Nýr Fræðslustjóri Eflingar
Hlakka mikið til starfsins
– segir Atli Lýðsson
Eftir því sem ég hugsa meira um þetta tilvonandi starf hjá Eflingu, þá er meiri og meiri tilhlökkun í mér að fá að takast á við þetta verkefni. Sjálfur þekki ég vel hvernig er að hætta námi og fara ungur út á vinnumarkaðinn eins og margir félagsmenn Eflingar gera, segir Atli Lýðsson, nýráðinn fræðslustjóri Eflingar-stéttarfélags í viðtali við Fréttablaðið. Atli hefur starfað að menntamálum um margra ára skeið sem fræðslustjóri Tæknivals og starfsmannastjóri Ax Hugbúnaðarhúss en síðustu ár hefur hann verið framkvæmdastjóri Fjölmenntar.
Það er notaleg tilfinning að koma á skrifstofu Eflingar og finna þann mikla áhuga og það góða andrúmsloft sem ríkir í kringum fræðslumálin og það uppbyggingarstarf sem félagið hefur verið að vinna undanfarin ár.
Ég hef alltaf litið á það sem ögrandi hlutverk að fá að taka þátt í því að vekja áhuga fólks að nýju til menntunar og þekki vel til umhverfis þar sem fólk á sér sögu brotinnar skólagöngu og leiðinlegra minninga úr skólanum. Því miður er allt of stór hópur sem þannig kemur út úr grunnskólanum.
Atli á sér áhugaverðan feril þar sem hann lærði pípulagnir þegar hann hóf skólagöngu að nýju eftir nokkurt hlé eftir grunnskólann. Síðan hélt hann áfram þar sem námið gekk mjög vel og lærði til stúdentsprófs og fór í Kennaraháskólann að því loknu. Það er nú skemmtileg þversögn í mínu lífi að ennþá hringja í mig kunningjar og vinir ef það bilar vaskur en ennþá hefur enginn hringt til að ræða við mig um kennslu- og uppeldismál sem ég lærði þó meira í á sínum tíma, segir hann.
Kannski segir þetta okkur hvað það er praktískt að hafa iðnnámið og reynsluna af því með í starfsferlinum, segir hann. Það var góður skóli fyrir mig að fara út á vinnumarkaðinn sem ungur maður. Ég vann um skeið í áhaldahúsinu í Garðabæ, Hampiðjunni og Brauðgerð MS en var þá svo heppinn að vera lokkaður í iðnnámið sem varð aðeins byrjun á lengra námi.
Atli hefur sinnt ýmsum félagsmálum m.a. fyrir námsmannasamtök, Hjálparsveit skáta og samtök fatlaðra. Hann segir að fjölskyldan sé alltaf í fyrsta sæti en útivist, fjallaferðir og veiðar séu skemmtilegustu áhugamálin og oftar en ekki er fjölskyldan með í ferð. Gönguhópurinn okkar er núna að undirbúa skemmtilega gönguferð í Dólómítunum en þeir eru í Ítölsku Ölpunum. Við höfum gengið mikið hér innanlands fram að þessu og þótti tilvalið að breyta til, segir hann.