Eldri fréttir

18. 07, 2005

Sex af hverjum tíu umsóknum fá jákvæða umsögn
– Rangar fullyrðingar Vinnumálastofnunar

23.06.2005

Vegna athugasemda Vinnumálastofnunar í fjölmiðlum í gær um að Efling-stéttarfélag hafi þann hátt á að hafna nánast öllum umsóknum um atvinnuleyfi fyrir útlendinga vill Efling koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Það skal ítrekað að Efling lagði til í umsögn sinni til Vinnumálastofnunar að hafna öllum atvinnuleyfum til Geymis ehf. Það er rétt hjá Vinnumálastofnun að atvinnuástand var nefnt í nokkrum umsögnum. En meginástæðan var sú að þetta fyrirtæki hafði ekki skilað lögbundnum gjöldum af starfsmönnum sínum. Það ber fyrirtækjum að gera samkvæmt landslögum. Vinnumálastofnun tók ekki mark á þessum athugasemdum félagsins og kaus að veita atvinnuleyfin til Geymis ehf. sem síðan flutti inn Pólverja er hér unnu við óviðunandi kjör og aðbúnað.

Vinnumálastofnun segist almennt taka tillit til umsagna stéttarfélaga en heldur því fram að Efling hafi þann háttinn á að hafna nánast öllum umsóknum á grundvelli atvinnuástandsins í landinu. Því sé ekki um að ræða vandaðar og ígrundaðar umsagnir.

Þessum ósönnu fullyrðingum mótmælir Efling-stéttarfélag. Staðreyndin er sú að aukin eftirspurn hefur verið eftir vinnuafli í mörgum greinum þar á meðal byggingariðnaði. Þetta hefur haft áhrif á umsagnir Eflingar til Vinnumálastofnunar. Frá því í apríl sl. hefur Efling-stéttarfélag afgreitt 277 umsóknir til Vinnumálastofnunar. Samþykktar hafa verið 167 en 110 umsóknum hefur verið hafnað. Þetta þýðir að um sex af hverjum tíu umsóknum hafa fengið jákvæða umsögn. Það er því alrangt að halda því fram að Efling-stéttarfélag hafni nánast öllum umsögnum á grundvelli atvinnuástands. Vinnumálastofnun hefur öll gögn frá Eflingu undir höndum til að fara hér með rétt mál.

Efling-stéttarfélag vill hér með beina því til félagsmálaráðherra að hann endurskoði pólitíska stefnu ráðuneytisins varðandi útgáfu atvinnuleyfa. Það eru landslög að atvinnurekendum ber að skila tilskildum gjöldum s.s. sköttum og félags- og lífeyrisgjöldum í samræmi við þá kjarasamninga sem viðkomandi starfsmenn vinna eftir. Efling-stéttarfélag telur að ráðuneyti félagsmála og Vinnumálastofnun beri að fara að þessum lagaákvæðum eins og fyrirtækjunum í landinu.

Atvinnuleyfi fyrir Geymi ehf.
– Gefum ekki jákvæða umsögn ef launatengd gjöld eru ekki greidd.

21.06.2005

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum í dag og í gær um mál Pólverja sem hér hafa starfað vill Efling-stéttarfélag koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri.

Fyrirtækið sem réði starfsmennina til starfa, Geymir ehf., hefur sótt um 17 atvinnuleyfi sem hafa komið til umsagnar Eflingar-stéttarfélags á undanförnum mánuðum.
Efling-stéttarfélag hafnaði atvinnuleyfunum. Ástæður þess voru þær að Geymir efh. hefur ekki greitt lögbundin gjöld af starfsmönnum sínum svo sem í lífeyrissjóð og önnur gjöld.
Þrátt fyrir þessa afstöðu Eflingar-stéttarfélags hefur Vinnumálastofnun samþykkt atvinnuleyfi til Geymis ehf.
Efling-stéttarfélag hefur oft á undanförnum misserum ítrekað við Vinnumálastofnun að virða umsagnir félagsins sem byggjast á vandaðri skoðun á fyrirtækjunum áður en til umsagnar kemur. Við því hefur Vinnumálastofnun ekki orðið.

Stóraukin réttindi félagsmanna með nýrri reglugerð sjúkrasjóðs

13.06.2005

Frá 1. júní 2005 gengu í gildi nýjar reglugerðir sjúkrasjóðs sem samþykktar voru á  aðalfundi Eflingar 19. apríl s.l.  Þessar breytingar fela í sér stóraukin réttindi félagsmanna. Mikilvægasta umbótin er fólgin í tekjutengingu sjúkrabóta en auk þess bætast nýir bótaflokkar við og upphæðir breytast og hækka. Helstu breytingarnar eru þessar: 

 Ein reglugerð er nú fyrir Sjúkrasjóð Eflingar í stað tveggja áður.

Reglugerð Fjölskyldu- og styrktarsjóðs sem var í gildi vegna sjóðfélaga sem starfa hjá opinberum fyrirtækum  sem greiða lægra en 1% iðgjald til sjóðsins, þ.e. ríki, sveitarfélög og stofnanir sem styrktar eru af almannafé, var felld niður og réttindi sjóðfélaga þess sjóðs aðlöguð að reglugerð Sjúkrasjóðs.

Tekjutenging sjúkrabóta til þeirra sem hafa samfellda sjóðfélagsaðild í 12 mánuðir eða lengur er tekin upp.

Dagpeningar þeirra sem hafa skemmri sjóðfélagsaðild eða fá greitt samkvæmt heimildarákvæðum hækka líka.

Réttur til ýmissa styrkja er sá sami, hvort sem sjóðfélagi starfar á almennum markaði eða hjá opinberu fyrirtæki, en réttur til sjúkrabóta og dagpeninga er skemmri hjá hinum síðarnefndu enda eiga þeir mun lengri veikindarétt en þeir sem starfa á almennum markaði. 

Heimilt að styrkja sjóðfélaga sem fer í starfsendurhæfingu með greiðslum í allt að þrjá mánuði.

Flestar styrkjategundir sjóðsins hækka og nýjar tegundir eru teknar upp.

Sérstök áhersla er lögð á styrki til fyrirbyggjandi aðgerða og endurhæfingar svo sem vegna viðtalsmeðferða.

Stuðlað er að jafnræði meðal sjóðfélaga með því að styrkja þá sem þurfa að standa í kostnaðarsömum aðgerðum til barneigna s.s. glasa-tæknifjóvgunum og ættleiðingum. 

Grunnskoðun hjá Krabbameinsfélaginu er nú greidd af fullu gegn framvísun félagsskírteinis hjá Krabbameinsfélaginu.

Á heimasíðu félagsins og í Fréttablaðinu verður fjallað nánar um breytingarnar á sjúkrasjóðnum þegar nokkur reynsla er fengin af breyttum reglum.

Um 400 kröfur – Launakröfur frá Eflingu 2004

03.03.2005

Þegar skoðaðar eru launakröfur sem skrifstofa Eflingar hefur sent á hendur atvinnurekendum á síðasta ári kemur í ljós að þær eru um 400. Langflestar kröfurnar eru á almennu sviði verkamanna eða nálægt 280 kröfur. Þá eru veitingahúsaeigendur duglegir við að koma sér í vond mál sem enda í launakröfum á hendur þeim. Um 75 kröfur voru sendar veitingahúsum á síðasta ári. Á öðrum sviðum s.s. í umönnunarstörfum og í ræstingu og hjá iðnverkafólki er um mun færri launakröfur að ræða.

Tekið skal fram hér að með launakröfu er átt við kröfur um vangoldin laun eða ekki hafi verið staðið rétt að greiðslu eða mati á réttindum, laun rangt reiknuð út miðað við forsendur kjarasamninga eða öðrum ákvæðum kjarasamninga hafi ekki verið fullnægt. Stundum leysast þessi mál í beinum samskiptum við atvinnurekendur en þegar þau eru komin inn á skrifstofu Eflingar sem kvörtunarefni, þá verða til launakröfur á hendur atvinnurekendum, sem lögmenn fylgja eftir ef lausn finnst ekki milli félagsins og atvinnurekanda.

Aðalfundur Eflingar samþykkir stóraukin réttindi í sjúkrasjóð

02.05.2005

Aðalfundur Eflingar stéttarfélags var haldin 19. apríl s.l. Ásamt hefðbundnum aðalfundarstörfum voru samþykktar róttækar breytingar á reglum sjúkrasjóðs Eflingar og réttindi félagsmanna til styrkja voru stóraukin. Einnig voru gerðar breytingar á reglugerð fræðslusjóðs Eflingar, annarsvegar til að tryggja betur möguleika félagsmanna til fræðslustyrkja en hinsvegar til að auka stuðning félagsins við stærri verkefni á sviði starfsmenntamála
Helstu breytingar á sjúkrasjóði eru tekjutenging bóta og geta dagpeningar sjúkrasjóðs náð allt að 100% af tekjum félagsmanna og allt að kr. 250.000 á mánuði. Þá er fjölgað styrkjategundum sjúkrasjóðs og má þar nefna styrki vegna glasafrjóvgunar, ættleiðinga, augnaðgerða og viðtalsmeðferða hjá sérfræðingum. Nánar verður farið yfir breytingar á reglum sjóðsins á síðu sjúkrasjóðs en breytingarnar munu taka gildi frá og með 1. júní n.k..
Á aðalfundinum var farið yfir skýrslu stjórnar og reikningar félagsins samþykktir, þá voru stjórnarmönnum sem láta nú af störfum þökkuð sín störf en þau eru Anna María Clausen, Jón S. Pétursson, Hannes Ólafsson og Rannveig Gunnlaugsdóttir. Nýir stjórnarmenn sem tóku við á aðalfundinum eru Stefán Viðar Egilsson sem starfar í Málningu og Sigurlín Ágústsdóttir sem vinnur í Leikskólanum Hamraborg.

Grunnmenntaskóli Eflingar og Mímis útskrifar 15 nemendur

20.04.2005

Föstudaginn 8. apríl s.l. útskrifaðist fimmti hópur nemenda úr Grunnmenntaskóla Eflingar og Mímis. Nú útskrifuðust 15 nemendur og í fyrsta sinn voru félagsmenn VR meðal þátttakenda.
Grunnmenntaskólinn er 300 kennslustunda nám og hefur verið starfræktur frá árinu 2001 af Eflingu og Mími með styrk frá fræðslusjóðum sem Efling stendur að. Tilgangur skólans er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms og auðvelda þeim að takast á við ný verkefni í vinnu.
Í náminu er lögð áhersla á að náms­menn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Námið er ætlað fullorðnu fólki á vinnumarkaði, eldra en 20 ára og með stutta formlega skólagöngu en námið er metið til 25 eininga á framhaldsskólastigi.
Þegar hafa nokkrir nemendur sem útskrifuðust nú ákveðið að halda áfram í frekara námi.

Upplýsandi fundur um skaðsemi óbeinna reykinga á veitingahúsum

Efling-stéttarfélag og MATVÍS efndu til fræðslufundar um óbeinar reykingar á veitinga og skemmtistöðum, þriðjudaginn 15. mars síðastliðinn. Frummælendur á fundinum voru þau Kristinn Tómasson læknir, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður, og Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar.

Sigurður Bessason formaður Eflingar-stéttafélags setti fundinn og benti m.a. á að Siv Friðleifsdóttir hefði tekið frumvarp til laga um tóbaksvarnir upp þar sem að ekki hefði tekist samstaða innan ríkisstjórnar um það.
Kristinn Tómasson nefndi m.a. að færðar hefði verið sönnur á skaðsemi óbeinna reykinga í kring um 1970. Hann benti á ótímabær dauðsföll þekktra tónlistarmanna, sem að aldrei hefðu reykt, en létust vegna sjúkdóma sem að tengjast reykingum. Þá kom Kristinn inn á þann mun sem að gerður væri á reykingum og öðrum hættulegum efnum. Í því sambandi nefndi hann t.d. Asbest, en það efni nálgast menn ekki nema í hlífðarbúningum enda væri sannað að efnið væri krabbameinsvaldandi, rétt eins og reykingar. Á sama hátt umgengjust menn ýmsar gastegundir sem að hefðu sömu hættur í för með sér og reykingar í hlífðarfötum.
Siv Friðleifsdóttir sagði að þær einu breytingar sem í frumvarpi hennar og samflutnings-manna hennar, væri að fella út undanþágur á tóbaksbanni á veitinga og skemmtistöðum. Markmiðið væri það eitt að vernda það starfsfólk er starfaði á þeim stöðum. Siv benti á að hvergi þar sem að tóbaksbann hefði verið sett á, eins og t.d. í New York eða á Írlandi, hefði bannið haft neikvæð fjárhagsleg áhrif.
Erna Hauksdóttir sagði að “reykingafrumvarpið” væri á dagskrá á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar 7. apríl næstkomandi. Erna taldi að þegar hefðu mörg skref verið tekin í því markmiði að minnka reykingar á veitinga og skemmtistöðum. Hún taldi að hugsanlega ættu yfirvöld fyrst að huga að því að fylgja eftir þeim reglum sem að þegar væru við líði. Þá benti Erna á þann mismun sem væri á hótelgistingu hér á landi á móts við sum þau lönd sem að þegar hefðu bannað reykingar á slíkum stöðum. Útlendingar væru 80% af þeim sem að gistu hótel á Íslandi og þar væru verulegur hluti frá löndum eins og Danmörku og Spáni sem að leyfðu reykingar. Þá ræddi Erna um eftirlitið með hugsanlegu banni og hvernig því yrði komið við og að tryggja þyrfti að það kæmi jafnt niður á alla. Erna lagði og áherslu á að ekki yrði gripið til skyndilausna vegna hugsanlegs banns, heldur þyrfti að hugsa málið til hlítar og komast þannig hjá kostnaðarsömum millileikjum.
Níels S Olgeirsson formaður MATVÍS tók saman niðurstöður fundarins sem samþykkti m.a. að fagna framkomnu frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tóbaksvarnir.
Smelltu á meira til að sjá ræðu Sigurðar Bessasonar á fundinum

Samrunasamningur undirritaður

20.04.2005

Stjórnir Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna hafa undirritað samning um samruna sjóðanna frá og með 1. júní 2005. Samrunasamningurinn verður lagður fyrir ársfundi sjóðanna 27. apríl nk. til staðfestingar. Viðræðunefnd sem skipuð var af stjórnum sjóðanna hefur unnið að málinu fá því í apríl á síðasta ári.
Markmið sameiningarinnar er að tryggja sjóðfélögum þau bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á með betri áhættudreifingu sjóðfélaga á atvinnugreinar, öflugri áhættustýringu og ávöxtun iðgjalda svo og hagkvæmari rekstri.
Samþykki ársfundir sjóðanna sameininguna tekur nýr sjóður til starfa 1. júní 2005 og mun hann taka við öllum eignum, réttindum og skuldbindingum eldri sjóðanna. Frá þeim tíma munu sjóðfélagar ávinna sér réttindi samkvæmt nýju aldurstengdu réttindakerfi.
Lífeyrissjóðurinn Framsýn og Lífeyrissjóður sjómanna eru þriðji og fjórði stærstu lífeyrissjóðir landsins og námu samanlagðar eignir sjóðanna í árslok 2004 144,8 milljörðum króna. Ávöxtun á síðasta ári var mjög góð, 13,6% raunávöxtun hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn og 16,3% hjá Lífeyrissjóði sjómanna.