Aldrei verið í betur launuðu starfi

11. 07, 2006

Aldrei verið í betur launuðu starfi

– segir Skafti Ragnarsson, kranastjóri

Ég var að hífa fleka, þegar ég sá lögreglubíl koma akandi eftir Suðurlandsbrautinni á töluverðum hraða. Skyndilega sveigði hann til hliðar og stöðvaði. Tveir lögreglumenn stukku út úr bílnum og tóku á rás á eftir tveimur mönnum, sem höfðu lagt á flótta þegar þeir sáu lögreglubílinn nálgast. En ég sá ekki hvernig eftirförinni lauk, sagði Skafti Ragnarsson, kranastjóri, þegar blaðið heimsótti hann fyrir skömmu á vinnustað hans við Miklubraut.  Atvikið sýnir að margt getur gerst í starfi kranastjóra. Fréttablað Eflingar spjallaði við Skafta um starfið og fleira á dögunum.

Skafti vinnur á byggingakrana hjá Spöng ehf. við að reisa íbúðir fyrir eldri borgara og hófust framkvæmdir sl. haust. Hann segist hafa unnið á flestum gerðum vinnuvéla og um tíma, sjálfstætt á beltagröfu fyrir Ræktunarsamband Borgarfjarðar. En uppúr 1983 minnkaði vinnan og Ræktunarsambandið keypti gröfuna.Þá fór hann í bæinn og hefur unnið á byggingakrönum síðan með stuttum hléum. 

Skafti segir að þegar uppbyggingin í miðbæ Garðabæjar hófst hafi hann unnið á byggingakrana við að reisa háhýsi sem er tengt við verslunarmiðstöðina. Kraninn var hækkaður í c.a. 50 metra hæð og til þess að auðvelda mannskapnum ferðina upp í kranahúsið var sett lyfta á bygginguna. Hún var þannig útbúin að sett var lóð, sem var lítið eitt léttara en meðal maður, inní stórt rör og síðan fest á það talía. Svo fórum við í sérútbúið belti, kræktum króknum í lykkju og hífðum okkur upp með handafli. Lóðið sá til þess að menn þurftu ekki að viðhafa nein stórátök á upp né niðurleið. En svo komst Vinnueftirlitið í málið og bannaði okkur að nota lyftuna, segir hann. 

Öruggari og betri kranar en áður var

Aðspurður sagði Skafti að byggingakranarnir sem eru notaðir í dag séu bæði betri og öruggari en gömlu kranarnir og það sé mun aðveldara að stjórna þeim.

Starfið felist aðallega í því að færa til fleka og annað efni sem þurfi í bygginguna. Svo er einhver steypuvinna í þessu líka, segir hann.

Samskiptin við þá sem eru niðri fari fram í gegnum talstöð og sá aðili sem er verið að hífa fyrir, stjórni verkinu. Það geta verið smiðir, járnamenn eða aðrir starfsmenn sem óska eftir þjónustu.

Hann segir líka að dvölin í krananum geti stundum orðið nokkuð löng. Ég fer uppí kranann þegar vinna hefst á morgnana og kem helst ekki niður aftur fyrr en í hádegismat og fer svo upp aftur og er í krananum þar til vinnudeginum lýkur.

Skafti segir að það séu tveir byggingakranar á svæðinu og ef hinn kraninn sé mannlaus geti hann stýrt honum með fjarstýringu. 

Ýmsir þættir hafa áhrif á starfið á krananum. Þegar vindhraðinn er kominn uppí 15 metra byrjar kraninn að sveiflast til og þá séu bönd sett á flekana sem verið er að hífa og þeir séu síðan teymdir á sinn stað. En ef vindhraðinn fer yfir 20 metra,  yfirgefi hann kranann þar til að vind lægi aftur. Ég hef aldrei verið lofthræddur og starfið hefur verið áfallalaust hjá mér hingað til. En manni stendur ekki á sama þegar maður er að klifra uppí krana í vonskuveðri, segir hann. Á góðviðrisdögum þegar ég fæ pásur fer ég út á pall sem er fyrir aftan kranahúsið og nýt þess að horfa á útsýnið og þá kemur stundum fyrir að maður gleymir sér. En það á ekki við um alla. Ég vann með manni sem sofnaði alltaf í pásum og það varð að banka í kranann með barefli til þess að vekja hann.

Gaman að fylgjast með skemmtiferðaskipunum

Skafti segir að sumarið sé besti tíminn í þessu starfi og honum finnst gaman að fylgjast með skemmtiferðaskipunum þegar þau sigla inn Viðeyjarsundið og leggjast að bryggju í Sundahöfn. Ég hef vídeóvélina mína stundum með í vinnuna og tek myndir af því sem fyrir augu ber úr krananum og er kominn með nokkuð gott safn af yfirlitsmyndum frá stöðum þar sem ég hef unnið um dagana, segir hann.

Ég skal líka segja þér að þetta er best launaða starf sem ég hef unnið um ævina og get þess vegna ekki verið annað en ánægður með tilveruna, sagði Skafti að lokum.