Framlenging kjarasamninga
Skynsamleg niðurstaða forsendunefndar
Alþýðusambandsfélögin stóðu frammi fyrir erfiðri ákvörðun á dögunum þegar forsendunefnd ASÍ og SA reyndi að ná niðurstöðum sem byggja mætti á við framlengingu kjarasamninga. Það var ekki deilt um að ríkisstjórnin hafði klúðrað stjórn efnahagsmála þannig að verðbólga er hér allt of há og gengi þannig skráð að hvert fyrirtækið af öðru er nú á leið úr landi og önnur rekin með miklum halla. Launamenn standa margir frammi fyrir nokkurri kjaraskerðingu af manna völdum.
Forsendunefndin komst að skynsamlegri niðurstöðu þar sem reynt var annars vegar að vinna gegn kjaraskerðingunni með eingreiðslu og innspýtingu inn í launahækkunina um áramótin 2006-7 og síðan félagslegum úrbótum sem í framtíðinni munu hafa meiri þýðingu fyrir hinn almenna launamann innan ASÍ en við sjáum á þessari stundu.
Það er stórmál að það tókst að vinna ríkisstjórnina á band okkar varðandi örorkulífeyrismál. Að öllu óbreyttu stefndi í skerðingu almenns lífeyris innan ASÍ sjóðanna. Með framlagi stjórnvalda má gera ráð fyrir því að skerðingum af völdum örorkulífeyris verði bægt frá sjóðunum á næstu árum. Mesti ávinningurinn er fólginn í viðurkenningu ríkisstjórnarinnar á því að örorkan er samfélagslegur vandi sem öll þjóðin þarf að taka á – ekki bara lífeyrissjóðirnir innan ASÍ þar sem launafólkið sem hefur borið þungann af erfiðisstörfum alla tíð, átti síðan þar að auki að taka á sig skerðingar vegna þungrar örorku félaga sinna. Hér er réttlætismál í höfn og ástæða til að lýsa velþóknun á breyttri afstöðu stjórnvalda í þessu efni.
Það er einnig stórmál að tókst að koma böndum á starfsmannaleigurnar með fyrirheitum stjórnvalda um lagasetningu þar sem meginatriði draga að lögum liggja þegar fyrir. Stjórnvöld og stofnanir skortir verkfæri til að taka á óheiðarlegum og óprúttnum atvinnurekendum sem hafa komið sér fyrir í gervifyrirtækjum í formi starfsmannaleiga og geta með óheiðarlegum lögmönnum spilað með launafólk að vild. Hér er loks kominn grundvöllur að leikreglum þar sem stjórnvöld og verkalýðsfélög hafa verkfæri til að taka á málinu. Það vantar smiðshöggið á ábyrgð notendafyrirtækjanna og vonandi tekst að sníða þann agnúa af í lagasetningunni.
Það er ekki síður stórmál að framlag til menntamála þeirra sem búa að skammri skólagöngu er nú margfaldað. Þessi hópur launafólks á inni stóran pakka hjá stjórnvöldum þar sem hann hefur ekki sótt framlög sín til langrar skólagöngu eins og aðrir.
Breytingar á atvinnuleysislöggjöfinni hljóta að teljast spor fram á við í réttindabaráttu okkar fyrir mannsæmandi kjörum fyrir alla landsmenn. Hingað til hefur launafólk hrapað í tekjum við að fara á atvinnuleysisbætur. Nú kemur tímabundin viðspyrna þar sem fólk fær tekjutengingar við fyrri laun um tíma meðan það aflar sér nýrrar atvinnu. Þetta geta orðið mikilvæg réttindi, sérstaklega í niðursveiflu atvinnulífs með auknu, tímabundnu atvinnuleysi.
Mikilvægur áfangi í starfi Eflingar
Starfmenntaverðlaunin
Allt frá stofnun Eflingar-stéttarfélags hefur einn grunntónninn í starfsemi félagsins verið efling starfsmenntunar innan félagsins. Að þessu markmiði hefur verið unnið markvisst í fjölda ára. Það voru því kærkomin verðlaun sem féllu í hlut félagsins á dögunum þegar Starfsmenntaverðlaunin komu í hlut þess. Verðlaunin eru umbun allra sem að verkinu hafa komið með okkur. Starfsmanna og stjórnar, fjölmargra samstarfsaðila og félaga okkar í öðrum stéttarfélögum og heildarsamtökum ASÍ sem hafa haldið um árarnar með okkur. Við höldum áfram á sömu leið og sláum taktinn inn í framtíðina – með fræðslu að leiðarljósi
Sigurður Bessasonformaður Eflingar-stéttarfélags