Skólafólk í sumarvinnu

11. 07, 2006

Skólafólk í sumarvinnu

Nemendum í framhaldsskólum gekk vel að fá vinnu í sumar og heimsótti blaðið nokkra vinnustaði og spjallaði við skólafólk um námið og sumarvinnuna. Rætt var við þau um vinnuna, kaupið og síðan hvort þau ætluðu í sumarfrí í sumar. Það var gott hljóð í krökkunum eins og meðfylgjandi viðtöl bera með sér.

Rosalega gaman í vinnunni

– segir Bernharð Arinbjarnarson

Bernharð Arinbjarnarsson er 18 ára og stundaði nám í vetur á Náttúrufræðibraut í fjórða bekk Menntaskólans við Sund. Hann sagðist hafa mætt til vinnu í Borgartúni þar sem Eykt er að reisa viðbyggingu við KB-banka daginn eftir að síðasta prófinu lauk. Þetta er fjórða sumarið mitt hjá fyrirtækinu og mér finnst rosalega gaman í vinnunni, segir hann.

Bernharð segir líka að starfið snúist aðallega um að rétta smiðunum hjálparhönd þegar verið sé að slá upp mótum og við ýmis önnur verk.

Þegar Bernharð var spurður hvort að hann hafi hugleitt að fara í smíðanám, sagðist hann vera búinn að taka ákvörðun um að hefja nám í trésmíði næsta haust.

Hann segir að launin fyrir tímavinnu séu ekki neitt til þess að hrópa húrra fyrir. En hann fái greitt eftir mælingu og það komi mun betur út launalega. Aðspurður um sumarfrí sagðist Bernharð ætla að fara til Benidorm með vinum sínum og slappa af í viku.

 

Þórdís Kristjánsdóttir:

Launin rosalega góð

Þórdís Kristjánsdóttir lauk við þriðja bekk Verslunarskóla Íslands í vor og sagði að sér hefði gengið vel í prófunum. Ég fékk vinnu við ræstingar og í eldhúsi á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Svo getur verið að ég haldi áfram um helgar næsta vetur, segir hún.

Þórdís segir að samstarfsfólkið sé skemmtilegt og launin séu rosalega góð, miðað við laun sem hún hefur heyrt krakka á sínum aldri tala um.

Ég hef ekki skipulagt neitt sumarfrí ennþá en kannski fer ég bara í útilegur um helgar í sumar, sagði Þórdís og brosti.

 

Jón Gunnar Ásbjörnsson

Í fiskvinnslu frá 14 ára aldri

Jón Gunnar Ásbjörnsson varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík í vor.  Hann sagðist hafa farið í vikufrí eftir útskriftina og notað tímann til þess að hvíla sig áður en hann byrjaði í sumarvinnunni. Aðspurður sagðist Jón Gunnar vinna hjá Jóni Ásbjörnssyni ehf sem er útflutningsfyrirtæki í sjávarútvegi og Fiskkaupum sem sé fiskvinnslufyrirtæki og afi sinn, Jón Ásbjörnsson, hafi stofnað bæði fyrirtækin.

Það fylgir starfinu að hafa umsjón með lager og verkun á grásleppuhrognum og hann hafi mikla reynslu í þessum störfum því að hann hafi unnið hjá fyrir­tækjunum frá 14 ára aldri.

Jón Gunnar segist stefna á nám í lögfræði við Háskóla Íslands næsta vetur og hann ætli að taka sér frí í þrjár vikur áður en skólinn hefst og fara með félögum sínum á Hróarskelduhátíðina í Danmörku. Hljómsveitin Sigurrós ætlar að spila þar og ég held mikið uppá strákana, segir hann.

Þaðan held ég svo til Spánar í tvær vikur og byrja svo í lögfræðinni af krafti þegar ég kem heim, sagði Jón Gunnar að lokum.

 

Alltaf jafn skemmtilegt í HB Granda

– segir Elzbieta Baranowska

Elzbieta Baranowska er frá Póllandi og lauk fimmta bekk í Menntaskólanum í Reykjavík í vor. Þetta er þriðja sumarið í fiskvinnu hjá HB Granda og það er alltaf jafn skemmtilegt í vinnunni.

Svo eru launin borguð út vikulega og það er rosalega mikill plús fyrir námsfólk, segir hún. Elzbieta segist hafa unnið flest störf við fiskvinnsluna og núna sé hún að læra gæðaeftirlit og vinni við það í sumar. Aðspurð um vinnutímann segir hún að starfsfólkið skiptist á að vinna dagvaktir og kvöldvaktir og svo þurfi stundum að vinna eftirvinnu fram á kvöld.

Hún segir að í byrjun ágúst fari hún í útskriftarferð til Tyrklands á ferðamannastað sem heitir Marmaris og að 180 manns muni taka þátt í ferðinni og hún hlakki rosalega mikið til.

Þegar Elzbieta er spurð að því hvað taki við þegar hún líkur stúdentsprófi, segist hún stefna á nám í læknisfræði. En áður en ég tek endanlega ákvörðun er ég að hugsa um að taka mér ársfrí frá námi og fara til Danmerkur og vinna og nota tímann til þess að víkka sjóndeildarhringinn, segir hún.