Ráðherrar bera ábyrgð

31. 03, 2006

Þó að ástandið sé alvarlegt í starfmannamálum á Hrafnistu í Reykjavík, hittust vistmenn í setustofunni í morgun og tóku lagið.

 

Lág laun á hjúkrunarheimilum

Ráðherrar bera ábyrgð

Fjármála- og heilbrigðisráðuneytið vísar hvort á annað þegar spurt er hver beri ábyrgð á bágum kjör þeirra sem sinna umönnunarstörfum á hjúkrunarheimilum.   Fjöldauppsagnir blasa við á þessum stöðum en enginn virðist vera til að svara fyrir hvernig megi leiðrétta kjör þessa hóps sem hefur nú undanfarið dregist talsvert aftur úr öðrum sambærilegum hópum. Ráðherrar í ríkisstjórninni vísa nú ábyrgðinni hver á annan. Það er þó ljóst að fjármálaráðherra fer með samningsvaldið gagnvart ríkinu og hjúkrunarheimilinum. Heilbrigðisráðherra ber faglega ábyrgð á því að starfsemin sé í lagi á þessum stofnunum.

Með aukinni þenslu í þjóðfélaginu á síðastliðnu vori var talsvert farið að bera á því að þeir sem sinntu umönnunarstörfum hjá bæði ríki og sveitarfélögum hurfu í síauknum mæli frá þeim vettvangi til starfa á almennum markaði þar sem betri kjör voru í boði.  Nýir samningar við Reykjavíkurborg sem tóku gildi frá 1. október 2005 leiðréttu kjör þeirra sem sinna umönnun barna og aldraðra umtalsvert.  Laun þeirra sem starfa við umönnun hjá öðrum sveitarfélögum voru einnig leiðrétt en eftir sátu starfsmenn á dvalar- og hjúkrunarheimilum með óbreytt kjör.

Ýmsar ástæður hafa leitt til þess að störf þeirra sem sinna öldruðum er sífellt að verða erfiðari og meira slítandi. Illa hefur gengið að manna störfin sem þýðir aukið álag á þá sem eftir eru á vinnustöðunum.

Það verður ekki horft fram hjá því að aukinn veltuhraði starfsfólks sem var um 70% á síðastliðnu ári á sumum hjúkrunarheimilum, þýðir einnig umtalsverðan kostnað fyrir rekstur hjúkrunarheimila og þar með fyrir ríkið og allt þjóðfélagið.  Hjúkrunar­heimilin eru nánast eingöngu rekin með daggjöldum frá ríkinu og því verður bæði fjármála- og heilbrigðisráðuneytið að axla þá ábyrgð sem að þeim snýr.