Fræðslufundur hjá faghópi félagsliða

29. 11, 2006

 
Atli Lýðsson fræðslustjóri Eflingar fer yfir starfsmenntunarmöguleika hjá Félagsliðum

 

Áhugaverð erindi

Fræðslufundur hjá faghópi félagsliða

 
Á fræðslufundi sem haldinn var hjá faghópi félagsliða í Kiwanishúsinu, mánudaginn 27. nóvember síðastliðinn kom margt áhugavert fram. Hanna Lára Steinsson forstöðumaður Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd kynnti nýútkomna bók sína; „Í skugga Alzheimers”. Þá fór Atli Lýðsson yfir símenntunarmöguleika hjá félagsliðum. Einnig var kynning á ferð félagsliða sem farin var í maí síðasliðnum til Færeyja.
Í erindi Hönnu Láru kom fram að hlutfall fólks með heilabilun hefur fjölgað mjög og er áætlað að í kringum árið 2030 verði um 5500 manns með þennan sjúkdóm. Því miður hefur þjónusta við aldraða og aðstandendur ekki aukist að sama skapi. Það kom fram að nú eru tíu rúm lokuð á Landakoti vegna manneklu og stendur til að loka fjórum í viðbót í næsta mánuði. Sem úrræði nefndi Hanna Lára að til þyrfti að koma ráðgjafarmiðstöð og skammtímainnlagnir. Einnig vantaði fleiri dagdeildir og sambýli ásamt stærra hlufalli sérhæfðra hjúkrunarrýma. En umfram allt þyrfti samfellu í þjónustu.
Atli steig næstur í pontu og sagði frá ýmsum starfsmenntunarmöguleikum sem standa félagsliðum til boða. Hann sýndi dæmi um nokkur námskeið hjá Framvegis og endurmenntun Háskóla Íslands sem gætu hentað félagsliðum. Einnig lagði hann áherslu á að sjálfsagt væri að leita til Eflingar varðandi sérhönnuð námskeið fyrir félagsliða og lýsti eftir góðum hugmyndum á fundinum. Að lokum kom fram að tvær nýjar félagsliðabrýr eru að fara af stað nú í janúar. Önnur brúin er ætluð starfsfólki af erlendum uppruna og miðast kennslan þar við að þátttakendur hafi annað móðurmál en íslensku.
Í kynningu á ferð félagsliða til Færeyja kom fram að þar er töluverð samvinna á milli heimaþjónustu og heimahjúkrunar en hvort tveggja er í umsjón sveitar-félagsins. Í Færeyjum er heimaþjónustan mjög fjölþætt og lögð rík áhersla á umönnun aldraðra og eru almenn þrif einungis lítill þáttur í þjónustunni. Hér á Íslandi hefur hins vegar ekki tekist sem skyldi að víkka út heimaþjónustuna, þannig að heimaþjónustan sé ekki nánast einskorðuð við almenn þrif. Færeyingar ætla sér í auknum mæli að nýta sér menntun félagsliða við heimaþjónustu og umönnun á hjúkrunarheimilum.  Frá því í mars á þessu ári hafa Færeyingar getað sótt sér félagsliðamenntun í Þórshöfn en þeir höfðu áður þurft að leita sér þessa menntunar í Danmörku.