Hvað segja starfsmenn borgarinnar – um launin???
Um síðustu mánaðarmót fengu félagsmenn Eflingar-stéttarfélags sem starfa hjá Reykjavíkurborg greidd laun samkvæmt nýgerðum kjarasamningi Eflingar við borgina. Af því tilefni heimsótti blaðið nokkra vinnustaði hjá borginni og spurði starfsmenn hvort að launahækkunin og aðrar greiðslur sem samið var um hefðu ekki skilað sér í launaumslögin.
Ragnheiður Clausen er leiðbeinandi á leikskólanum Rofabæ
Mjög ánægð
Ég er mjög ánægð með kjarasamningin fyrir leikskólastarfsmenn og mér leist ágætlega á upphæðina sem var í launaumslaginu mínu. Svo fæ ég vonandi meiri launahækkun þegar ég lýk námi í Leikskólabrúnni. |
Dagmar Jóhannesdóttir, heimaþjónustu Norðurbrún
Kemur í ljós um næstu mánaðamót
Ég kannast við að hafa fengið launahækkun og eingreiðslu og svo var samningurinn afturvirkur og það hækkaði upphæðina líka talsvert. En um næstu mánaðarmót verða engar aukagreiðslur og þá kemur betur í ljós hvað launin mín hafa hækkað mikið. |
Bryndís Gísladóttir Skógarbæ
Umönnunarstörf metin lægra
Launabreytingarnar skiluðu sér í launaumslagið mitt. En það er langt frá því að ég sé sátt, vegna þess að laun starfsfólks í umönnun eru mun lægri en hjá öðrum starfshópum. |
Ánægð með árangurinn
– segir Hrönn Bjarnþórsdóttir
Hrönn Bjarnþórsdóttir er skólaliði í Réttarholtsskóla og var í samninganefndinni. Ég varð mjög ánægð þegar ég sá árangurinn af starfi samninganefndar Eflingar á launaseðlinum mínum. Launahækkunin sem ég fékk skiptir verulegu máli fyrir mig. Ég á son sem býr í Danmörku og núna sé ég m.a. fram á að geta heimsótt fjölskyldu hans mun oftar. |