
1. maí í Reykjavík
Sterkari saman í baráttunni
– ekki láta þig vanta
Sýnum samstöðu okkar í verki og mætum á baráttufund þann 1. maí en yfirskrift fundarins í ár er Sterkari saman. Formleg dagskrá hefst á Ingólfstorgi laust eftir klukkan 14.00.
Safnast verður saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13:00 en kröfugangan leggur af stað kl. 13:30. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni og einnig á Ingólfstorgi. Gengið verður niður Laugaveginn, Bankastræti, Austurstræti og niður á Ingólfstorg. Útifundurinn á Ingólfstorgi hefst kl. 14.10 og lýkur um kl. 15.00.
Ræðumenn á torginu verða þau Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. Fundarstjóri verður Þórarinn Eyfjörð en hann hefur stýrt fundinum síðustu ár. Skemmtiatriði verða í höndum Heimilistóna og Síðan skein sól.
Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og Kolbrún Völkudóttir mun syngja á táknmáli í tónlistaratriðum.
Þegar fundinum lýkur
Kaffið býður þín í Valsheimilinu
Að lokinni göngu og baráttufundinum á Ingólfstorgi býður Efling-stéttarfélag upp á kaffi í Valsheimilinu að Hlíðarenda í Vodafone höllinni. Valsheimilið eða Valshöllin á Hlíðarenda er við Flugvallarveg og er ekið í áttina að Hótel Loftleiðum og beygt til hægri eftir vegaskilti sem sýnir Valsheimilið.
Félagsmenn Eflingar eru hvattir til að fjölmenna í gönguna og taka þátt í hátíðarhöldunum. Síðan er alltaf fullt hús í höllinni þar sem við njótum þess að fá okkur kaffi hjá Eflingu og hitta vinnufélaga, vini og kunningja.