Ánægðir trúnaðarmenn

Mannlegri samningar hjá Borginni

– segir Kristrún B. Loftsdóttir

Kristrún vinnur á leikskólanum Barónsborg og tók við starfi trúnaðarmanns Eflingar síðastliðinn vetur. Hún segir að námskeiðið hafi verið mjög vel skipulagt og margt að því sem leiðbeinendur hefðu fjallað um hefði komið sér á óvart. Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því að kjarasamningur okkar sem vinnum hjá Reykjavíkurborg er mun mannlegri en kjarasamningurinn sem farið er eftir á almennum vinnumarkaði. Eins og fram kemur í mun meiri réttindum í veikindum starfsmanna hjá borginni og fleiri greinum samningsins, segir hún.

Annað námsefni var líka mjög fjölbreytt og fjallar m.a. um orlofsmál, sjúkrasjóðinn, einelti og fleiri réttindamál sem skipta okkur miklu. Þá var mjög gagnleg umfjöllun um félagið og hvernig best sé að afla upplýsinga til að leysa mál sem upp koma á vinnustöðum. Ég tel mig vera mun betur undirbúna til þess að takast á við þetta starf og er ákveðin að fara á framhaldsnámskeið, sagði Kristrún að lokum.

Ágúst Ingi Sigurðsson

Skilar hæfari trúnaðarmönnum

Ágúst Ingi, vinnur hjá Össuri hf og var kosinn  trúnaðarmaður Eflingar í febrúar á þessu ári. Hann segir að námskeiðið hafi verið bæði fróðlegt og skemmtilegt og þátttakendur hafi náð mjög vel saman. Námið hófst á umfjöllun um vinnumarkaðinn og verkalýðshreyfinguna. Síðan var fjallað um starf og stöðu trúnaðarmanna, hvernig rannsaka ætti mál og fylgja þeim eftir, tengsl á vinnustað og vinnustaðafundi og samskipti á vinnustað. Einelti og vinnuréttur fengu líka talsverða umfjöllun og starfsfólk Eflingar fór yfir kjarasamninga og starfsemi félagsins.

Það er fyrst og fremst fjölbreyttu námsefni og góðu skipulagi leiðbeinenda að þakka hversu vel tókst til með þetta námskeið og ég er sannfærður um að það á eftir að skila hæfari trúnaðarmönnum, sagði Ágúst að lokum.