Atvinnulaust fólk
Tengsl Eflingar við atvinnulaust fólk rofin
Fram er komið á Alþingi frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem munu rjúfa þau tengsl sem verið hafa milli trygginganna og stéttarfélaganna VR og Eflingar í Reykjavík. Tvær nefndir hafa um árabil verið starfandi í Reykjavík þar sem úthlutun og afgreiðsla atvinnuleysisbóta fer fram. Samkvæmt frumvarpinu verður ein úthlutunarnefnd yfir allt landið sem ákveður bætur allra atvinnulausra á landinu. Vinnumálastofnun mun yfirtaka alla framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Efling-stéttarfélag og VR hafa mótmælt þessum breytingum á lögunum og telja að með þessu móti verði þau beinu tengsl sem félögin hafa átt við atvinnulaust fólk rofin. Jafnframt varar Efling við því að taka upp nýja og fjarlæga tryggingastofnun sem á að afgreiða allar bætur á landinu.
Efling og VR ræddu málið á fundi með félagsmálaráðherra fyrir skömmu þar sem farið var yfir helstu rök félaganna gegn þessu nýja fyrirkomulagi. Mikil hagræðing hefur átt sér stað með því að einungis hafa starfað tvær úthlutunarnefndir í Reykjavík undanfarin ár, en áður voru nefndir starfandi almennt í stéttarfélögunum. Þrátt fyrir það hefur Vinnumálastofnun knúið á um þessa breytingu þar sem öll umsjón með málefnum atvinnulausra er flutt inn í eina ríkisstofnun.
Sem dæmi um hvaða áhrif þetta hefur er að fjórir af hverjum fimm atvinnulausum í úthlutunarnefnd nr. 1 í Reykjavík hafa verið úr Eflingu en mun færri í öðrum félögum. Við stórfellt atvinnuleysi skiptir það miklu máli fyrir félögin að vera í beinum tengslum við félagsmenn sína sem eru atvinnulausir. Þá er hægt að tengja saman ýmis félagsleg úrræði svo sem valkosti í menntunarmálum, aðstoð í sjúkrasjóðum við veikindi og fjölmörg önnur félagsleg atriði sem koma til samkvæmt reynslu Eflingar.
Á þetta hafa forystumenn Eflingar og VR bent undanfarin ár en Vinnumálastofnun hefur leynt og ljóst stefnt að nýju tryggingastofnunarkerfi á vegum þessarar ríkisstofnunar.
Nýja frumvarpið er bæði um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir og byggist á samkomulagi milli ASÍ og SA. Annars vegar er um að ræða frumvarp til staðfestingar fyrirheitum ríkisstjórnarinnar við framlengingu kjarasamninga 15. nóvember sl. Þar er m.a. átt við tekjutengingu bóta en tímabil bótanna er stytt og inn koma ýmis réttindamál sem fylgja nýjum reglum um atvinnuleysisbætur. Þ.á.m. hverfur regluleg skráning atvinnulausra en í staðinn er gert ráð fyrir samskiptum við ráðgjafa fyrir atvinnulaust fólk. Öll þessi atriði byggjast á fyrirheitum ríkisstjórnarinnar við framlengingu kjarasamninganna. Hér eru þættir sem eru til verulegra bóta
Stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs áhrifalaus
Vinnumálastofnun er nú falin framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar, en stjórn atvinnuleysistrygginga er með frumvarpinu gerð áhrifalaus.
Í umræðum um málið innan Eflingar hefur komið annars vegar fram að stöðug þróun hefur verið í þá átt á síðustu árum að þurrka áhrif verkalýðshreyfingarinnar út úr félagsstofnunum stjórnvalda. Nefna má þar félagslegar íbúðabyggingar og Íbúðalánasjóð sem dæmi. Líta má þessa breytingu á atvinnuleysistryggingum í þessu ljósi. Einnig er það athyglisvert að ríkisstjórn sem hefur einkavætt og fært verkefni til þeirra sem standa nálægt þjónustunni, annað hvort sveitarfélaga eða áhugasamtaka, er í þessu máli að fara þveröfuga leið sem felst í því að fela ríkisstofnun að fara með mál sem hingað til hefur að hluta til verið sinnt af stéttarfélögnum.
Félagsfundur Eflingar mótmælirStjórnvöld rjúfa tengsl við atvinnulaust fólkFélagsfundur Eflingar haldinn 19. apríl sl. samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktun um frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem nú liggur fyrir Alþingi: Fram er komið á Alþingi frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem munu rjúfa þau tengsl sem verið hafa milli trygginganna og stéttarfélaganna VR og Eflingar í Reykjavík. Tvær nefndir hafa um árabil verið starfandi í Reykjavík þar sem úthlutun og afgreiðsla atvinnuleysisbóta fer fram. Samkvæmt frumvarpinu verður ein úthlutunarnefnd yfir allt landið sem ákveður bætur allra atvinnulausra á landinu. Vinnumálastofnun mun samkvæmt frumvarpinu yfirtaka alla framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Efling-stéttarfélag og VR hafa mót-mælt þessum breytingum á lögunum og telja að með þessu móti verði þau beinu tengsl sem félögin hafa átt við atvinnulaust fólk rofin. Jafnframt varar Efling við því að taka upp nýja og fjarlæga tryggingastofnun sem á að afgreiða allar atvinnuleysisbætur á landinu. Félagsfundur Eflingar-stéttarfélags haldinn 19. apríl 2006 mótmælir þessum breytingum sem leiða til þess að samskipti stéttarfélaganna við atvinnulausa félagsmenn sína eru rofin. Félagsfundurinn skorar á Alþingi að koma í veg fyrir að þessi þáttur frumvarpsins nái fram að ganga. |