Skrifað undir kjarasamning við Reykjavíkurborg


Sigurður Bessason, formaður Eflingar og Sjöfn Ingólfsdóttir, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar undirrita kjarasamninginn, ásamt Þórunni Sveinbjörnsdóttur, 1. varaformanni Eflingar

Skrifað undir kjarasamning við Reykjavíkurborg

Veruleg upphafshækkun launa félagsmanna Eflingar

Með nýjum kjarasamningi er sérstaklega komið til móts við fjölmenna yngri aldurshópa starfsmanna Reykjavíkurborgar, jafnframt því sem  aukið fræðslusjóðsframlag er að skila reyndari starfsmönnum bættum kjörum.  Launahækkanir koma hraðar inn eftir aldri og þær vega þyngst í upphafi samningstímans.  Til framtíðar skiptir hækkun lífeyrisframlags miklu máli fyrir starfsmenn borgarinnar.  Fjölmörg önnur atriði áunnust í þessum samningi sem verður kynntur nánar á næstu dögum.

Eftir langa samningslotu í Karphúsinu var skrifað undir samning við Reykjavíkurborg á miðnætti 4. desember 2005.

Samningurinn er til þriggja ára eða með gildistíma frá 1. október 2005 til 31. október 2008

Upphafshækkun launa er að meðaltali ríflega 15% en hækkunin felst annars vegar í nýrri launatöflu með gildistíma frá 1. október og hins vegar nýrri tengingu starfsmats við launatöflu.  Fallist var á launakröfu Eflingar með 5 lífaldursþrepum og 3% á milli þrepa.  Þessi launatafla er sérstaklega að koma til góða þeim fjölmenna hópi okkar sem er milli 20 og 25 ára.

Þá var einnig fallist á kröfu Eflingar um tvo viðbótarlaunaflokka fyrir þá sem hafa fylgt símenntunaráætlun og gildistöku símenntunarflokka var flýtt frá því sem nú er.  Þarna er komið til móts við þá sem hafa lengri starfsaldur hjá borginni.

Framlag Reykjavíkurborgar í lífeyrissjóð fer í 10,25% 1. janúar 2006 og 11,5% 1. janúar 2007.  Þá mun Reykjavíkurborg áfram greiða 2% í séreignarsjóð á móti 2% framlagi launamanns.

Framlag Reykjavíkurborgar í fræðslusjóð rúmlega tvöfaldast og fer í 0,6% frá 1. október 2005.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og samhliða borinn undir atkvæði.  Atkvæðagreiðsla fer fram í lok kynningarfunda. Kjörfundur verður í Sætúni 1, 9., 12. og 13. desember kl. 9:00 – 16:30. Niðurstöður atkvæðagreiðslu munu liggja fyrir 13. desember.