Select Page

Spurt og svarað um kjaradeilu Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Um hvað snýst deilan milli SÍS og Eflingar?

Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) neitar að semja við Eflingu um sambærilegar kjarabætur fyrir félagsmenn í Kópavogi, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Hveragerði og í Ölfusi og þær sem félagið samdi um fyrir félagsmenn sína hjá Reykjavíkurborg og ríkinu í byrjun mars og Faxaflóahöfnum í lok apríl.

Hluti af þessum kjarabótum er sérstök leiðrétting lægstu launa með áherslu á sögulega vanmetin kvennastörf.

Þeir starfsmenn sem um ræðir vinna á sama atvinnusvæði, í sömu störfum, á sams konar vinnustöðum, undir sama stigamatskerfi og innan vébanda sama stéttarfélags.

Afstaða SÍS felur í sér að þessum hópum sé innbyrðis mismunað í kjarasamningum Eflingar við ólíka arma hins opinbera.

Sameiginlegur skilningur er á milli SÍS og Eflingar um öll launaliðsatriði önnur en sérstöku leiðréttinguna en þar vegur þyngst 90 þúsund króna hækkun grunnlauna í grunnþrepi launatöflu að fyrirmynd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Samningar Eflingar og SÍS hafa verið lausir síðan 31. mars 2019.

Hversu há er þessi sérstaka leiðrétting?

Leiðréttingin sem Efling fer fram á á við SÍS fyrir hönd félagsmanna sinna hjá sveitarfélögunum er útfærsla á sambærilegri leiðréttingu og í samningum stéttarfélagsins við Reykjavíkurborg, ríkið og Faxaflóahafnir. Leiðréttingin sem Efling leggur til við SÍS er í formi sérstakrar stiglækkandi viðbótargreiðslu utan við grunnlaun, sem tekur ekki hækkunum eftir starfsaldri og hækkar ekki yfirvinnu- og vaktavinnuálag.

Greiðslan er hæst fyrir lægstu laun og lækkar svo í þrepum þangað til hún fjarar út. Leiðréttingin miðar þannig að því að bæta kjör allra lægst launaða hópsins og felur ekki sér hvata til launahækkana ofar í launastiganum. Hún á að koma til framkvæmdar 1. apríl 2020.

Dæmi:

Starfsmenn hjá sveitarfélögunum með starfsheitið „Matráður 3“, sem nú eru með 353.868 kr. í grunnlaun, myndu samkvæmt útfærslu Eflingar fá leiðréttingargreiðslu ofan á sín mánaðarlaun og aðrar kjarasamningsbundnar hækkanir að upphæð 2.250 kr. frá og með 1. apríl 2020.

Félagsliði í heimaþjónustu, sem er með 343.443 kr. í grunnlaun, fengi 10.000 kr. leiðréttingargreiðslu.

Hæsta mögulega leiðréttingargreiðslan, á lægst launuðu starfsheitin á borð við ræstingu, er 20.500 kr.

Sjá lista yfir öll starfsheiti.

SÍS segir að samningur við Eflingu um sérstaka leiðréttingu myndi setja núgildandi kjarasamninga við verkalýðsfélög um land allt í uppnám. Er það rétt?

Það er ekki rétt. Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landssamband verkalýðsfélaga almenns verkafólks. SGS fer í sumum tilvikum með samningsumboð fyrir aðildarfélög. Efling hefur ekki veitt SGS samningsumboð vegna kjarasamningsgerðar við SÍS. Það gerði Verkalýðsfélag Akraness ekki heldur.

Verkalýðsfélög með samningsumboð hjá SGS undirrituðu kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga þann 16. janúar síðastliðinn. Sá samningur er óháður kjarasamningagerð SÍS við Eflingu. Engir fyrirvarar eða forsenduákvæði eru í þeim samningi sem kveða á um að hann sé uppsegjanlegur vegna kjarabóta í öðrum samningum við hið opinbera. Efling og félög innan SGS hafa hvorki veitt hvert öðru samningsumboð né gert fyrirvara í samningum sínum um tengingu við samninga annarra aðila.

Ekki er ljóst hvers vegna formaður samninganefndar SÍS setur fram þá fullyrðingu að samningur við Eflingu myndi leiða til sjálkrafa endurskoðunar á öðrum samningum.

SÍS segir að Efling sé að biðja um meiri kjarabætur en er í Reykjavíkurborgarsamningnum. Er það rétt?

Það er ekki rétt. Tekið skal fram að tillaga Eflingar er ekki nákvæmlega sú sama og í borgarsamningnum vegna þess að þar samdist ekki aðeins um leiðréttingargreiðslu utan við grunnlaun heldur einnig um grunnlaunahækkun í grunnþrepi umfram 90.000 kr. sem nemur að meðaltali 7.800 kr. á mánuði. Ekki er farið fram á þessa viðbótar grunnlaunahækkun gagnvart SÍS. Tillaga Eflingar gagnvart SÍS felur aðeins í sér sérstaka leiðréttingargreiðslu utan við grunnlaun. Tillagan er engu að síður hönnuð til að ná fram sambærilegri útkomu og náðist í Reykjavíkurborgarsamningnum fyrir hvert og eitt starfsheiti.

Efling tók að beiðni SÍS saman greinargerð þar sem áhrifin af umbeðinni leiðréttingu eru borin saman við núverandi kjarasamning við Reykjavíkurborg. Tillaga Eflingar var kynnt ítarlega fyrir samninganefnd SÍS á samningafundi 30. apríl og gerði nefndin ekki athugasemdir við hana. Skjalið í heild er hér.

Hvers vegna fer Efling í verkfall meðan Kórónaveirufaraldurinn geisar?

Stéttarfélög hafa eingöngu verkfallsfrétt á meðan kjarasamningar eru lausir. Þegar samningur er undirritaður undirgangast stéttarfélög svokallaða „friðarskyldu“ sem gerir þeim óheimilt að fara í verkföll. Eflingarfélagar hafa því ekki um val um annað en að nýta verkfallsréttinn nú, þegar samningar eru lausir líkt og þeir hafa verið í meira en ár. Vilji félagsins og félagsmanna er engu að síður að leysa deiluna hratt.

Efling hefur sýnt mikinn samstarfsvilja við sóttvarnaryfirvöld vegna Kórónaveirufaraldursins, allt frá því hann barst fyrst til landsins í lok febrúar en þá stóðu yfir verkfallsaðgerðir gagnvart Reykjavíkurborg. Félagið sóttist að eigin frumkvæði eftir ráðgjöf frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og veitti í kjölfarið rúmar undanþágur vegna sorphirðu og síðar velferðarþjónustu.

Eflingarfélagar hjá SÍS frestuðu verkfallsaðgerðum í lok mars vegna Kórónaveirufaraldursins en gáfu til kynna að aðgerðir yrðu teknar upp að nýju þegar samkomubann yrði mildað. Félagsmenn samþykktu endurnýjaðar verkfallsaðgerðir með metþátttöku og 90% atkvæða. Hvort tveggja var enn meira afgerandi heldur í fyrri kosning félagsins um verkfallsboðun. Sú staðreynd sýnir fram á ótæmandi baráttuvilja félagsmanna Eflingar á lægstu töxtum í landinu til að bæta kjör sín til samræmis við félagsmenn í Reykjavík. Þeir félagsmenn sem um ræðir vinna framlínustörf á borð við heimaþjónustu og þrif í skólum, þar sem smithætta er mikil.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere