Samningamál starfsmanna OR

15. 03, 2006

Samningamál starfsmanna OR

Lýsum fullri ábyrgð á hendur Orkuveitunni

Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur lýsa yfir furðu sinni á vinnubrögðum Orkuveitu Reykjavíkur við gerð kjarsamnings við Eflingu – stéttarfélag. Á sama tíma og gengið hefur verið frá kjarasamningi við önnur fyrirtæki sem tengjast með beinum eða óbeinum hætti við kjarsamning Reykjavíkurborgar gengur hvorki né rekur varðandi gerð kjarasamnings fyrir félagsmenn Eflingar hjá OR. Þrátt fyrir að nú séu liðnir þrír mánuðir frá því að gengið var frá kjarasamningi við borgina  þá hafa engar alvöru viðræður átt sér stað af hálfu fyrirtækisins. Svo segir í ályktun fjölmenns fundar Eflingarstarfsmanna Orkuveitunnar 15. mars.

Á sama tíma hafa sveitarfélög sem þó voru með lokaða samninga breytt launatölum í samræmi við borgarsamningana.

Við lýsum því fullri ábyrgð á hendur Orkuveitunni vegna þessa seinagangs. Við gerum þá kröfu til Orkuveitunnar að alvöru samningaviðræður hefjist nú þegar og samningum verði lokið á sem allra skemmstum tíma.

Krafa starfsmanna hefur legið skýr fyrir allan tímann. Samningur Orkuveitunnar og Eflingar- stéttarfélags taki hliðstæðum breytingum og samningur Reykjvíkurborgar.

Við þessa stöðu munum við ekki una. Við treystum því að Orkuveitan neyði starfsmenn sína ekki til  að fylgja kröfunni eftir með aðgerðum, segir að lokum í ályktuninni.