Verður að leiðrétta launakjörin
– segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar
Það verður að leiðrétta launakjörin á hjúkrunarheimilunum, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar í viðtali við Eflingarblaðið. Við höfum leitað eftir kjarabótum fyrir þessa starfsmenn síðan um mitt síðasta ár og kjarabarátta starfsmanna er þrautalending. Þeim er bara nóg boðið. Því miður er það svo að þeir ráðamenn sem tala hæst um að þurfi að leiðrétta kjör þeirra sem lakar standa, fara gjörsamlega af límingunni hvað eftir annað þegar stéttarfélögin ná þeim árangri, segir hann. Sigurður ræðir um stöðuna í atvinnu- og kjaramálum hér á eftir.
Allt frá miðju ári 2005 hefur Efling fundað með forsvarsmönnum Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu þar sem framkvæmd stofnunarsamninga aðila hefur verið til umfjöllunar. Því miður hefur skort verulega á að framkvæmd samningsins hafi verið með eðlilegum hætti þar sem ekki hafa fengist frá samningsaðila umbeðin gögn varðandi framgang samningsins. Ekki bætti um skák þegar leiðréttingar sem gerðar voru á samningi ríkisins s.l. haust fengust ekki yfirfærðar til hjúkrunarheimilanna. Þá voru þau svör gefin af hálfu samninganefndar ríkisins að ábyrgð á framkvæmd samnings hjúkrunarheimilanna væri ekki á þeirra vegum.
Kraumandi óánægja starfsmanna
Allt síðan þá hefur kraumað óánægja starfsmanna með stöðu mála þar sem engin viðbrögð hafa verið að hálfu samningsaðila og á sama tíma hefur undirmönnun farið vaxandi. Reyndir starfsmenn hafa verið að segja upp og inn hefur verið ráðið reynsluminna fólk í tímabundnar ráðningar sem áfram hefur leitt til vaxandi vinnuálags. Starfsmenn hafa litið til samnings Reykjavíkurborgar sem eðlilegt viðmið í launum og hafa óskað eftir leiðréttingum þar sem greidd yrðu sömu laun fyrir sömu vinnu. Á það hefur ekki verið fallist.
Starfsmenn líta svo á að þeir séu komnir að endimörkum þolinmæðinnar. Þeir upplifa að ráðamenn ætli ekkert að gera. Setuverkföll starfsmanna eru nauðvörn þessa fólks sem síðan telur sig ekki eiga annan kost en að segja upp störfum.
Fyrir alla þá sem fylgst hafa með þessu máli hefur vakið mesta furðu hvernig fjármála- og heilbrigðisráðherra hafa neitað að horfast í augu við ábyrgð sína í málinu. Ljóst er að kostnaðurinn af þessum kjarasamningi er greiddur af ráðuneyti fjármálaráðherra og með sama hætti ber heilbrigðisráðherra faglega ábyrgð á starfsemi heimilanna. Aldrað fólk á rétt á umönnun og það er á borði þessara tveggja ráðherra að tryggja rekstur heimilanna. Það þýðir ekki að vísa bara á samningsaðilana en þrýsta hvorki á faglega ábyrgð né tryggja fé til að lagfæra launin, segir Sigurður.
Reykjavík sýndi kjark
Ég vil minna á það hvernig ástandið var hjá Reykjavíkurborg áður en samið var þar síðastliðið haust. Þar var mikill skortur á starfsfólki svo lá við neyðarástandi en nýr samningur gerbreytti ástandinu á leikskólum borgarinnar og kjörum í öðrum umönnunarstörfum. Mikil óánægja ríkti meðal starfsfólks með kjörin áður en samningurinn var gerður. Með kröfum Eflingar og síðan umræðu í samfélaginu skapaðist samhljómur um að nú væri tímabært að lagfæra kjör starfsmanna sem störfuðu við þessi erfiðu störf.
Það var því merkilegt að fylgjast með hvernig sumir áhrifamenn fóru nánast á límingunni þegar niðurstaða samningsins lá fyrir. Gerður var kjarasamningur sem færði fólki verulegar kjarabætur, kjarabætur sem það sannanlega hefur unnið fyrir. Samningsaðilar voru kallaðir óábyrgir en þegar mesta moldviðrið var rokið hjá þá gengu önnur sveitarfélög frá samsvarandi hækkunum til starfsmanna sinna. Heimurinn hefur ekkert farið á hvolf við það.
Einfalt ráð til ráðamanna
Ég á eitt einfalt ráð til ráðamanna. Það er hægt að fara eins að á hjúkrunarheimilunum. Það er ekkert annað að gera í þessari stöðu en leiðrétta kjör þessa fólks. Því fyrr því betra.
Frjáls för launafólks
Fyrsta maí n.k. verður starfsfólki frá nýjum ríkjum ESB heimilt að koma til Íslands án atvinnuleyfa. Ný löggjöf liggur fyrir þinginu sem gengur út frá því að fyrirtæki verði að tilkynna ráðningu á ríkisborgurum þessara ríkja þar sem fram kemur nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang og að sömu upplýsingar séu um þann sem ráða á. Með tilkynningunni skal fylgja ráðningasamningur sem tryggir útlendingnum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum.
Efling hefur gert alvarlegar athugasemdir við áformaða framkvæmd þessa ákvæðis um ráðningasamninga. Það er reynsla félagsins að ef viðkomandi stéttarfélag hefur ekki gögn um fyrirtækið og ráðningasamninga, þá er það í mjög veikri stöðu til að fylgjast með því að atvinnurekendur framfylgi lögum og kjarasamningum. Gert er ráð fyrir því að Vinnumálastofnun skuli afhenda stéttarfélögum í viðkomandi starfsgrein afrit af ráðningasamningi útlendings óski stéttarfélagið eftir því enda liggi grunur um brot á gildandi kjarasamningi. Þetta er að mati Eflingar algerlega óásættanlegt og félagið varar við þessari framkvæmd.
Ljóst er að Vinnumálastofnun er hvergi í stakk búin til þess að meta hvort ráðningarsamningar fari að kjarsamningum. Hjá Eflingu er löng reynsla og þekking af því að fást við ýmis vandamál sem tengjast atvinnurekendum með erlenda starfsmenn í vinnu. Sú þekking er ekki til til staðar hjá Vinnumálastofnun hvorki á einstökum kjarasamningum né samningsumhverfinu eða atvinnurekendum í einstökum greinum. Vinnumálastofnun vinnur ekki í einstökum kjarasamningum og þekkir ekki til framferðis einstakra atvinnurekenda á sama hátt og stéttarfélagið.
Það vekur furðu að það þurfi að liggja fyrir grunur um brot á kjarasamningi til þess að fá ráðningasamninga afhenta ekki nema menn telji það boðlegt vinnulag að leiðrétta alltaf kjörin eftir á í stað þess að hafa ráðningasamningana rétta frá upphafi ráðningu.
Því miður hefur ríkistjórnin ekki sett þau lög og reglur sem til þarf varðandi erlenda þjónustu og verktakafyrirtæki sem starfa hér á landi. Enn einu sinni eigum við að leysa málin eftirá í stað þess að búa til vönduð lög og reglugerðir sem tryggja rétt aðkomumanna sem og heimamanna svo að þessar breytingar riðli ekki um koll því kjara- og félagslega umhverfi sem við öll viljum viðhalda.
Vaxandi verðbólga áhyggjuefni
Nú þegar baráttudagur verkafólks er í nánd, þá er ástæða til að óttast verðbólguskriðu í kjölfar veikingar krónunnar samfara stöðugum spádómum um veika stöðu íslensks fjármálamarkaðar. Hækkandi bensín- og olíuverð er dæmi um verðbreytingar sem stjórnvöld geta haft áhrif á til að hamla gegn verðbólgu.
Við höfum á undanförnum samningstímabilum náð árangri í kjarabaráttu vegna þess að við höfum gert kröfur um kaupmátt en ekki bara krónutölu. Það verður erfiðast fyrir launafólk með lágar tekjur og millitekjur ef verðbólga magnast hér fram eftir ári.
Engin rök eru fyrir því að kenna launahækkunum um verðbólguna, sem allir eru nú samdóma um að stafi af gengissigi og veikingu íslensks fjármálamarkaðar. Það hlýtur hins vegar að vera mikilvægasta verkefni stjórnvalda að sporna við þessari þróun. Þar þýðir ekki að henda boltanum bara á milli sín eins og ráðherrar hafa tamið sér í yfirstandandi kjaradeilu á hjúkrunarheimilum, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar að lokum.