Þúsundir fengu vaxtabætur í desember

19. 01, 2007

Þúsundir fengu vaxtabætur í desember

Árangur sem skiptir máli

– segir Atli Gíslason, lögmaður Eflingar

Í desembermánuði sl. fengu um fimmtán þúsund einstaklingar  leiðréttar vaxtabætur frá ríkinu. Leiðréttingin á rætur að rekja til skattframtala hjá Eflingu-stéttarfélagi en við vinnu er tengdist framtölum hjá félaginu kom í ljós að fjölmargir framteljendur í félaginu myndu fá minni eða engar vaxtabætur vegna hækkunar fasteignamats um áramótin þar á undan. Atli Gíslason, lögmaður Eflingar, tók málið síðan upp á þingi og ríkisstjórnin hét því við framlengingu kjarasamninga í sumar að endurskoða vaxtabæturnar ef við álagningu kæmi í ljós að marktæk skerðing hefði orðið á bótunum.
Auðvitað erum við ekki sátt við þessa niðurstöðu, segir Atli Gíslason, en þetta er samt árangur sem skiptir máli. Þetta sýnir auðvitað hvað það er nauðsynlegt að sýna stjórnvöldum aðhald því hækkun fasteignamatsins var ekki annað en tölur á pappír fyrir fólk sem hafði gert sínar áætlanir þar sem vaxtabætur voru hluti af fjármögnunardæmi íbúðarkaupa.
Alls voru greiddar út um 577 milljónir króna til 15000 framteljenda og var upphæðin allt frá fimm þúsund og upp í 80 þúsund kr. á hvern framteljenda. Þær miðast við nettóeign upp á 4.8 milljónir hjá einstaklingi og um 8 milljónir hjá hjónum.
Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að við hefðum viljað að stjórnvöld skiluðu öllum sem fengu skerðingu á bótunum sínum hlut en því miður tókst ekki að knýja það fram. Þetta veldur því að grunnurinn að vaxtabótakerfinu skekkist að þessu marki til framtíðar, en mér finnst skipta miklu máli að hafa náð þessum árangri, segir Atli.