Tillögur ASÍ og SA um
Erlenda starfsmenn, gerviverktöku, opinber innkaup og lögbrot í atvinnustarfsemi
ASÍ og SA leggja áherslu á að leikreglur á vinnumarkaði þurfa að vera skýrar og þeim fylgt eftir af stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins með markvissu og skilvirku eftirliti. Tryggja verður með öllum tiltækum ráðum að réttur sé ekki brotinn á launafólki og þau fyrirtæki sem hafa hér starfsemi virði lög og kjarasamninga. Á það jafnt við um beinar ráðningar til innlendra fyrirtækja, starfsmenn hjá starfsmannaleigum eða frá erlendum þjónustufyrirtækjum og er það vilji aðila að samræma eins og kostur er réttindi og skyldur fyrirtækja og starfsmanna óháð rekstrar- og ráðningarformi. Þá er mikilvægt að tryggja skjóta málsmeðferð stjórnvalda og fullnægjandi viðurlagaheimildir þannig að fyrirtæki hagnist ekki á brotum, segir í sameiginlegum tillögum ASÍ og SA.
Koma verður á virkri upplýsingagjöf til fyrirtækja og erlends launafólks um réttindi og skyldur á vinnumarkaði í samvinnu aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og fjármagn tryggt.
ASÍ og SA hafa sérstaklega áhyggjur af stöðu mála í byggingastarfsemi, þjónustu tengdri mannvirkjagerð og veitingageiranum og tillögugerðin miðast fyrst og fremst við að bregðast við því ástandi sem er eða hugsanlega kann að skapast í þeim greinum.
ASÍ og SA eiga sæti í nefnd sem skipuð hefur verið af félagsmálaráðherra og er ætlað að gera tillögur um styrkingu vinnumarkaðarins. Nefndin skal skila niðurstöðum fyrir 1. nóvember nk. en ASÍ og SA telja mikilvægt að undirbúa og hrinda þegar í framkvæmd aðgerðum til að tryggja betur stöðu erlends launafólks og eftirlit með starfsemi fyrirtækja. Eftirfarandi tillögur eru jafnframt áhersluþættir ASÍ og SA í þeirri nefndarvinnu. Stefnt skal að því að efni þeirra verði að fullu komið til framkvæmda 1. janúar 2007.
1. Starfsemi skráð á einum stað
ASÍ og SA telja mikilvægt í þágu skilvirkni og eftirlits að þeir sem hafa með höndum starfsemi hér á landi skrái starfsemi sína og starfsmenn á einum stað og skráningarferli verði einfaldað eins og kostur er. Einnig verði hægt að nálgast á sama stað kynningarefni um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.
Tryggja verður með lögum að öll stjórnvöld, sem hafa með höndum eftirlit á vinnumarkaði, hafi aðgagn að skráningarupplýsingum og þeim gögnum sem skráningu fylgja, eftir því sem nauðsyn krefur vegna eftirlits. Skattyfirvöld geti t.a.m. óskað eftir aðgangi að ráðningarsamningum erlendra starfsmanna ef það er nauðsynlegt vegna álagningar skatta.
2. Skráning erlendra fyrirtækja í fyrirtækjaskrá
Tryggja verður að öll fyrirtæki sem eru með starfsemi á Íslandi séu skráð í fyrirtækjaskrá, hvort sem þau eru með staðfestu á Íslandi eða veita hér tímabundna þjónustu. Fyrirtækjaskrá fái sjálfkrafa upplýsingar um fyrirtæki sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun er kunnugt um að starfi á Íslandi. Fyrirtækjaskrá sendi jafnframt sjálfkrafa upplýsingar til Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar um erlend fyrirtæki sem skráð hafa starfsemi sína í fyrirtækjaskrá.
Sérstaklega verði kannað hvort erlend fyrirtæki sem hér veita þjónustu hafi heimild til þeirrar starfsemi í heimalandinu.
3. Skráning starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja
Þegar erlend þjónustufyrirtæki sbr. lög nr. 54/2001 hefja hér starfsemi skulu þau tilkynna til Vinnumálastofnunar um alla erlenda starfsmenn, enda sé ætlað að starfsemin vari lengur en 10 virka daga. Þá ber þeim að tilkynna án tafar um allar breytingar á starfsmannahópnum. Vinnumálastofnun geti krafist að skrifleg staðfestingar á ráðningu og ráðningarkjörum fylgi tilkynningum. Einnig geti stofnunin krafist annarra upplýsinga sem hún telur nauðsynlegar til að ganga úr skugga um að þjónustan sé veitt hér á landi í samræmi við lög. Fyrst um sinn verði sú skylda afmörkuð við byggingastarfsemi og þjónustu tengda mannvirkjagerð. Vinnumálastofnun skal afhenda stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem útlendingur starfar afrit af staðfestingu ráðningar / ráðningarsamningi útlendingsins óski stéttarfélagið eftir því enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi.
Skilgreina þarf hvenær starfsmaður er sendur tímabundið til landsins til að veita þjónustu í skilningi 1. gr. laga nr. 54/2001
4. Upplýsingaskylda erlendra þjónustufyrirtækja
Erlent þjónustufyrirtæki sbr. lög nr. 54/2001 skal afhenda notendafyrirtæki skriflega staðfestingu þess að það hafi uppfyllt lagaskyldur um skráningu fyrirtækis og starfsmanna og ber notendafyrirtæki skylda til að krefjast þeirrar staðfestingar við upphaf viðskipta. Notendafyrirtæki sæti viðurlögum (sektum) ef það hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni. Fyrst um sinn verði áhersla lögð á byggingastarfsemi og þjónustu tengda mannvirkjagerð. Trúnaðarmaður á vinnustað, eða viðkomandi stéttarfélag ef trúnaðarmaður er ekki á vinnustað, getur óskað upplýsinga um það hjá notendafyrirtækinu hvort þjónustufyrirtækið hefur uppfyllt þá skyldu sína.
5. Eftirlit yfirvalda á vinnustöðum og viðurlög við brotum
Koma verður á virku eftirliti Vinnumálastofnunar og skattyfirvalda á vinnustöðum og leggja ASÍ og SA til að áhersla verði lögð á byggingastarfsemi, þjónustu tengda mannvirkjagerð og veitingastarfsemi. Kannað verði hvort launakjör erlendra starfsmanna séu í samræmi við skriflega staðfestingu ráðningar / ráðningarsamninga.
Ef brotið er með alvarlegum hætti gegn kjarasamningi og kjör ekki leiðrétt þrátt fyrir kröfur yfirvalda þar um, verði heimilt að beita viðurlögum þannig að vinnuveitandi hagnist ekki á brotinu. Áhersla verði lögð á skjóta og skilvirka meðferð mála.
Kannað verði hvort samþætta megi eftirlit Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar, hvort tveggja til að tryggja virkara eftirlit og draga úr tilkostnaði.
6. Upplýsingagjöf til fyrirtækja og erlends launafólks
Upplýsingagjöf til erlendra fyrirtækja
Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld útbúi sameiginlegt kynningarefni um íslenskan vinnumarkað og réttindi og skyldur fyrirtækja og launafólks. Það verði sent þeim erlendu fyrirtækjum sem hafa starfsemi hér á landi og verði einnig aðgengilegt svo íslensk fyrirtæki geti kynnt reglurnar fyrir erlendum viðsemjendum sínum.
Upplýsingagjöf til íslenskra fyrirtækja
Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld efli jafnframt upplýsingagjöf til íslenskra fyrirtækja um tilkynningu og skráningu erlendra starfsmanna og réttarstöðu þeirra.
Upplýsingagjöf til erlends launafólks
Þýða verður meginþætti kjarasamninga yfir á fleiri tungumál enda grundvallaratriði að launafólk þekki réttindi og kjör á íslenskum vinnumarkaði.
7. Persónuskilríki á byggingarvinnustöðum
Unnið verði að útgáfu sérstakra persónuskilríkja til að auðvelda eftirlit á vinnumarkaði og verði sérstaklega litið til byggingarvinnustaða í því sambandi. Stjórnvöldum verði veitt heimild til að gera þá kröfu að starfsmenn beri frá fyrsta starfsdegi skilríki frá atvinnurekanda sínum, þar sem fram kemur nafn starfsmanns ásamt mynd, kennitala, heiti vinnuveitandans og kennitala hans. Sambærilegar kröfur verði gerðar gagnvart einstaklingsverktökum. Sá aðili sem ber ábyrgð á viðkomandi vinnustað skal sjá um að þessari skyldu sé framfylgt.
8. Tryggingamál erlendra starfsmanna
Erlendir launamenn hjá þjónustufyrirtækjum skulu eiga rétt á tryggingum vegna dauða eða varanlegri örorku af völdum vinnuslysa og munu aðilar kanna hvort löggjöf og evrópskar reglur veiti þeim nægilega vernd í þessum tilvikum. Einnig þarf að gæta að sjúkra- og lífeyristryggingum erlends launafólks.
9. Gerviverktaka
ASÍ og SA vilja að gert verði sérstakt átak gegn gerviverktöku. Fyrst í stað verði sjónum beint að byggingariðnaði. Að mati ASÍ og SA er nauðsynlegt að breyta lögum um skyldu atvinnurekenda til að halda eftir af launum starfsmanna vegna skatt- og meðlagsskulda.
Þáttur SA:
Áróður gagnvart atvinnurekendum þar sem þeir eru hvattir til að taka ekki þátt í gerviverktöku. Dregið verður fram hvaða hættur fylgja gerviverktöku.
Þáttur ASÍ:
Áróður gagnvart launafólki og einstaklingsverktökum. Dregið verður fram hvaða munur er á réttindum verktaka og launamanna. Kynningarefnið verði á nokkrum tungumálum.
Þáttur stjórnvalda:
Stór hluti þeirra sem starfa sem gerviverktakar bera því við að þeim sé ókleift að starfa sem launamenn vegna skattskulda og meðlagsskulda. Atvinnurekendum er skylt samkvæmt lögum að halda eftir allt að 75% af launum starfsmanns vegna skatta og meðlaga og er ljóst að það sem eftir stendur nægir varla til framfærslu. Stjórnvöld verða að lækka þetta hlutfall þannig að starfsmaður haldi a.m.k. eftir helmingi launa sinna. Átak gegn gerviverktöku skilar ekki tilætluðum árangri ef slík verktaka er eina tekjuöflunarleið fjölda manna.
Fyrirtækjum með marga einstaklingsverktaka verði gerð grein fyrir ákvæðum skattalaga og gefinn frestur til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Aðgerðir verði boðaðar.
10. Opinber innkaup
ASÍ og SA telja rétt að lögum um opinber innkaup verði breytt og gert skylt að könnuð sé viðskiptasaga tilboðsgjafa. Viðskiptasaga þeirra sem standi að félagi (stjórnendur, stjórnarmenn, eigendur) verði metin og félag verði ekki metið hæft sem tilboðsgjafi ef skilgreindar hlutlægar kröfur eru ekki uppfylltar. Þá verði sérstaklega kveðið á um skyldur verktaka til að greiða laun samkvæmt kjarasamningum og lögum og hvernig skuli bregðast við brotum á því.
Gera verður breytingar á lögum um opinber innkaup til að sambærilegar reglur gildi um útboð sveitarfélaganna sem eru undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins.
11. Bætt skattskil einstaklingsverktaka
Unnið verði að því að koma á einföldu og skilvirku fyrirkomulagi til að auðvelda einstaklingsverktökum að reikna skattskyldu og skil á opinberum gjöldum.
12. Lögbrot í atvinnustarfsemi
Hrinda verður í framkvæmd tillögum sem settar hafa verið fram til að sporna við svartri atvinnustarfsemi, duldum launagreiðslum og brotum á reglum um virðisaukaskatt.
Þorri fyrirtækja fylgir lögum og reglur í hvívetna og skekkir það mjög samkeppnisstöðu þeirra ef hér fá að þrífast fyrirtæki sem fara á svig við lög. Gera verður sérstakt átak gegn brotum í veitingastarfsemi.
13. Samstarf ASÍ og SA
ASÍ og SA munu setja á fót sérstakan starfshóp sem ætlað er að fylgja eftir ofangreindum áherslum.