Námstyrkir mikil hvatning

12. 09, 2006


Byrjaði í náminu fyrir 25 árum

Námsstyrkir mikil hvatning

– segir Markús Gunnarsson sem lauk námi í húsasmíði síðastliðið vor

Sambýliskona mín fór í nám í fataiðn í Iðnskólanum fyrir 25 árum og ég ákváð að fara líka og læra húsasmíði. Þegar ég hafði lokið tveimur önnum hætti ég í skólanum og vann í byggingarvinnu um hríð. Konan mín hélt þó áfram og kláraði námið, segir Markús Gunnarsson en hann lauk námi í húsasmíði sl. vor. Markús er gott dæmi um einstakling sem ákveður að hverfa aftur til náms og ljúka því sem ekki tókst á sínum tíma.
Markús segist hafa hætt í byggingarvinnunni og farið að vinna í timbursölu hjá Húsasmiðjunni í Súðarvogi og við ræstinga í Fossvogsskóla. Ég vann hjá Húsasmiðjunni í 15 ár, en ákvað þá að söðla um og réði mig aftur í byggingarvinnu, segir hann.
Markús segir ástæðuna fyrir því hafi verið að hann hafi alltaf langað til þess að klára húsasmíðina og fyrir tveimur árum hafi hann svo ákveðið að drífa í því og sótt um í kvöldskóla í Iðnskólanum.
Námið gekk mjög vel. Ég fékk fjórar annir metnar frá fyrra námi og starfsreynslu og það stytti námstíman um tvö ár. Það var eiginlega lítið eftir nema einstaka áfangi í bóklegu námi.
Ég komst á námssamning hjá Eykt, byggingarfyrirtækinu sem ég hef unnið hjá undanfarin ár og þeir hafa stutt vel við bakið á mér á námstímanum. Svo hélt ég áfram að vinna við ræstingar í Fossvogsskóla og greiddi félagsgjöld til Eflingar og það veitti mér rétt til þess að sækja um námsstyrki hjá félaginu sem hafa létt mikið undir fjárhaginn, segir hann. Ég er viss um að námsstyrkir sem hægt er að sækja um hjá fræðslusjóðum félagsins hafa orðið mörgum félagsmönnum hvatning til að afla sér meiri menntunar og það er frábært.
Aðspurður um frekara nám svarar Markús á þá leið að sveinsprófið verði að duga í bili. En ég veit til þess að nokkrir samstarfsmenn mínir eru í meistaranámi og námi í byggingartæknifræði og það er aldrei að vita nema maður feti í fótspor þeirra seinna.
Markús segir að vinnudagurinn hafi oft verið langur en það hafi alveg verið þess virði að leggja alla þessa vinnu á sig hvað launin varðar og af ýmsum öðrum ástæðum.
Þegar hann er spurður um sumarfrí, segir hann að það hafi að mestu farið í prófin en ég komst í veiðiferð í þrjá daga, sagði Markús að lokum.

Markús er í sambúð með Ragnhildi Rögnvaldsdóttir húsverði í Grandaskóla. Þau eiga þrjú börn og yngsti sonur þeirra byrjar í námi í húsasmíði í Iðnskólanum í haust.