Hversu miðstýrðir eru kjarasamningar i raun?

Svigrúm til launahækkana er fyrir hendi

Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið að meginástæða þess hve illa gengur að manna umönnunarstörf á hjúkrunarheimilum liggi í því hvað störf þessa fólks séu lágt metin í kjarasamningum. En það hefur einnig komið fram að sum hjúkrunarheimili séu ekki að glíma við sama vanda og bjóði jafnframt samkeppnishæf laun.

Þegar gengið er frá kjarasamningum við ríkisstofnanir eru þeir mjög svipaðir þegar kemur að grunnröðun helstu umönnunarstarfa í launaflokka. Hins vegar virðast stofnanir hafa ólíka túlkun á því hvernig eigi að flokka mismunandi störf niður á starfsheiti viðkomandi stofnanasamnings. Þá er einnig misjafnt hvernig verið er að meta þætti eins og starfsaldur og fyrri reynslu og eins námskeið sem starfsmenn hafa sótt.

Þegar haft er í huga að hver launaflokkur til viðbótar þýðir jafnframt 3% hækkun, þá er það augljóst hversu þýðingarmikið það er fyrir starfsfólkið að allir þættir kjarasamnings og viðkomandi stofnunar séu metnir að fullu. Þannig hafa þau hjúkrunarheimili sem hafa séð sér hag í að nýta sér alla þætti kjarasamningsins átt auðveldara með að halda vinnuafli, en það hefur jafnramt þýtt að verið sé að greiða um 3%, 6% eða jafnvel 9% hærri laun en ella.