Ný viðhorfskönnun Capacent Gallup
Langur vinnutími áhyggjuefni
– segir Harpa Ólafsdóttir
Ný viðhorfskönnun sem að Capacent Gallup vann meðal félagsmanna Eflingar og annarra aðildarfélaga innan Starfsgreinasambandsins staðfestir langan vinnutíma verkafólks á Íslandi. Meðalvinnutími hjá þeim sem vinna fullt starf eru ríflega 51 stund á viku og meðalfjöldi yfirvinnustunda 11,1 stundir. Þá sýna gögn Hagstofunnar að vinnustundir hjá verkafólki hafa aukist um eina klukkustund frá 1998 á meðan vinnutími almennt hefur styst um tvær klukkustundir, segir Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur Eflingar.
Vinnutíminn lengstur á Austurlandi
Samkvæmt Gallup eru meðalvinnustundir hjá þeim sem vinna fullt starf eru ríflega 51 stund á viku eða 55,3 stundir hjá körlum og 44,6 stundir hjá konum. Á félagssvæði Eflingar er vinnutíminn aðeins styttri eða 53,4 stundir hjá körlum og 44,2 stundir hjá konum.
Meðalyfirvinnustundir á landinu öllu eru ríflega 11 stundir á viku og eru þær flestar á Austurlandi eða tæplega 17 stundir á viku. Sé þetta greint eftir störfum, þá er meðalyfirvinnutími tækjamanna og bílstjóra 21,4 stundir á viku.
Hafa laun hækkað í sama hlutfalli og vinnutíminn ?
Niðurstöður Gallups leiða í ljós að meðalheildarlaun þeirra sem eru í fullu starfi eru nú 245þúsund kr. eða 276þúsund hjá körlum og 194þúsund hjá konum.
Þá er fróðlegt að skoða hver launaþróun hefur verið undanfarin ár í hlutfalli við aukinn vinnutíma. Samkvæmt Hagstofunni voru meðalheildarlaun verkafólks 253þúsund kr. fyrir árið 2005 eða 272 þúsund hjá körlum og 199 þúsund hjá konum. Þess ber að geta að í gögnum Hagstofunar eru ekki laun verkafólks sem sinna opinberum störfum þar sem konur hafa alla jafna verið fjölmennari svo sem í umönnununarstörfum. Frá 1998 til 2005 hafa meðalheildarlaun verkafólks hækkað um 70% en á sama tíma hækkuðu meðalheildarlaun allra hópa um tæp 75% og vinnutíminn lengdist hjá verkafólki um eina klukkustund en styttist almennt um tvær stundir. Þá hafa meðaldagvinnulaun verkafólks hækkað um 77% fyrir sama tímabil en meðaldagvinnulaun almennt um 93%.
Þróun vinnutímans í öðrum Evrópuríkjum
Hnattvæðing hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Með aukinni hnattvæðingu felast ákveðin tækifæri í því að lönd eins og Ísland geta sérhæft sig meira í tækniiðnaði á meðan lönd eins og Kína sérhæfðu sig í fataiðnaði.
Hin neikvæðu áhrif hnattvæðingar eru þau að vinnutíminn hefur verið að lengjast í Evrópu. Skemmst er að minnast þegar starfsmönnum Siemens verksmiðjunnar í Þýskalandi var stillt upp við vegg og gert að vinna lengri vinnudag fyrir sömu laun ella yrði verksmiðjunum lokað.
Það er því nauðsynlegt að vera á varðbergi og leggja áherslu á verðmæti starfa okkar. Í því samhengi mun endur- og símenntun skipa stóran sess hjá okkur.