Sameinumst til viðbragða ef sanngjörnum leiðréttingum verður hafnað – ályktun stjórnar Eflingar

Verkalýðshreyfingin stendur frammi fyrir mjög erfiðu verkefni á næstu vikum. Markmið kjarasamninga um efnahagslegan stöðugleika og jafnvægi á vinnumarkaði eru að engu orðin og forsendu ákvæði kjarasamninga eru brostin. Verkalýðshreyfingin verður því að vera undir það búin að til uppsagnar kjarasamninga komi um næstu áramót, segir stjórn Eflingar-stéttarfélags í ályktun sem stjórn félagsins hefur sent frá sér.

Verðbólgan er í dag tvöfalt hærri en forsenduákvæði kjarasamninga gerðu ráð fyrir. Hún er afleiðing rangrar stjórnarstefnu. Stjórnarstefnu þar sem verulega skortir á aðhald í ríkisfjármálum, illa tímasettar breytingar á íbúðalánamarkaði sem hafa leitt til þess að boginn á lánamarkaði er spenntur til hins ýtrasta og öllum stórframkvæmdum er stillt inn á sama tímabilið.

Stéttarfélögin hafa ítrekað varað við þessari þróun. En stjórnvöld hafa hvorki hlustað né gripið til aðgerða. Afleiðingin er sú að kaupmáttur stórs hóps launafólks hefur hrapað og þjóðfélagið stendur nú frammi fyrir mikilli verðbólgu sem allir tapa á.

Atvinnurekendur hafa á sama tíma ýtt undir ójafnvægi á vinnumarkaði með því að flytja inn vinnuafl í stórum stíl til þess að komast hjá því að greiða eðlileg launa- og starfskjör. Verkalýðshreyfingin mun aldrei sætta sig við slík félagsleg undirboð

Stéttarfélögin hafa sín megin staðið við kjarasamningana en ábyrgð stjórnvalda og atvinnurekenda er mikil. Spurningin hlýtur að vera hvernig ætla atvinnurekendur og stjórnvöld að bregðast við? Forsendur kjarasamningsins eru skýrar. Hægt er að bregðast við með því að ná samkomulagi innan sérstakrar forsendunefndar, með aðkomu ríkisvaldsins, um það hvernig launafólki verður bætt það sem aflaga hefur farið.

Ef niðurstaðan verður sú að sanngjörnum leiðréttingum til launafólks verði hafnað, þá hlýtur verkalýðshreyfingin að sameinast til viðbragða um næstu áramót.