Lærir japönsku hjá Mími – símenntun
Stefnir á Japan eftir tvö ár
– segir Elísabet Stefánsdóttir
Elísabet Stefánsdóttir vann í eldhúsi á leikskólanum Grænuborg þegar hún sá auglýst námskeið í japönsku hjá Mími-símenntun. Námskeiðið vakti áhuga hennar. Á sama tíma var hún líka í hlutastarfi í verslun á Hverfisgötu og þar voru m.a. til sölu japanskar kvikmyndir og teiknimyndir. Ég byrjaði að horfa á myndirnar þó að ég skildi ekki orð í málinu. En þarna sá ég tækifæri til þess að bæta úr því og sótti um að komast á námskeiðið, segir hún.
Þar með var Elísabet byrjuð að læra japönsku. Svo hafði ég líka aðra ástæðu því að vinkona mín var að læra japönsku í Háskóla Íslands og mig langaði rosalega að fara með henni. En það var ekki hægt vegna þess að ég var ekki nemandi við skólann. En við bættum okkur það upp með því að læra saman heima.
Vinkona mín fékk námsstyrk með aðstoð japanska sendiráðsins og fer til Tokyo eftir áramót til þess að halda áfram námi í japönsku. En ég fer á annað námskeið hjá Mími. Við höfum talað um að ég haldi áfram að læra hér heima og heimsæki hana svo eftir tvö ár.
Þá getum við farið saman á heimsráðstefnu í Yokohama og séð m.a. kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem eru gerðir eftir vísindaskáldsögum og fjalla yfirleitt um furðulegar verur sem búa í ennþá furðulegri heimi. En þangað til ætla ég að vera dugleg við námið og kannski eigum við eftir að setjast að í Japan, sagði Elísabet og brosti.