Ekki vandað til verka á Alþingi
segir Atli Gíslason, varaþingmaður VG
Atli Gíslason hefur undanfarin ár setið þrívegis á þingi sem varaþingmaður VG, nú síðast á vordögum. Félagsmönnum Eflingar er Atli að góðu kunnur þar sem hann hefur starfað sem lögmaður Eflingar-stéttarfélags og áður eldri stéttarfélaga fyrir sameiningu þeirra um langan tíma. Á þingi hefur Atli verið duglegur að flytja mál sem snerta hagsmuni launafólks. Nú síðast vakti hann athygli á því hvernig almennir launamenn hafa verið sviptir vaxtabótum vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í kjölfar hækkandi húsnæðisverðs. Af öðrum málum má nefna frumvarp hans um uppsagnir þar sem gert er ráð fyrir grundvallarbreytingu á ákvæðum laga um rétt atvinnurekenda til að segja upp starfsmönnum, en Atli leggur til að miðað verði við eina grundvallarsamþykkt ILO og tilgreina verði málefnalegar ástæður uppsagnar. Fréttablaði Eflingar lék forvitni á að heyra frá Atla um reynslu hans af vinnustaðnum Alþingi, þingstörfum og sérstaklega hvað viðkemur undirtektir undir mál sem snerta hag launafólks.
Ég hef afar blendnar tilfinningar til Alþingis sem vinnustaðar. Öll umgjörð þingsins er til fyrirmyndar og starfsfólkið eftir því. Það þjónustar þingmenn á alla lund, aflar gagna, aðstoðar við samningu frumvarpa, þingsályktana o.fl., útvegar bækur og tímarit, heldur uppi öflugri heimasíðu, eldar dæmalaust góðan mat og þannig mætti lengi telja.
Samskipti þingmanna, jafnt stjórnarsinna sem stjórnarandstæðinga, eru að mestu prúðmannleg og upplífgandi þótt stundum slái í brýnu í þingsal. Það kom mér hins vegar á óvart hversu orðræða á þingfundum milli þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu er um margt málefnalega slök. Ég sakna iðulega rökstudds málflutnings, svara og andsvara. Einnig er stjórnarandstaðan áhrifalítil þótt annað kunni að sýnast af umfjöllum um þingmenn hennar í fjölmiðlum. Reyndar er það svo að umfjöllun Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2 takmarkast að mestu við utandagskrárumræður og annað einatt innantómt karp í upphafi þingfunda, sem gefur villandi mynd af störfum þingsins. Ég hafði aftur á móti bæði gagn og ánægju af nokkuð málefnalegum nefndarfundum, sérstaklega í allsherjarnefnd þar sem ég var á heimavelli sem lögmaður með rúmlega aldarfjórðungs starfsreynslu.
Fremur afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins en löggjafi
Samkvæmt stjórnarskránni byggjum við á þrískiptu ríkisvaldi, það er löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Allt önnur mynd blasir við í raun. Fyrir mér er Alþingi miklu fremur lögafgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins en löggjafi. Þingmenn leggja sjaldan fram frumvörp, þau koma flestöll frá ráðherrum viðkomandi ráðuneyta. Og það sem verra er, þau eru tíðast samin þar án þess að leitað sé álits hagsmunaaðila og það er ekki vandað til verka. Hagsmunaaðilar og sérfræðingar utan ráðuneyta eru fyrst kallaðir til þegar málin koma til umfjöllunar í nefndum eftir 1. umræðu á Alþingi af þremur. Verst þótti mér að upplifa það að ýmis ráðherrafrumvörp voru sannarlega á jaðri mannréttindaákvæða eða fólu jafnvel í sér brot á þeim og stjórnarþingmenn, allir sem einn, samþykktu þau möglunarlaust eins og þeim væri stýrt með handafli. Tugir stjórnarfrumvarpa voru til að mynda lögð fram á síðasta vorþingi og samþykkt í einum rykk á lokadögum þingsins nú í júní án sómasamlegrar umfjöllunar í nefndum. Slík flýtiafgreiðsla er mér engan veginn að skapi og leiðir oft til mistaka í lagasetningu, sem reyndar eru alltof mörg dæmi um, fyrir utan pólitísku mistökin. Nægir þar að nefna lög um lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara sem afgreidd voru fyrir nokkrum misserum. Á Norðurlöndum eru veigameiri mál vandlega undirbúin áður en frumvörp um þau eru lögð fyrir þing, nema þjóðfélagsaðstæður og mjög brýn þörf kalli á skjóta lagasetningu.
Mikilvæg mál sem snerta hag launafólks
Ég gekk að því sem vísu sem varaþingmaður að núverandi ríkisstjórn er fyrst og síðast ríkisstjórn hátekju- og stóreignamanna. Það sannar ört vaxandi misskipting auðs og valda síðastliðinn rúman áratug. Milljarðamæringum fjölgar ört og að sama skapi eykst fátækt og örbirgð. Hagsmunamál verkafólks og verkalýðshreyfingarinnar eiga hvorki uppá pallborð stjórnarþingmanna né ríkisstjórnar. Kjör launamanna og lífeyristaka hafa verið skert svo um munar en auðmönnum hyglað. Ríkisstjórninni virðist auk þess sérstaklega uppsigað við ríkisstarfsmenn sem nánast hafa verið lagðir í einelti við hlutafélaga- og einkavæðingu ríkisstofnana. Nýleg breyting á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins er skýrt dæmi um handarbakavinnu ríkisstjórnarinnar og ég vil segja andúð á launamönnum og stéttarfélögum.
Á vorþingi 2004 var því frestað um tvö ár, til 1. maí 2006, að ákvæði laganna tækju gildi um launamenn frá löndum Austur-Evrópu sem þá voru nýgengin í Evrópusambandið. Fyrirhugað var að nýta þessi tvö ár til að undirbúa skýra löggjöf. Tíminn var aldeilis ekki nýttur til þess og á síðustu stundu var lagt fram vanskapað stjórnarfrumvarp sem tók engan veginn á þeim vandamálum sem blasa við verkalýðshreyfingunni og þjóðfélaginu almennt. Leita þurfti afbrigða frá þingsköpum og þingmönnum stillt upp við vegg, það er að velja versta kostinn eða næstversta. Annað hvort var að samþykkja frumvarpið óbreytt með afar takmörkuðum aðhalds- og eftirlitsheimildum eða opna allt upp á gátt.
Vinnubrögð til skammar
Vinnubrögðin voru ríkisstjórninni til skammar. Sjálfur hef ég samið og lagt fram allmörg þingmál sem varða réttindamál launamanna og eru meðal annars byggð á reynslu minni úr starfi fyrir Eflingu og fleiri stéttarfélög. Hér vil ég einkum nefna frumvarp til breytinga á jafnréttislögum um stjórnvaldsúrræði til að uppræta kynbundinn launamun, sem er mannréttindabrot, frumvarp um að uppsagnir úr starfi skuli vera skriflegar, rökstuddar og málefnalegar og um miskabætur vegna ólögmætra uppsagna, frumvarp sem tryggir að útlendingar sem starfa hér á landi, hvort sem er á vegum íslenskra eða erlendra atvinnurekenda, starfsmannaleigna eða hliðstæðra fyrirtækja, njóti í einu og öllu réttinda samkvæmt íslenskum kjarasamningum, frumvörp um önnur réttindamál útlendinga og barna þeirra og þingsályktun um kynjahlutföll. Öll þessi mál, sem mörg hver varða mannréttindi, hafa verið þöguð í hel af stjórnarþingmönnum og ríkisstjórn.
Óskiljanleg staða Sjálfstæðisflokksins
Af þingreynslu minni er mér enn óskiljanlegra en áður hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hefur enn tiltrú allt að 40% kjósenda, þar á meðal fjölda launamanna, þegar flokkurinn hefur undanfarin 15 ár í ríkisstjórn fyrst og fremst gætt hagsmuna fámenns hóps hátekju- og stóreignamanna, innan við 10% þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar fengið sína ráðningu fyrir sama ráðslag. Þörfin fyrir verkalýðssinnaða og félagslega ríkisstjórn hefur aldrei verið meiri.