Sumar á Vatnsnesi og Skaga

19. 01, 2007

Spennandi ferð á slóðir Grettissögu

Sumar á Vatnsnesi og Skaga

Fyrri sumarferð Eflingar-stéttarfélags um Vatnsnes og Skaga verður farin dagana 28. til 30. júní n.k. Ekið verður á fimmtudeginum að Steinsstöðum en Steinsstaðir eru í næsta nágrenni við Varmahlíð í Skagafirði. Það verður gist í tvær nætur. Á leiðinni til Steinsstaða verður komið við á sögufrægum stöðum og harla líklegt að staldrað verði við á Bjargi, heimaslóðum Grettis Ásmundarsonar. Á föstudeginum verður farið um Vatnsnes og Skaga.
Á Vatnsnesi er margt að skoða t.d. Hvítserk og margt er þar frásagnarvert. Gott útsýni er þar til Strandafjalla. Þaðan er ferðinni heitið til Skaga en svo heitir hinn mikli skagi sem er á milli Húnaflóa og Skagafjarðar.  Náttúrufegurð er mikil á Skaga og ýmislegt sem ber fyrir augu ferðamanna.
Innifalið í ferðinni er akstur, leiðsögn, gisting á Steinsstöðum, morgunverðir og kvöldverðir. Fólk  þarf að hafa með sér nesti fyrir daginn en oftast er hægt að kaupa kaffi á brúsa á gististöðunum. Þá er rétt að minna á góðan fatnað og góða skó.
Innritun í ferðina hefst 12. mars á skrifstofu Eflingar – stéttarfélags í síma  510 7500.

Sama skráning

Ferðin kostar kr. 18.000.-