Spítalaleikskóli í Vatnsmýrinni
Sakna sumra leiktækjanna
– segir Rut J. Arelíusdóttir
Ég byrjaði að vinna á leikskólum fyrir tuttugu og sjö árum en réði mig svo á Leikskólann Sólbakka sem Ríkisspítalarnir ráku. Hann var staðsettur við eina flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli ekki langt frá Blómastöðinni Alaska. En hún varð að víkja og seinna hlutu leikskólinn og Alaska sömu orlög. Þá tók Reykjavíkurborg við rekstrinum og flutti leikskólann uppí Stakkahlíð, sagði Rut J. Arelíusdóttur, leiðbeinandi þegar hún rifjar upp með okkur starfsemina á leikskólanum áður en hann flutti úr Vatnsmýrinni. Mig minnir að fjórtán starfsmenn hafi annast þrjátíu og átta börn á þrem deildum og eldhúsið á þessum tíma og að flestir hefðu ráðið sig hjá borginni þegar flutningurinn var ákveðinn.
Það voru starfsmenn á Landspítalanum sem voru foreldrar flestra barnanna og starfsemi leikskólans var þá með allt öðrum hætti. Við unnum á þrískiptum vöktum og konurnar sem mættu til vinnu klukkan tíu mínútur fyrir sjö, tóku á móti fyrstu börnunum og svo voru þau að tínast á leikskólann fram eftir degi.
Börnin sem fóru síðast heim á kvöldin voru kölluð kvöldbörn og kvöldkonan var konan sem sá um að gefa þeim að borða.
Kvöldbörn og kvöldkonur
Á laugardögum var opið frá klukkan sjö til fjögur síðdegis og þeim var skipt á milli starfsmanna sem vildu vinna. En yfirleitt sáu tvær konur um að passa börnin ef þau voru fleiri en þrjú sem komu á leikskólann, segir hún. Þessi tiltekni dagur gekk undir heitinu gallabuxnadagur af því að launin sem við fengum greidd fyrir þessa vinnu dugðu fyrir einum gallabuxum.
Rut segir að kvöldbörnin hafi komið í skólann um svipað leyti og seinni drekkutíminn byrjaði og þegar börnin í daggæslu fóru heim hafi þau átt svolítið erfitt með að skilja afhverju þau máttu ekki fara heim líka. En þá lagði maður bara harðara að sér við að hafa ofan af fyrir þeim og þá voru þau fljót að jafna sig, segir hún.
Dagleg starfsemi á leikskólanum var að öðru leyti ekki mjög frábrugðin því sem hún er í dag. En aðstaðan fyrir börnin og starfsmennina lagaðist mikið eftir að við fluttum og núna höfum við m.a. aðgang að tölvu, ljósritunarvél og fleiri tækjum sem eru nauðsynleg í þessu starfi, segir hún. Svo ráðum við líka yfir ágætis leikföngum og leiktækjum af ýmsum stærðum og gerðum og ekki er annað að sjá en að börnin séu ánægð með þau.
Saknar sumra leiktækjanna
Rut segist sakna sumra leiktækjanna sem voru á útisvæðinu á gamla leikskólanum og voru mjög vinsæl hjá börnunum og fullorðna fólkinu líka, segir hún.
Mér finnst t.d. mikil eftirsjá af kastala sem var búinn til úr rúllum undan rafmagnsstrengjum og gömlum báti með litlu stýrishúsi. En sennilega hafa þau farið á einna af áramótabrennum í borginni og fólk á öllum aldri horft hugfangið á eldtungurnar teygja sig til himins.
Skemmtileg nálægð við flugvöllinn
Nálægðin við flugvöllinn hafði oftast jákvæð áhrif á starfið í leikskólanum. En stundum brá okkur þegar vélarnar flugu mjög lágt yfir svæðið og þá beygðum við okkur ósjálfrátt niður. Börnunum fannst mjög gaman að fylgjast með flugvélunum og stundum sáu þau fallhlífastökkvara koma svífandi til jarðar.
Þá var Öskjuhlíðin í næsta nágrenni við leikskólann og við fórum oft þangað í gönguferðir og ýmsa skemmtilega leiki. Við eignuðum okkur líka fallegt rjóður í einni hlíðinni og börnin fengu að mæla trén á vorin og aftur á haustin og fylgdust með vexti þeirra.
En við urðum líka fyrir ýmsum óþægindum bæði frá ferðamönnum og fólki sem hafði verið að skemmta sér á dansleikjum á Hótel Loftleiðum. Ferðamenn áttu það til að reisa tjöld sín á útisvæðinu eftir að leikskólanum var lokað á kvöldin. En þegar börnunum var hleypt út á morgnana var svefnfriðurinn úti og þeir voru fljótir að láta sig hverfa.
Rut segir að ferðamennirnir hafi oftast gengið vel um útisvæðið en ástandið hafi ekki verið eins gott um helgar eftir næturheimsóknir dansleikjagesta. Það var oft okkar fyrsta verk á mánudagsmorgnum að tína upp glerbrot og hreinsa ýmsan annan ófögnuð áður en börnunum var hleypt út. Sem betur fer sést svona umgengni ekki á leiksvæðum við leikskólana lengur, segir hún.
Margar eftirminnilegar stundir
Hún segist líka hafa upplifað marga skemmtilegar og eftirminnilegar stundir í Vatnsmýrinni. Ég annaðist til dæmis fjögur börn sömu foreldra og þegar yngsta barnið kom á leikskólann var það elsta orðið fjórtán ára.
Ég man líka eftir því að einu sinni kom sautján ára piltur í leikskólann með gítarinn sinn og spilaði og söng í afmælisveislu sem við héldum fyrir systur hans. Þegar söngnum var lokið kom hann til mín og sagði mér að hann ætti líka lítinn bróðir á leikskólanum og að hann hefði sjálfur verið á leikskólanum þegar hann var barn og ég hefði líka passað hann, sagði Rut og brosti.
Rut J. Arelíusdóttir er leiðbeinandi
á leikskólanum Sólbakka