Skuldajöfnuður við launafólk ekki liðin tíð

14. 12, 2006

Skuldajöfnuður við launafólk ekki liðin tíð

Atvinnurekandi fékk sexfaldan reikning

– fyrir þvergirðingshátt

Allt fram á fyrri hluta 20. aldar tíðkaðist það að greiða verkafólki kaup með vörum, fæði, fatnaði, húsnæði og þannig mætti áfram telja.  Fjöldi atvinnurekenda hafði nánast sjálfdæmi um verðmæti úttekins varnings og hlunninda og verkafólk var hlunnfarið í stórum stíl og fékk lítið sem ekkert útborgað í reiðufé til að framfleyta fjölskyldum sínum.  Þetta ófremdarástand leiddi til þess að Alþingi setti lög um greiðslu verkkaups á árinu 1930 sem enn eru í gildi.  Nýlegt mál sem Atli Gíslason, lögmaður Eflingar rak fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sýnir að þessi gamli hugsunarháttur er síður en svo úr sögunni.
Í lögunum er mælt fyrir um að verkkaup skuli greitt með gjaldgengum peningum og að ekki megi greiða kaupið með skuldajöfnuði, nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið.  Ennfremur að verkkaupið skyldi greitt vikulega. 
Einhver kynni að hugsa sem svo að þessi 76 ára gömlu lög gegn ofurvaldi atvinnurekenda á fyrri hluta 20. aldar hefðu ekki þýðingu í dag.  Því fer fjarri og á síðustu árum hafa þau verið traust  haldreipi í fjölmörgum málum sem rekin hafa verið fyrir félagsmenn Eflingar fyrir dómstólum, einkum í málum útlendinga.  Þeir eru mun oftar hlunnfarnir af atvinnurekendum en íslenskir launamenn.  Minnir ástandið stundum á atvinnukúgun sem tíðkuð var á Íslandi fyrir hartnær 100 árum.   

  
Nýlegt dæmi um frádrátt frá launagreiðslum

Nýlega gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli lettnesks launamanns gegn atvinnurekanda í Reykjavík.  Þar var deilt um frádrátt frá launagreiðslum vegna fæðis, húsnæðis og meints útlagðs kostnaðar að fjárhæð 156.073 kr. Atvinnurekandinn áætlaði fæði og húsnæði nánast eins og Lettinn, Vilnis Leja, hefði dvalið á hóteli og framvísaði algjörlega ófullnægjandi gögnum um meintan útlagðan kostnað og fleira.  Um skuldajöfnuð hafði aldrei verið samið og taldi Vilnis að samið hefði verið um að fæði og húsnæði fylgdi. 
 

Atvinnurekandi hafnar samningum….

Ítrekað var leitast við að semja um málið en atvinnurekandi hafnaði öllum tilboðum, jafnvel að greiða eingöngu höfuðstól kröfunnar.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í september sl. var gengið að öllum kröfum Lettans og atvinnurekandanum auk þess gert að greiða vexti og málskostnað.  Rökstuðningur dómarans var einfaldlega þessi
„Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups má eigi greiða kaup með skuldajöfnuði nema um það hafi áður verið sérstaklega samið.  Ósannað er að slíkt samkomulag hafi komist á milli aðila, enda er ágreiningur með þeim um réttmæti greindra frádráttarliða.  Þá verður hvorki talið að krafa stefnda um endurgreiðslu kostnaðar vegna fæðis og húsnæðis né aðrir liðir gagnkröfu hans hafi slík tengsl við launakröfu stefnanda að til skuldajöfnunar geti komið.  Verður því gagnkröfu stefnda í málinu hafnað.  Samkvæmt framansögðu verður dómkrafa stefnanda tekin til greina eins og hún er sett fram í dómsorði.“
Þvergirðingsháttur atvinnurekandans og forneskjuhugsun varð honum dýrkeypt.  Þegar upp er staðið má ætla að hann hafi þurft að greiða milli 700.000 kr. og 800.000 kr. vegna málsins að meðtalinni þóknun til lögmanns síns.
 
 


Ákvað að berjast til þrautar

Skapa fjölskyldu minni betra líf

– segir Vilnis Leja frá Lettlandi

 
Vilnis Leja hóf störf hjá Gróðrastöðinni Lambhaga í júlí 2005 og segir að vinnuveitandi sinn hafi sagt að hann fengi frítt fæði og húsnæði á vinnustaðnum. Hann segir líka að samskipti sín við vinnuveitandann  hafi gengið vel fyrstu tvo mánuðinna. En þá hafi snurða hlaupið á þráðinn eftir að  honum varð ljóst að vinnuveitandinn hafði dregið af laununum uppí kostnað vegna fæðis og húsnæðis.
 Ég fór til hans og benti honum á þessi mistök. En hann vildi ekki kannast við að ég ætti að hafa frítt fæði og húsnæði.
Vilnis segir að hann hafi þá haft samband við vini sína og þeir hafi ráðlagt sér að hafa samband við Eflingu.
Starfsmaðurinn sem tók málið að sér hafði samband við vinnuvetanda minn en það bar heldur engan árangur. Þá var ég sendur til fundar við Atla Gíslason, lögmann félagsins, og eftir að hann hafði kynnt sér málið var ákveðið að fara með það fyrir dóm. Núna liggja niðurstöðurnar fyrir.
Vilnis segir að sér hafi liðið mjög vel þegar niðurstöður dómsins voru birtar. Sennilega hefðu margir vilja gleyma þessu og farið heim. En ég ákvað að berjast og þetta varð niðurstaðan eftir eins árs baráttu, segir hann.
Vilnis flutti á Eyrarbakka og starfa núna hjá Málningarþjónustu Suðurlands og horfir björtum augum til framtíðar.
 Þegar ég hafði unnið í sex mánuði hjá Málningarþjónustunni hafði mér tekist að leggja fyrir peninga í banka í Lettlandi, gat keypt íbúð þar sem konan mín og sonur búa núna. Ég gleðst yfir að geta  skapað þeim betra líf í heimalandi okkar, sagði Vilnis að lokum.