Merkilegt frumkvæði í starfi okkar
– segir Sigurður Bessason
Stjórn Eflingar-stéttarfélags hefur ákveðið að hefja stuðning við stéttarfélög og uppbyggingarstarf dalíta á Indlandi. Stjórnin ákvað á vinnufundi sínum í haust að að styðja sérstakt verkefni Mannréttindasamtakanna Social Action Movement á Indlandi sem snýst um baráttu verkafólks og stéttleysingja fyrir bættum kjörum. Hjálparstarf kirkjunnar verði samstarfsaðili Eflingar um verkefnið. Félagið mun á þessu ári leggja fram 750 þúsund krónur til þessa verkefnis og annað eins á næsta ári 2006.
Þvottafólkið er það lægst setta í samfélaginu einnig meðal hinna stéttlausu. Mannréttindasamtökin Socail Action Movement hefur hvatt og hjálpað fólkinu að stofna stéttarfélög. SAM veitir fræðslu og lögfræðiaðstoð og aðra faglega hjálp en fólkið vinnur starfið. Helsta baráttumálið hefur verið að fá greitt í peningum en ekki matarafgöngum. |
Sérstakt samkomulag verði gert til Hjálparstarf Kirkjunnar um málið, en samstarf við HK hefur verið í undirbúningi um nokkurra mánaða skeið. Efling-stéttarfélag hefur fengið skýrslu um mál dalítanna sem búa við afar erfiðar þjóðfélagsaðstæður. Þá hafa forsvarsmenn Hjálparstarfsins heimsótt Eflingu og kynnt málið í stjórn félagsins.
Séra Martin, kaþólskur prestur og stjórnmálafræðingur, stofnandi og leiðtogi SAM á tali við stéttleysingja. Mennirnir eru að búa sig undir samningaviðræður við efri stéttir um ónotaðan landskika. Stéttleysingjar mega strangt til tekið ekki eiga land. Ef þeim tekst að rækta ónotað land í þrjú ár án þess að nokkur skipti sér af því geta þeir farið fram á að eignast það. Oftar en ekki er komið í veg fyrir það, einhver af efri stétt segist hafa verið í burtu, sé nú kominn aftur að endurheimta land sitt. Það er uppspuni en fólkið hefur engin ráð til að mótmæla því. SAM vinnur með þeim eftir lögfræðilegum leiðum til að ná þessum rétti sínum. |
Þetta er merkilegt frumkvæði í okkar starfi, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Við höfum í þessu stóra félagi velt því mikið fyrir okkur hvernig við gætum komið að góðum verkefnum erlendis, þar sem þörf er á stuðningi í mannúðar- og verkalýðsmálum. Efling-stéttarfélag er orðið það öflugt félag að það getur látið til sín taka erlendis en við höfum ákveðið að einbeita okkur fyrst að þessu eina verkefni á Indlandi sem er verulega áhugavert og það minnir líka að mörgu leyti á réttleysi launafólks hér á landi og á Norðurlöndum við upphaf verkalýðsbaráttunar nema hvað réttleysi þessa fólks á Indlandi er algert og mikilvægt að rétta því hjálparhönd, segir Sigurður. Það sem er einkennandi fyrir Social Movement á Indlandi er að þetta er sjálfshjálparverkefni þ.e.a.s að aðstoðin er skilyrt því að fólkið sjálft sé virkt í öllu starfi að uppbyggingu verkalýðs- og mannréttindamála. Við höfum hrifist af þessari aðferð þeirra og Hjálparstarf kirkjunnar er að vinna þarna einstaklega gott starf, segir hann að lokum.
Grjóthöggvarar, stéttleysingjar: Þetta fólk var flutt úr þorpi sínu á óbyggt svæði þar sem grjót var höggvið úr klettum. Fólkið andar að sér steinryki, fetar sig yfir oddhvasst grjótið og hefur sleggju eina til að mölva berghnullunga í möl. Fólkið fékk byggingarefni í strákofa hjá námueigandanum í reikning. Laun eru svo lág að fólkið nær ekki að greiða skuldina. Það getur ekki leitað vinnu annars staðar því þá þarf það að greiða fyrir byggingarefnið og það getur það ekki. Myndin er tekin eftir stormasama nótt þar sem kofi þeirra hrundi. Vinnuveitandinn leggur ekki til efni í nýtt hús og segir fólkinu að flytja inn til samverkamanna. Engir skólar, heilsugæsla, búðir né önnur þjónusta er í nágrenni við vinnustaðinn. Þetta eru nútíma þrælabúðir, ein af mörgum, sem mannréttindasamtökin Social Action Movement hafa sagt stríð á hendur. SAM hefur hvatt og hjálpað fólkinu í réttindabaráttu sinni, hefur komið á fót forskólum fyrir börn þeirra svo þau spjari sig í almennum skólum og sér þeim fyrir vítamínum og bólusetningum. |
Jónas Þór ÞórissonFagna ákvörðun Eflingar
Hjálparstarf kirkjunnar fagnar mjög þeirri ákvörðun stjórnar Eflingar að ganga til liðs við stofnunina og styðja þannig stéttarfélög dalíta, stéttlausra verkamanna á Indlandi, segir Jónas Þór Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs Kirkjunnar í samtali við Eflingarblaðið. Framkvæmdaraðili verkefnisins eru mannréttindasamtökin Social Action Movement í Tamil Nadu sem Hjálparstarfið hefur átt mjög farsælt samstarf við í áraraðir. Verkefnið miðar m.a. að því að byggja upp þekkingu og getu félagsmanna, efla verkalýðsleiðtoga og styðja við smálánasjóð félagsins sem félagsmenn greiða í. Þetta er okkur öllum hvatning og við höfum komið þessum góðu fréttum frá ykkur á framfæri við okkar samstarfsfólk á Indlandi. |