Slitnar upp úr viðræðum á hjúkrunarheimilum
Efling skorar á ráðherra að höggva á hnútinn
Slitnað hefur upp úr viðræðum milli starfsmanna á hjúkrunarheimilum og SFH, samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.
Efnislegar umræður fóru fram í dag þar sem ágreiningur stóð fyrst og fremst um þá kröfu atvinnurekenda að leiðrétting launa yrði á tímabilinu frá 1. maí 2006 til 1. janúar 2007, en á svo langt tímabil gátu fulltrúar launafólks ekki fallist.
Ekki var ágreiningur um það að samninganefnd SFH lýsti sig reiðubúna til að jafna þann launakostnaðarmun sem er milli kjarasamninga á hjúkrunarheimilunum og samninga Reykjavíkurborgar þar sem greidd yrðu sömu laun fyrir sambærilega vinnu.
Efling-stéttarfélag lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ekki skyldi takast að ganga frá samkomulagi. Félagið lýsir fullri ábyrgð á hendur SFH vegna þeirrar stöðu sem nú er komin upp. Fyrir liggja yfirlýsingar af hálfu starfsmanna um frekari aðgerðir. Þar er bæði um að ræða setuverkföll og uppsagnir.
Efling-stéttarfélag skorar því á samninganefnd SFH að endurskoða afstöðu sína til þeirra tímasetninga sem ágreiningurinn stendur um. Jafnframt skorar félagið á ráðherra fjármála- og heilbrigðismála að höggva þegar í stað á þennan hnút í deilunni.