Morgunverðarfundir Eflingar
Viljum orlofshús áfram
-segja þátttakendur
Við viljum áfram hafa orlofshús og orlofsíbúðir í boði frá Eflingu, segja þátttakendur á morgunverðarfundum Eflingar og fyrirtækisins GCG sem haldnir hafa verið með félagsmönnum Eflingar á síðustu vikum. Þetta sjónarmið staðfestir viðhorf sem margoft hefur komið fram í Gallup könnunum Eflingar. Það er hverfandi sjónarmið í félaginu að leggja beri minni eða enga áherslu á orlofsþáttinn. Sérstök ánægja kemur fram með íbúðina sem verið hefur til leigu í Kaupmannahöfn í heilt ár en ákveðið hefur verið að taka aðra íbúð þar á leigu til að mæta eftirspurninni.
Efling-stéttarfélag hefur margoft spurt þeirrar spurningar í könnunum hve mikla áherslu félagsmenn vilja leggja á orlofsþáttinn í starfsemi félagsins. Það sjónarmið hefur komið fram í starfi stéttarfélaganna hér á landi að draga beri úr þeirri áherslu sem verið hefur á þessum þætti. En svo er engan veginn í Eflingu. Fram kom í umræðum á fundunum að þátttakendur voru einum rómi um mikilvægi þessa þáttar og virðist engu skipta hvort þeir eigi sumarhús sjálfir eða eigi aðgang að þessum möguleikum í gegnum fjölskyldu eða vini. Þeir sem eiga slíka möguleika virðast jafnákveðnir í því að styðja við þennan þátt og hinir sem nýta bústaðina mikið.
Þetta öfluga félagslega viðhorf þátttakenda hefur vakið athygli stjórnenda fundanna en félagsmenn hafa viðrað viðhorf eins og eftirfarandi: Ef við viljum ekki styðja við orlofsþáttinn því við nýtum hann kannski ekki tímabundið, ætti þá ekki sama að gilda um viðhorfið til sjúkrasjóðsins. Af því við höfum ekki slasast í vinnunni eða verðum aldrei eða sjaldan veik, eigum við þá ekki bara að hætta með sjúkrasjóðinn, spyrja þessir sömu þátttakendur.
Sem sé það þýðir ekki að bjóða félagsmönnum Eflingar upp á einstaklingsbundin og eigingjörn viðhorf. Þeir eru tilbúnir að styðja félagslega þætti í starfi Eflingar þó að þeir njóti ekki endilega góðs af þeim sjálfir. Ef eitthvað er vilja þeir efla fjölbreytni í þessum þáttum og bjóða upp á meiri þjónustu í innlendum og erlendum tilboðum og fleiri möguleikum varðandi orlofsávísanir og annað sem félagið býður upp á.
Þátttakendur á fundunum eiga hrósið fyrir óeigingjörn sjónarmið og öflugt félagslegt viðhorf.