Dreif sig út á hafnarbakkann

11. 01, 2006

Ennþá í sumarvinnunni eftir áratug

Dreif sig út á hafnarbakkann og hætti í eldhúsinu

Spjallað við Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðaltrúnaðarmann hjá Eimskipum

Ég hafði verið kokkur í Valhöll á Þingvöllum og fleiri veitingastöðum úti á landi og í Reykjavík í nokkur ár, þegar ég ákvað að breyta til og ráða mig í sumarvinnu hjá Eimskip í þrjá mánuði. Þetta var fyrir tíu árum og ég er ennþá hjá fyrirtækinu og sé núna um frystigáma á útisvæðinu í Sundahöfn, segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, sem var kosinn aðaltrúnaðarmaður Eflingar-stéttarfélags hjá fyrirtækinu í haust.

Ásgeir segir að það hafi verið mikil viðbrigði að fara úr eldhúsinu og byrja að vinna undir berum himni á hafnarbakkanum. En sér hafi líkað vel við umskiptin og þess vegna sé  hann ennþá í sumarvinnunni.

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að skipulagsbreytingum hjá Eimskipum og þeim fylgdi nokkur órói hjá starfsmönnum á deildum þar sem breytingarnar urðu mestar. En á síðustu vikum hefur verið unnið að því að hrista mannskapinn saman með ýmsu móti og starfsmannamálin virðast vera komast í betra lag núna, segir hann.

Það eru fjórir trúnaðarmenn Eflingar hjá fyrirtækinu á jafn mörgum vinnustöðvum og við munum reyna að leysa úr málum sem koma til úrlausnar hjá okkur í sameiningu. En ef að það tekst ekki, verður leitað eftir aðstoð hjá starfsmönnum félagsins. Eftir áramót fer ég á námskeið fyrir trúnaðarmenn til þess að undirbúa mig betur fyrir þetta starf, sagði Ásgeir að lokum.