Um Eflingu

Efling –stéttarfélag var stofnað í desember 1998 og tók til starfa um áramótin 1999. Félagið varð til við sameiningu Dagsbrúnar & Framsóknar-stéttarfélags við Starfsmannafélagið Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum. Félagið sameinaðist Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík um áramótin 1999-2000. Frá og með 1. janúar 2009 sameinaðist Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn Eflingu-stéttarfélagið. Í dag eru félagsmenn um 27.000. Stærstu viðsemjendur félagsins eru Samtök atvinnulífsins, Reykjavíkurborg, Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Fjármálaráðuneytið og Launanefnd sveitarfélaga.

Starfsmenn með félagsaðild að Eflingu vinna almenn störf verkafólks á sviðum flutninga, byggingarvinnu, við vegagerð og hafnarvinnu, landbúnaðarstörf og ýmsa vélavinnu sem tengist verklegum framkvæmdum.

Þá vinna félagsmenn Eflingar í fjölda starfa í þjónustu ríkis og sveitarfélaga s.s. í umönnunarstörfum þ.á.m. í heimaþjónustu, á leikskólum, í sjúkrahúsum og stofnunum, þvottahúsum og saumastofum sjúkrastofnana.

Félagsmenn eru einnig starfsmenn í mötuneytum og starfa við ræstingar og hvers konar hreinlætisstörf, í efnalaugum og þvottahúsum.

Almenn störf á veitinga- og gististöðum eru unnin af félagsmönnum Eflingar.

Einnig eru þeir sem vinna við öryggisvörslu og fjármagnsflutninga í Eflingu-stéttarfélagi. Þá eru almenn störf í iðnaði og verksmiðjum, við vinnslu sjávarafurða og landbúnaðarafurða í Eflingu.

Þeir sem vinna almenn störf við bensínafgreiðslu og við olíu, bón, ryðvarnarstöðvar og á dekkjaverkstæðum eru í Eflingu-stéttarfélagi. Bifreiðastjórar á vörubifreiðum eiga félagsaðild að Eflingu.

Efling gerir aðalkjarasamninga fyrir almennt verkafólk, samninga á hótelum og veitingahúsum, samning fyrir iðnverkafólk, og samninga við þrjú sveitarfélög, aðalkjarasamning við ríkið og samninga við hjúkrunarheimili.

Efling-stéttarfélag hefur mótað sér stefnu um að vera öflugt á sviði starfs- og símenntunar. Fjölmörg námskeið eru haldin á vegum félagsins á hverju ári, en einnig hefur félagið gert samninga við skóla og stofnanir um afslátt af fullu verði námskeiða.

Í stjórn Eflingar sitja 15 stjórnarmenn. Í trúnaðarráði sitja 130 fulltrúar og sjóðum félagsins stjórna fimm manna stjórnir.

Sjóðir félagsins standa straum af kostnaði við félagsstarf, skrifstofu og starfsemi á vegum félagsins. Helstu sjóðir eru sjúkrasjóður, vinnudeilusjóður, orlofssjóður og félagssjóður.

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.