Steinunn Valdís

Steinunn Valdís fær hrósið

Það hefur legið fyrir um mjög langan tíma að störf starfsmanna í öllum umönnunarstéttum hafa verið vanmetin til launa. Þetta á við um störfin á leikskólunum, á sjúkrastofnunum og hjúkrunarheimilum svo dæmi séu tekin. Mjög erfitt hefur verið að fá ráðamenn á vegum ríkis og sveitarfélaga til að viðurkenna þetta og bæta kjör þessara starfsmanna. Það er engin tilviljun að hér er um hefðbundin kvennastörf að ræða. Á þessu hausti myndaðist neyðarástand á leikskólum þar sem ógerningur var að fá fólk til starfa á þeim kjörum sem í boði voru. Ástandið bitnaði á börnunum, eðlilegri þjónustu við almenning en síðast en ekki síst kom það fram í miklu vinnuálagi þeirra starfsmanna sem eftir voru á vinnustöðunum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri og samverkamenn hennar í borgarstjórn Reykjavíkur, fá hrós Eflingar fyrir að hafa höggvið á hnútinn. Það var löngu tímabært. Loksins kom fram viðhorfsbreyting sem rauf vítahring lágra launa umönnunarstéttanna. Borgarstarfsmenn sýndu hug sinn með því að styðja samninginn með yfirgnæfandi meirihluta. Það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með gagnrýni á samninginn. Gagnrýnin kemur annars vegar frá stjórnmálamönnum og hins vegar frá forystu fagfólks á leikskólum. Það er erfitt að taka mark á stjórnmálamönnum sem hafa á undanförnum árum tekið til sín margfaldar launahækkanir almennings, en segja nú að hækkanir til launafólks í umönnunarstéttum muni kollvarpa efnahagslífinu og kalla fram óviðráðanlega verðbólgu. Hvað með þeirra eigin laun? Kalla umframhækkanir til þeirra ekki fram verðbólgu? Sjaldan hefur málflutningur þeirra stjórnmálamanna sem búa í glerhúsi verið jafn gegnsær og aumkunarverður. Gagnrýnin frá forystu leikskólakennara er alvarlegra mál. Að óreyndu hefði mátt ætla að forysta leikskólakennara myndi fagna með Eflingu því í viðurkenningunni á störfum leikskólanna er fólgið tækifæri fyrir þá sjálfa í kjarabaráttu. Efling-stéttarfélag hefur líka fengið mörg viðbrögð frá leikskólastjórum þar sem samningunum er fagnað. En forysta leikskólakennara fellur í þá gryfju að tala niður til þeirra starfsmanna á leikskólunum sem ekki eru leikskólakennarnar. Það virðist hafa gleymst að sá hópur sem nú er að fá kjarabætur er annars vegar starfsfólk með langa reynslu og þekkingu á störfum leikskólans og hins vegar er verið að laða yngra starfsfólk til starfa með mikilvægum kjarabótum. Í 27 ár hefur verið byggt upp nám fyrir starfsmenn leikskólanna sem eru í Eflingu. Mikill metnaður hefur allan þennan tíma verið lagður í að byggja upp viðurkennt nám. Þeir sem lokið hafa slíku námi eru kjölfestan í starfsmannahaldi leikskólanna með langan starfsaldur að baki og mikla reynslu og þekkingu. Margir þeirra hafa átt þátt í að aðstoða verðandi leikskólakennara á fyrstu misserum starfa sinna. Því má svo ekki gleyma að fjöldi starfsmanna sem hefur sótt nám á vegum Eflingar hafa síðan farið í frekari nám og gerst leikskólakennarar.