10 réttindi sem þú hefur á vinnustaðnum

Þessi atriði gilda um starfsfólk fyrirtækja, til dæmis í byggingarvinnu, veitingahúsum, hótelum, framleiðslu eða akstri. Starfsmenn ríkis, sveitarfélaga og heilbrigðisstofnana vinna samkvæmt öðrum kjarasamningum. Sjá kjarasamninga Eflingar hér.
- Ef þú ert ekki með ráðningarsamning um vaktavinnu og ef þú hefur ekki samþykkt vaktavinnu áttu að fá greidda yfirvinnu, ekki álag, utan dagvinnutíma.
- Þú átt rétt á að vinna alla vaktina þína. Ef þér er sagt að fara heim snemma áttu samt að fá alla vaktina borgaða.
- Starfshlutfall þitt ætti að vera ein ákveðin tala, ekki bil á borð við 80-100%.
- Það er þitt val hvort þú vinnir yfirvinnu, aldrei skylda.
- Fyrir átta tíma vakt færðu þá 35 mínútna launað hlé. Almennt áttu að fá 5 mínútur af launuðu hléi fyrir hvern unninn klukkutíma.
- Á milli vakta eiga að líða minnst ellefu klukkutímar. Ef þessi hvíld fæst ekki, er það bætt upp með launuðu leyfi.
- Minnst 10,17% eiga að vera greidd ofan á launin þín sem orlof. Það á að leggja orlofið inn á reikning á þínu nafni, þú átt peninginn.
- Þú átt að fá orlofsuppbót í júní og desemberuppbót í desember ef þú vinnur þá, eða ef þú hefur unnið meira en 12 vikur undanfarið ár.
- Allt starfsfólk hefur rétt til launaðra veikindadaga. Hjá sama atvinnurekanda ávinnur þú þér 2 daga á mánuði fyrsta árið, heilan mánuð eftir eitt ár. Rétturinn lengist eftir því sem þú vinnur lengur. Það er á ábyrgð yfirmanns að finna afleysingu fyrir veikan starfsmann.
- Uppsögn á að vera skrifleg. Ef atvinnurekandinn vill að þú víkir strax frá störfum áttu rétt á að fá uppsagnarfrestinn borgaðan.
Eftir að hafa unnið | er uppsagnarfresturinn þinn: |
minna en 2 vikur | enginn |
2 vikur | 12 dagar |
3 mánuði | 1 mánuður eftir næstu mánaðamót |
2 ár | 2 mánuðir eftir næstu mánaðamót |
3 ár | 3 mánuðir eftir næstu mánaðamót |
Ef þú nýtur ekki þessara réttinda á þínum vinnustað, eða þarft aðstoð við lestur launaseðla, getur þú sótt aðstoð á skrifstofu Eflingar.
Hafðu meðferðis:
- Ráðningarsamning ef þú ert með hann
- Launaseðla frá síðustu mánuðum
- Vaktaplanið þitt
- Þína eigin tímaskýrslu yfir hvað þú vannst mikið hvern vinnudag