Faghópar
Faghópur félagsliða
Faghópur félagsliða var stofnaður í maí 2005. Faghópurinn er opinn öllum þeim sem hafa lokið eða eru í námi félagsliða og eru starfandi eftir kjarasamningum Eflingar-stéttarfélags. Félagsliðar innan Eflingar-stéttarfélags eru nú ríflega 230 manns og yfir 60 eru í félagsliðanámi. Um helmingur félagsliða starfa hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum en það er jafn stór hópur sem vinnur á hjúkrunarheimilum og ýmsum sjálfseignarstofnunum.
Störf félagsliða eru mjög fjölbreytt en stærsti hópurinn sinnir öldruðum bæði við heimaþjónustu og eins inni á hjúkrunarheimilum. Einnig er ákveðinn hópur sem starfar með fötluðum. Flestir félagsliðar Eflingar hafa útskrifast frá Mími símenntun en einnig hefur ákveðinn hópur útskrifast úr Borgarholtsskóla. Þá býður Mímir í samvinnu við Eflingu, framhaldsnám bæði vegna Alzheimers og einnig nám um fötlun. Félagsliðabrú fyrir erlenda starfsmenn hefur fengið mjög góðar viðtökur en námið er ætlað starfsmönnum við aðhlynningu og umönnun sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál. Þá þarf að hafa lokið gagnnámskeiðum I og II eða tekið samtals um 230 tíma á starfstengdum námskeiðum og hafa 3ja ára starfsreynslu eða meira.
Faghópur leikskólaliða
Faghópur leikskólaliða var stofnaður í maí 2008. Faghópurinn er opinn öllum þeim sem hafa lokið eða eru í námi leikskólaliða og eru starfandi eftir kjarasamningum Eflingar-stéttarfélags.
Fundir eru haldnir a.m.k. tvisvar á ári, ársfundir á vorin og fræðslufundir á haustin.
Leikskólaliðar innan Eflingar-stéttarfélags eru nú um 150 manns og tæplega 50 eru í leikskólaliðanámi. Stærsti hópurinn starfar á leikskólum Reykjavíkurborgar en einnig starfar þó nokkuð stór hópur hjá einkareknum leikskólum.
Flestir leikskólaliðar Eflingar hafa útskrifast frá Mími símenntun en einnig hefur ákveðinn hópur útskrifast úr Borgarholtsskóla.
Þá býður Mímir í samvinnu við Eflingu, framhaldsnám um börn með sérþarfir.