Stolt af framlagi Eflingar

12. 09, 2006


Hjálparstarf SAM á Indlandi

Stolt af framlagi Eflingar

– segir Halldóra Karlsdóttir

Ég sá það í Fréttablaði Eflingar að félagið er að styðja starf SAM Hreyfingarinnar á Indlandi og verð að segja að ég varð mjög stolt af því að íslenskt stéttarfélag skyldi velja sér verkefni af þessu tagi á Indlandi. Félagið hefði að mínu mati ekki getað valið betri samstarfsaðila og verðugra verkefni en þetta, segir Halldóra Karlsdóttir sem þekkir vel til starfa Social Action Movement á Suður Indlandi.

Halldóra hefur verið sjálfboðaliði hjá Hjálparstarfi Kirkjunnar og kynntist þar starfi SAM samtakanna. Hún fór ásamt níu öðrum Íslendingum til Indlands árið 1996 til að kynna sér starfsemi og verkefni samtakanna og hrifust þau mjög af öllu starfi SAM. Skipuleggjandi þessa mannréttindastarfs er Fr. P.B. Martin og hefur hann unnið mikið og merkilegt starf í þágu þeirra sem neðst eru í virðingarstiganum.  Hefur þessi hópur síðan verið í sambandi við SAM og Martin og árlega styrkt ýmis verkefni hjá SAM. Þekkja þau því vel til þeirra stétta sem nú er verið að aðstoða með framlagi Eflingar-stéttarfélags. Íslendingar geta varla ímyndað sér hvernig staða þessa fólks er, segir Halldóra.  Það er fótum troðið í réttindum og niðurlæging þess sem vinnandi fólks og mannlega séð er alger.  

Það sem er svo mikilvægt í þessu er að starf SAM er þannig skipulagt að það snýst um fræðslu og aðstoð við að byggja upp heilbrigt mannlíf fyrir fólk sem býr við réttleysi og neyð.

Nokkur hópur Íslendinga hefur verið á þessum slóðum undanfarin ár og kynnt sér starfið og styrkt það með ýmsum hætti.  Þetta er mjög gott starf sem Hjálparstarf Kirkjunnar er með á Indlandi og Jónas Þórisson, framkvæmdastjóri samtakanna er líka réttur maður á réttum stað í þeim verkefnum, sagði Halldóra að lokum.