Lesblindir ná tökum á texta

19. 01, 2007


Hópurinn sem var útskrifaður, ásamt Huldu Ólafsdóttur, framkvæmdarstjóra Mímis-símenntunar lengst til vinstri í aftari röð og Hólmfríði E. Guðmundsdóttur Davis ráðgjafa lengst til hægri í aftari röð.

Lesblindir ná tökum á texta

Hæfileikinn er í myndrænni hugsun

– segir Hólmfríður E. Guðmundsdóttir, ráðgjafi

Hér er að sjálfsögðu ekki um neina töfralausn að ræða en nemendur upplifa á stundum ákveðna hugljómun og er það líklega vegna þess að sá hæfileiki sem lesblindunni fylgir er nú nýttur til að yfirvinna hindranirnar. Þetta sagði Hólmfríður E. Guðmundsdóttir, Ron Davis ráðgjafi, í áhrifamiklu ávarpi til nýútskrifaðra nemenda á lesblindunámskeiði.  Hæfileikinn, sagði hún, lýsir sér í myndrænni hugsun og að geta séð fyrir sér í þrívídd en einmitt sá eiginleiki getur valdið erfiðleikum þegar unnið er með tvívíð tákn eins og stafi.  Öll erum við þannig að við höfum tilhneigingu til að nota það sem við erum góð í og þess vegna beitir lesblindur einstaklingur þrívíddargáfunni ósjálfrátt á stafi og tákn.  En þar virkar hún alls ekki, stafir geta snúist, víxlast og jafnvel horfið og heilu setningarnar misskiljast, sagði hún.

Nýlega voru 14 nemendur útskrifaðir af lesblindunámskeiði hjá Mími-símenntun. Námskeiðið bar yfirskriftina „Aftur í nám“ og er  byggt á svokallaðri Ron Davis aðferð. Það var áhrifamikið að hlýða á Hólmfríði E. Guðmundsdóttir, Davis ráðgjafa ávarpa nemendur en hún hefur séð um skipulagningu námsins í samvinnu við Mími-símenntun. Hún sagði m.a. að 40 kennslustundir af þessu námskeiði væru einkatímar þar sem svo kallaðri Davis aðferð væri beitt við að ná tökum á lesblindunni. 
Með Davis aðferðinni lærir fólk að stjórna athygli sinni og einbeitingu og er í raun að þjálfa skynjun sína upp á nýtt þannig að það verður auðveldara að lesa, skrifa og úthald eykst í allri textavinnslu.  Flestir eru að eðlisfari bæði myndrænir og orðrænir en lesblindir eru nánast undantekningarlaust miklu meira myndrænir.  Það þýðir að orð þurfa að eiga sér mynd í huganum til þess að fullur skilningur náist. Þegar mikið er af myndlausum orðum í texta er líklegt að sá lesblindi missi þráðinn, það kemur eyða í frásögnina og athyglin er flogin.
Þarna kemur leirinn til sögunnar. Við búum til myndir fyrir myndlaus orð í leir eftir að hafa flett upp í orðabók, veltum fyrir okkur mismunandi merkingu og notkun eftir samhengi og búum til setningar út frá orðinu.  Þetta er hörkuvinna og aðeins lítill hluti gerður á sjálfu námskeiðinu.  Svo fullur árangur megi nást er nauðsynlegt að leira öll myndlaus orð í íslensku en þau eru talin vera yfir 300.  Öll þessi leirvinna getur nýst í að efla kunnáttu í öðrum tungumálum, stafsetningu og stærðfræði svo eitthvað sé nefnt.
Hún sagði að sér væri enn í fersku minni þegar hún heyrði fyrst af Davis aðferðinni hvað henni fannst fáránlegt að líkja lesblindu við náðargáfu og að fólk ætti í raun að vera ánægt með að vera lesblint.  Bróðir hennar er lesblindur og hún sagðist muna  vel þjáninguna sem hann gekk í gegnum alla sína skólagöngu og þá vissu hans að hann væri heimskur og algjörlega vonlaus um að það myndi nokkurn tíma breytast.  Þetta átti að sjálfsögðu bara við um bóklegar greinar.  Honum gekk vel í smíði og allt lék í höndunum á honum og gerir enn í dag. 
Seinna þegar hún fór sjálf að kenna var hún með nemanda sem gat ekki lært að lesa, þá 12 ára gamall.  Það var alveg sama hvað var reynt, stafir sneru vitlaust, orð vitlaust skrifuð og það sem gekk þokkalega í dag var gleymt á morgun.  En þið hefðuð átt að sjá myndirnar sem hann teiknaði. Það datt engum í hug að það sem hann gerði svo snilldarlega gæti á einhvern hátt tengst lesblindunni, sagði hún að lokum.