Dansrækt JSB

12. 09, 2006


Dansrækt JSB

Velkomin í okkar hóp

segir Bára Magnúsdóttir

Dansrækt JSB er líkamsræktarstaður sem hefur þróast innan danshefðarinnar og er sérsniðinn að kvenlegum þörfum, segir Bára Magnúsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri. Bára hóf að kenna líkamsrækt jafnhliða jazzballettkennslu eftir að hún kom heim frá námi í Bretlandi og hafa því áherslur úr dansinum sett mót sitt á líkamsræktina. Bára segir að þar skipti réttur líkamsburður höfuðmáli. Um leið og við styrkjum vöðvana og teygjum höfum við það hugfast að bera okkur vel. Það er undirstöðuatriði líkamlegrar vellíðunar, auk þess sem andleg vellíðan byggist á því að sjálfsmyndin sé sæmilega reist.”

Í  sumar vorum við að stækka húsnæði Dansræktar JSB í Lágmúla 9 um ríflega helming og stefnt er að formlegri opnun í nýja húsnæðinu 10. september næstkomandi þar sem gestum og gangandi verður boðið að líta inn milli kl. 14 og 18. Við vorum fyrir löngu búin að sprengja gamla húsnæðið utan af okkur og það er mikið tilhlökkunarefni að geta boðið viðskiptavinum okkar þá þjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið. Fyrir utan aukið rými til líkamsræktarinnar, fundahalda og snyrtiaðstöðu segist hún jafnframt hlakka til að geta núna boðið mæðrum upp á barnagæslu svo að þær geti stundað líkamsrækt án þess að lenda í vandræðum með börnin sín.

Með aukinni velmegun hafi líkamsþyngd okkar Vesturlandabúa aukist verulega og æ fleiri fari yfir kjörþyngd. Við hjá Dansrækt JSB urðum brautryðjendur í því að veita konum aðstoð við að ná kjörþyngd með TT-námskeiðunum svokölluðu, þar sem TT stendur fyrir frá toppi til táar.Þar er skírskotað til þess að ekki sé nóg að einblína á líkamann, heldur þurfi að sinna andlegu hliðinni til jafns þegar tekist er á við slík verkefni. Þessi vinna hefur verið einstaklega gefandi og fátt jafnast á við ánægjuna sem felst í því að taka þátt í að sjá konur léttast og styrkjast andlega og líkamlega og ganga reistar út í lífið, segir hún ennfremur.

Í fyrra bauð Dansrækt JSB svo sérsniðin TT námskeið fyrir stúlkur sem vilja komast í kjörþyngd og eru á aldursbilinu 16-20 annars vegar og hins vegar 21-30. Það er ljóst að full þörf er fyrir slík námskeið og ánægjulegt að geta lagt ungu stúlkunum lið við að temja sér heilbrigðari lífshætti og auka lífsgæði þeirra með þeim hætti, sagði Bára að lokum.