Hvað kostar símtalið?
Það er langtum dýrara að hringja úr GSM síma í heimasíma en á milli tveggja heimasíma. Fimm mínútna langt símtal í heimasíma kostar að meðaltali 12,50 krónur ef hringt er úr öðrum heimilissíma, en sé þetta sama símtal hringt úr farsíma kostar það 79 krónur að meðaltali. Munurinn er rúm 530%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun verðlagseftirlits ASÍ þar sem bornar eru saman gjaldskrár símafyrirtækjanna tveggja fyrir almennan heimilissíma, GSM síma sem eru í áskrift og fyrirframgreidda GSM þjónustu (frelsi).
Umtalsverður símakosnaður heimilanna
Símakostnaður heimilanna er umtalsverður og auk heimilissímans er á flestum heimilum a.m.k. einn GSM sími. Gjaldskrár símafyrirtækjanna geta hins vegar oft verið snúnar og ekki alltaf auðvelt að gera sér grein fyrir því hvað símtalið kostar og hvar er hagkvæmast að eiga viðskipti. Mikið er um ýmis tilboð sem fela í sér að hringja megi í ákveðið símanúmer hjá viðkomandi fyrirtæki án endurgjalds.
Gjaldskrárnar eru þannig uppbyggðar, að símakostnaður einstaklinga fer að talsverðu leyti eftir því við hvaða símafyrirtæki viðtakandinn sem hringt er í skiptir. Yfirleitt er dýrara að hringja í númer hjá öðru símafyrirtæki en því sem skipt er við, einkum þegar hringt er í GSM síma.
Það kostar t.a.m tæpar 50 krónur að hringja þriggja mínútna símtal úr heimasímanum í GSM síma sem er hjá sama símafyrirtæki og þú skiptir við og um 66 krónur ef þú hringir þetta sama símtal í GSM síma sem er skráður hjá öðru símafyrirtæki.
Notir þú hins vegar GSM símann til að hringja, kostar það um 36 krónur ef viðtakandinn skiptir við sama fyrirtæki og þú, en 68 krónur að meðaltali ef hann gerir það ekki. Fyrir símanotendur þýðir þessi aðgreining að ekki er alltaf hlaupið að því að bera saman símakostnað milli símafyrirtækjanna tveggja og gera sér grein fyrir því hvort það borgar sig að skipta um söluaðila.
Könnunina í heild má skoða á heimasíðu ASÍ, www.asi.is