Launalagfæringar á hjúkrunarheimilum

26. 09, 2006

Launalagfæringar á hjúkrunarheimilum dragast

– ríkið stendur ekki við fyrirheit um fjármagn

Fólki er vafalaust enn í fersku minni þegar starfsmenn á hjúkrunarheimilum lögðu niður vinnu í vor til þess að vekja athygli á hve laun þeirra höfðu dregist aftur úr þrátt fyrir aukið álag.  Eftir talsvert þóf og setuverkföll gáfu forsvarsmenn samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu – SFH út einhliða yfirlýsingu um að laun yrðu hækkuð til samræmis við sambærileg störf hjá Reykjavíkurborg.  Hækkunin átti að koma í áföngum og gekk fyrsta hækkunin um 4 launaflokka eftir sem samsvaraði um 12,6% hækkun.  Um mánaðamótin september/október átti að koma 4% launahækkun til viðbótar og um áramótin 2006/2007 átti að hafa náðst að jafna kjörin til samræmis við launakjör Reykjavíkurborgar.

Nú undanfarið hafa staðið yfir viðræður við forsvarsmenn SFH um að binda áður útgefnar yfirlýsingar um launahækkanir inn í kjarasamning.  Á fjölmörgum öðrum ríkisstofnunum svo sem Landspítala Háskólasjúkrahúsi hefur launahækkunum verið fylgt eftir með nýrri launainnröðun í stofnanasamningi.  Þar sem forsvarsmenn SFH  telja sig ekki hafa fengið nægjanlegt fjármagn frá ríkinu til þess að ábyrgjast þær áfangahækkanir sem áður hafði verið lofað, treysta þeir sér ekki til þess að ganga frá nýjum stofnana-samningi þar sem ný launainnröðun væri fest í sessi.  Þá segja þeir jafnframt að sú launahækkun sem átti að koma um næstu mánaðamót verði að öllum líkindum ekki greidd að fullu.  Það er því komin upp afar flókin staða, þar sem að reiknimeisturum ríkisvaldsins og hjúkunarheimila ber ekki saman um hvaða fjárhæðum skuli útdeilt til þess að standa undir þeim launahækkunum sem lofað hafði verið. 

Enn á ný er komið upp óvissuástand sem hlýtur jafnframt að bitna á skjól-stæðingum hjúkrunarheimila.  Þá er það jafnframt kaldhæðnislegt að þær almennu launahækkanir sem fylgdu í kjölfarið skyldu miðast við þær aðgerðir sem að þessi hópur barðist fyrir og er síðan ekki að að fá loforðin efnd.