna hefur Efling lagt aukna áherslu á að mæta þeim hópi sérstaklega. Þannig hefur heimasíðan tekið miklum breytingum með það í huga að hafa upplýsingar bæði á ensku og pólsku. Erlendir félagsmenn eru mjög duglegir að leita sér aðstoðar hjá félaginu og til marks um það voru um 66% þeirra sem fengu aðstoð vegna launakrafna á árinu 2017 af erlendum uppruna. Á árinu 2017 var um helmingur allra umsókna í Starfsafli, fræðslusjóði Eflingar vegna erlendra félagsmanna. Þá er ljóst að þeir hafa ekki síður nýtt sér réttindi sín úr orlofs- og sjúkrasjóðum félagsins. Mikilvægt er að gera sér vel grein fyrir því að fullyrðingar um að félagsmenn af erlendum uppruna njóti ekki þjónustu frá skrifstofu Eflingar eiga ekki við rök að styðjast. Þá má minna á að um 16% trúnaðarmanna eru af erlendum uppruna eða tæplega 40 manns.

Jöfnun lífeyrisréttinda stærsta baráttumálið

Það hefur verið áratuga barátta allt frá stofnun lífeyriskerfisins að launafólk á almennum markaði njóti sömu lífeyrisréttinda og starfsmenn hins opinbera. Þrátt fyrir harða baráttu hefur ekki tekist að koma þessu baráttumáli í höfn fyrr en með núgildandi kjarasamningum þegar skammt er í að lífeyrisréttindi verði að mestu jöfnuð á almennum og opinberum markaði. Þetta er stórsigur fyrir launafólk í landinu.

Mikilvæg áform um byggingu 2300 félagslegra leiguíbúða

Mikil gagnrýni hefur komið fram á árunum eftir hrun um afleita stöðu ungs fólks og fólks með lægri tekjur í samfélaginu. Staða þessara hópa hefur verið þannig að það getur hvorki leigt né fjárfest í húsnæði. Unga fólkið er bundið á heimilum foreldra eða ættingja og tekjulágir eiga ekki möguleika á að greiða þá háu húsaleigu sem í boði er. Efling-stéttarfélag á drýgstan þátt í því af stéttarfélögum að hafa riðið á vaðið og krafist endurreisnar félagslega húsnæðiskerfisins. Bæði hefur Efling lagt fé til stofnunar húsnæðisfélagsins Bjargs og síðan unnið af fullum krafti að því að koma þessum áformum á laggirnar um byggingu 2300 félagslegra leiguíbúða fram til ársins 2019. Þá hefur félagið lagt mikla áherslu á að kynna þessa stöðu m.a. með mjög áberandi auglýsingum í öllum fjölmiðlum um margra vikna skeið þar sem yfirskriftin var: Það er ekki nóg að hafa plan, það þarf að framkvæma! Þetta ættu þeir að hafa í huga sem gagnrýna verkalýðshreyfinguna og Eflingu-stéttarfélag fyrir aðkomu að leigumálum lágtekjufólks. Fáir hafa gert meira til að aðstoða þessa hópa til að komast í mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Þá hefur félagið lagt mikla áherslu á hækkun húnæðisbóta og lækkun húsnæðisverðs.

Önnur stórmál sem unnist hafa

Á síðustu kjarasamningstímabilum hafa áunnist stórmál sem munu skipta launafólk miklu. Þar má nefna Starfsendurhæfingu VIRK þar sem Efling er nú með sjö ráðgjafa til að sinna þessu hlutverki, séreignarsjóðina á sínum tíma en síðast en ekki síst fræðslusjóði Eflingar sem hafa gert mörgum félagsmönnum kleift að breyta og bæta líf sitt með aukinni menntun.

Leggjum verk okkar í dóm

Við leggjum nú verk okkar í dóm. Við erum reiðubúin til að vinna áfram að uppbyggingu Eflingar-stéttarfélags sem hingað til. Við leitum nú til félagsmanna eftir stuðningi og treystum því að fólk kynni sér vel stefnuskrá okkar og móti sér afstöðu á málefnalegan hátt.

Helstu áherslur okkar í A lista stjórnar og trúnaðarráðs

• Við þekkjum til. Við komum úr röðum félagsmanna. Við þekkjum félagsmennina og vinnum við hlið þeirra úti á vinnustöðunum. Okkur í A listanum hefur verið treyst fyrir félaginu og nú biðjum við um endurnýjað traust.

• Við treystum á lýðræðið. Við viljum að breiður hópur félagsmanna móti kröfur okkar. Þannig hefur það alltaf verið. Við treystum fólkinu okkar til að móta kröfur og fylgja þeim eftir af einurð og festu.

• Allt byggt á viðhorfum félagsmanna. Allt okkar starf byggist á viðhorfum félagsmanna, úti á vinnustöðum, í samninganefnd og í gegnum árlegar viðhorfskannanir meðal félagsmanna. Þannig verður kröfugerð okkar til. Samninganefnd gengur frá kjarasamningi sem síðan er borinn undir atkvæði félagsmanna.

• Mest fyrir þá sem minna hafa. Efling hefur frá stofnun lagt mesta áherslu á kjör þeirra sem lakar hafa það. A listinn vill áfram beita sér fyrir þessari stefnu. Á næsta samningstímabili verður að taka hart á stjórnvöldum sem hafa skemmt kjör þessa hóps sérstaklega með lækkun barnabóta, vaxtabóta, húsaleigubóta og neitað hópnum með lægstu launin um hækkun skattleysismarka.

• Styðjum erlenda hópinn. Við styðjum við erlenda hópinn í Eflingu. Erlendi hópurinn er að sækja í réttindi sín hjá félaginu og smám saman að gera sig gildandi með því að taka að sér trúnaðarstörf í félaginu. Við höfum lagt mikla áherslu á íslenskukennslu því tungumálið er oft lykillinn að stöðu fólks á vinnustaðnum.

• Stórsigur í stórmáli alls launafólks. Stærsta baráttumálið á síðustu árum snýst um jöfnun lífeyrisréttinda. Það er nú í höfn eftir áratuga baráttu. Þetta er stórsigur fyrir okkur öll.

• Efling vill endurreisa félagslegt húsnæðiskerfi. Efling var eitt af fyrstu stéttarfélögunum sem lagði fé til uppbyggingar sérstaks átaks í þágu þeirra sem hvorki geta keypt né leigt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Nú er verið að vinna að byggingu 2300 leiguíbúða sem kemur til með að gjörbreyta stöðu þessa hóps til mannsæmandi íbúðarhúsnæðis. Það er fyrsta skrefið.

• Ekkert hefst án baráttu. Þúsundir félagsmanna Eflingar njóta þjónustu félagsins á hverju ári í gegnum fræðslu-, sjúkra- og orlofssjóði félagsins. Ekkert af þessu væri til án baráttu okkar launafólks. A listinn vill áfram vinna á þessum grundvelli.

• Við erum sterkari saman. Við viljum vera áfram innan heildarsamtaka ASÍ. Þar koma fulltrúar allra félaga innan samtakanna saman til að móta stefnu í mikilvægustu málunum. Styrkurinn okkar er ekki síst fólginn í því að standa saman í 120 þúsund manna heildarsamtökum.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere